logo-for-printing

16.04.2002

Staðfest lánshæfismat ríkisins

Moody's Investor Service segir að minnkandi þjóðhagslegt ójafnvægi styðji óbreytt mat á horfum fyrir lánshæfiseinkunn Íslands, Aa3, á lánum í erlendri mynt.

Matsfyrirtækið Moody's Investors Service tilkynnti í dag að minnkandi þjóðhagslegt ójafnvægi styddi óbreytt mat á horfum fyrir lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Í nýrri ársskýrslu nefnir Moody's nokkrar ástæður fyrir óbreyttum horfum á lánshæfiseinkunnum Íslands, sem eru Aa3 á lánum í erlendri mynt og Aaa á skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í íslenskum krónum. Þar er nefnt þróað hagkerfi, háar og jafnar þjóðartekjur á mann og stöðugt stjórnmálaástand. Skipulagsumbætur liðins áratugar juku fjölbreytni í efnahagslífinu, leiddu til mikils hagvaxtar, verðstöðugleika og verulega minni skulda hins opinbera.

Áhyggjur Moody's af þjóðhagslegu ójafnvægi í kjölfar mikils hagvaxtar sem varði í nokkur ár hafa sefast að hluta vegna umtalsverðrar aðlögunar á liðnu ári sem réttlætir óbreyttar horfur (fyrir lánshæfismatið). Viðskiptahallinn minnkaði um meira en helming í kjölfar mikillar gengislækkunar og vegna þess að stórum fjármagnsfrekum verkefnum á vegum erlendra aðila er nú lokið. Þrátt fyrir að erlend nettóstaða þjóðarbúsins hafi versnað verulega á árinu 2001 er búist við að minnkandi viðskiptahalli og styrking krónunnar að undanförnu bæti erlend skuldahlutföll þjóðarbúsins þegar á þessu ári.

Matsfyrirtækið greinir enn fremur frá því í skýrslu sinni að komið hafi á óvart hve lending efnahagslífsins hafi verið mjúk fram að þessu. Hagvöxtur hafi verið 3% þrátt fyrir hraðvaxandi verðbólgu og fyrstu vísbendingar um aukið atvinnuleysi. Verðbólgumarkmið Seðlabankans var tekið upp við erfiðar aðstæður og verðbólgan var ítrekað vanmetin. Skuldir og greiðslubyrði ríkissjóðs eru enn í góðu horfi, þrátt fyrir að gengislækkunin hafi hækkað umtalsvert þann hluta skuldanna sem eru í erlendri mynt og að gert sé ráð fyrir að rekstrarafgangur ríkissjóðs verði að engu á þessu ári um leið og landsframleiðsla dregst saman.

Moody's lagði áherslu á að ýmsir óvissuþættir væru enn til staðar, sérstaklega verðbólguhorfur þar sem kjarasamningar kynnu að verða lausir í maí. Vegna hárra erlendra skulda er sérstaklega mikilvægt að hæfilegt jafnvægi ríki á milli stefnunnar í ríkisfjármálum, peningamálum og kjaramálum til að sjálfbær hagvöxtur náist til lengri tíma litið. Fari t.d. svo að krónan haldi áfram að styrkjast, hagvöxtur verði meiri en áætlað er eða hafist verði handa við fjárfrekar framkvæmdir er óvíst að viðskiptahallinn minnki frekar. Það myndi vekja upp áhyggjur um alvarlegri og sársaukafyllri aðlögun síðar meir. Við þetta bætast áhyggjur af bankakerfinu sem jók erlendar skuldir sínar mjög á liðnum uppgangsárum. Afleiðingin er lakari gæði eigna sem varð tilefni aukinna afskriftaframlaga þótt helstu bankarnir sem njóta lánshæfismats séu reknir með hagnaði.

Á heildina litið er Moody's þeirrar skoðunar að aðlögunarhæfni Íslands í sögulegu tilliti dugi vel ef harðnar á dalnum. Traust staða opinberra fjármála og greiður aðgangur að erlendu lánsfé veita nægilegt svigrúm til að bregðast við erfiðleikum þrátt fyrir nokkra óvissu.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.

 

Nr. 13/2002
16. apríl 2002

Til baka