logo-for-printing

06. júní 2002

Greiðslujöfnuðurinn við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins í janúar-mars 2002

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahalli við útlönd 1,5 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins. Á sama tíma í fyrra var viðskiptahallinn 18,5 milljarðar króna. Á föstu gengi minnkaði hallinn um 19,5 milljarða króna[1]. Minni viðskiptahalli stafar einkum af samdrætti í inn­flutningi vöru og þjónustu og í þáttagjöldum, en útflutningur jókst lítillega frá fyrra ári. Afgangur á vöruskiptajöfnuði nam 5,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra var 7,1 milljarðs króna vöruskiptahalli. Halli á þjónustuviðskiptum var 1,3 milljarðar króna en hann var 2,4 milljarðar króna á sama tíma í fyrra. Hreinar þáttatekjur voru neikvæðar um 5,5 milljarða króna sem er þremur milljörðum króna lægri fjárhæð en á sama tíma í fyrra. Þar munar mest um minni vaxtabyrði af erlendum skuldum vegna vaxtalækkana á erlendum lánamörkuðum.

Innstreymi fjár mældist 11,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi, fyrst og fremst vegna erlendrar lántöku í formi skuldabréfaútgáfu og bankalána. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 9,6 milljörðum króna sem var nær helmingi meira en á sama tímabili í fyrra. Beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis námu 1,4 milljörðum króna en fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi voru litlar sem engar. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst lítillega á fyrsta fjórðungi ársins og nam hann 36 milljörðum króna í lok mars 2002.

 

19/2002
6. júní 2002

Prentvæn útgáfa fréttar (pdf-skjal)

 

 

Til baka