logo-for-printing

18.06.2002

Seðlabanki Íslands lækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans í endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir um 0,3 prósentur í 8,5% frá næsta uppboði sem haldið verður 25. júní n.k. Aðrir vextir bankans lækka einnig um 0,3 prósentur frá 21. júní n.k. ef frá eru taldir vextir á innstæðum á viðskiptareikningum lánastofnana í Seðlabankanum sem verða óbreyttir.

Seðlabankinn lækkaði síðast vexti í endurhverfum viðskiptum um 0,5 prósentur frá 21. maí sl. með vísun til þess að óvissu um kjarasamninga hafði verið eytt og að góðar líkur væru á að verðbólguspá bankans frá því í byrjun maí myndi rætast. Í frétt bankans um þá vaxtalækkun sagði að hjaðnaði verðbólga áfram í samræmi við spá bankans sem birt var í Peningamálum í maí myndu vextir að óbreyttu lækka frekar á komandi mánuðum.

Breyting vísitölu neysluverðs í júní hefur enn aukið líkur á að spá bankans frá því í maí gangi eftir enda var hækkun vísitölunnar í maí og júní í mjög góðu samræmi við spána. Þá sjást ekki mikil merki þess að hugsanleg upphlaðin verðhækkunarþörf hafi komið fram en of snemmt er þó að fullyrða að slíkt gerist ekki í einhverjum mæli. Það styrkir enn frekar lækkun vaxta nú að gengi krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt á undanförnum vikum.

Þrátt fyrir þessa vaxtalækkun er aðhaldsstig peningastefnunnar töluvert eins og það birtist í raunvöxtum, enda verðbólgualda nýgengin yfir. Í ljósi samdráttar eftirspurnar verður því að óbreyttu tilefni til frekari lækkunar vaxta á komandi mánuðum. Tímasetningar ráðast hins vegar af framvindunni og mati á horfum en Seðlabankinn mun næst birta verðbólguspá og nýtt mat á ástandi og horfum í efnahagsmálum í byrjun ágúst.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 21/2002
18. júní 2002

Til baka