logo-for-printing

11. mars 2002

Mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum virkjana og álversbyggingar

Seðlabanki Íslands hefur nýlega svarað fyrirspurn og veitt umsögn um efnahagsleg áhrif virkjana norðan Vatnajökuls og byggingar álvers á Reyðarfirði. Annars vegar er um að ræða umsögn samkvæmt ósk iðnaðarnefndar Alþingis um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Hins vegar svaraði Seðlabankinn fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi um mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa Noral-verkefnisins.

Umsagnir Seðlabankans fylgja hér með:

 

Svör Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á þingskjali 726 - 455. mál

Í fyrirspurn til forsætisráðherra spurði Jóhanna Sigurðardóttir um mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa Noral-verkefnisins, þingskjal 726 - 455. mál. Nokkrir þættir fyrirspurnarinnar varða stefnu Seðlabankans. Spurningarnar eru afar umfangsmiklar og ekki mögulegt að svara þeim til fullnustu á þeim skamma tíma sem var til stefnu. Ekki tókst að fá í tíma aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins. Því byggir álit bankans sem hér fer á eftir í veigamiklum atriðum á athugunum Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagslegum áhrifum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður. Hann tekur þær einfaldlega sem gefnar sem undirstöðu undir mat hans á því hvaða áhrif verkefnið kann að hafa á peningastefnuna, vexti, gengi og aðra þá þætti sem snerta bankann mest. Þar sem líkur hafa aukist að undanförnu á að Noral-verkefnið gæti orðið að veruleika hyggst bankinn leggja ítarlegra mat á áhrif þess á peningastefnuna og væntanlega birta í riti sínu Peningamál á næstunni. Úttekt á efnahagsáhrifum er forsenda slíks mats og því mun hugsanlega verða bætt úr annmörkum á eftirfarandi svörum þegar og ef þetta efni birtist.

Svör bankans við einstökum spurningum eru eftirfarandi:

1. Hvaða áhrif hefur Noral-verkefnið á möguleika Seðlabanka Íslands til að ná yfirlýstu verðbólgumarkmiði sínu meðan á framkvæmdum stendur'

Á heildina litið mun verðbólguþrýstingur aukast af völdum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn getur eftir sem áður náð yfirlýstu verðbólgumarkmiði, en til þess mun peningastefnan þurfa að vera töluvert aðhaldssamari en ella. Þó má búast við að verkefnið leiði til hækkunar á gengi krónunnar í aðdraganda og á fyrstu stigum framkvæmdanna og hafi þannig tímabundin áhrif til lækkunar verðbólgu. Þessi gengishækkunaráhrif eru því meiri sem erlend fjármögnun er meiri en því minni sem innflutt aðföng, þ.m.t. erlent vinnuafl, vega þyngra.

2. Telur Seðlabankinn koma til greina að hækka verðbólgumarkmið um tíma og/eða víkka þolmörk peningamálastefnunnar meðan á framkvæmdum stendur' Hvaða áhrif má ætla að slík ráðstöfun hafi á langtímaþróun vaxta, kaupmáttar og hagvaxtar að mati ráðherra og Seðlabankans'

Seðlabankinn telur alls ekki koma til greina að hækka verðbólgumarkmið bankans vegna þessara framkvæmda eða hnika þolmörkum peningastefnunnar. Slíkt myndi grafa undan trúverðugleika verðbólgumarkmiðsins og leiða til hækkunar áhættuálags vaxta í langan tíma á eftir. Afleiðingin yrði sú að mun erfiðara yrði að ná verðbólgumarkmiði bankans á ný sem myndi ásamt hærri vöxtum hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og kaupmátt. Leiði framkvæmdirnar til mikillar spennu á vöru- og vinnumarkaði gæti víxlverkun launa og verðlags orðið hröð ef ekki kemur til mótvægisaðgerða í formi aukins aðhalds í ríkisfjármálum og peningamálum. Því er afar mikilvægt að leitast við að halda verðbólgu niðri á framkvæmdatímanum.

Þolmörk verðbólgumarkmiðsins hafa fyrst og fremst það hlutverk að kalla á ítarlega úttekt - ef þau eru rofin - á ástæðum fráviks frá verðbólgumarkmiði, horfum um að verðbólga verði aftur innan þolmarkanna og aðgerðir sem grípa þarf til svo að markmið bankans náist. Ástæður slíkrar úttektar eru síst minni þegar framkvæmdir standa yfir sem hafa mikil áhrif á þjóðarbúskapinn. Fari svo að verðbólgan rjúfi þolmörkin mun Seðlabankinn, eins og samkomulag ríkisstjórnarinnar og bankans frá 27. mars 2001 kveður á um, gera ríkisstjórninni grein fyrir hvenær hann telji að verðbólgan verði á ný komin inn fyrir þolmörkin og hvaða aðgerðir hann telur nauðsynlegar til þess að ná markmiði bankans eins fljótt og auðið er.

3. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að Noral-verkefnið muni hafa á innlenda vexti, skulda- og hlutabréfamarkað og gengisþróun krónunnar ef ekki verður gripið til mótvægisaðgerða' [Hvert er mat ráðherra á þessu']

Þessi áhrif er almennt erfitt að sjá fyrir og sérstaklega áður en fyrir liggur hvernig verkefnið verður fjármagnað. Þó er ljóst að verulegur hluti fjármagnsins mun koma erlendis frá, í formi láns- og hlutafjár. Því verður að telja líklegt að gengi krónunnar styrkist umtalsvert á einhverju tímabili framkvæmdanna, jafnvel þótt mikill innflutningur muni vega á móti. Það mun um hríð leiða til minni verðbólgu og meiri kaupmáttar en ella. Áhrif verkefnisins á innlenda vexti og fjármagnsmarkað geta átt sér stað eftir nokkrum leiðum:
i) Verði verkefnið að einhverju leyti fjármagnað á innlendum markaði mun það leiða til ákveðinnar samkeppni um innlent lánsfé og hækkunar vaxta. Flest mælir þó með að lánsfé komi að mestu milliliðalaust erlendis frá. Samkeppni við innlend fyrirtæki um erlent lánsfé ættu ekki að vera teljandi, enda að jafnaði ekki um sömu lánveitendur að ræða og nægt framboð erlends lánsfjár til traustra aðila á borð við Landsvirkjun.
ii) Íslenskum lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum hefur verið boðið að taka þátt í fjármögnun verkefnisins. Verkefnið keppir því við aðra innlenda og erlenda fjárfestingarkosti, en þar með teljast minni fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum. Verði viðbrögðin jákvæð kann það að draga úr eftirspurn eftir öðrum innlendum verðbréfum og stuðla að lægra verði þeirra en ella, þ.e.a.s. hærri vöxtum.
iii) Verkefnið kann einnig að hafa neikvæð áhrif á verð innlendra hlutabréfa ef raungengi krónunnar hækkar umtalsvert og samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækja versnar.
iv) Verkefnið mun auka innlenda heildareftirspurn, sem að öðru óbreyttu leiðir til hærri vaxta, bæði beint og fyrir tilstilli aðhaldssamrar peningastefnu.
v) Búast má við að hluti áhrifanna komi fram fyrir tilstilli væntinga. Uppsveifla í væntingum kann að magna enn frekar innlenda eftirspurn og þar með leiða til enn hærri vaxta, en á móti koma áhrif hugsanlegs aukins fjármagnsinnstreymis.

4. Ef tekið er mið af verðbólgumarkmiði Seðlabankans og þeirri forsendu að kaupmáttur launa skerðist ekki á framkvæmdatímanum, hversu umfangsmiklar þurfa mótvægisaðgerðir ríkisvaldsins og Seðlabanka að vera' Með umfangi er átt við:
a. aðhald í opinberum rekstri og framkvæmdum sem hlutfall af VLF,
b. vaxtastig, þ.e. vexti skuldabréfa umfram grunndæmi (stuttra og langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa).

Noralverkefnið mun valda þenslu á vinnumarkaði og því er líklegt að það þrýsti launum upp á við. Ekki er því líklegt að kaupmáttur launa skerðist að óbreyttu vegna þess. Í svarinu hér á eftir er því ekki sérstaklega tekið mið af þeirri forsendu spurningarinnar að kaupmáttur skerðist ekki. Þá er rétt að hafa í huga að innflutningur vinnuafls gæti dregið úr þeirri þenslu sem ella myndi verða á vinnumarkaði.

a) Ekki tókst í tíma að fá aðgang að nauðsynlegum gögnum frá Landsvirkjun og Reyðaráli til þess að leggja mat á þörf fyrir aðhald í opinberum rekstri sem myndi vega á móti áhrifum Noral-verkefnisins. Ekki verður því unnt að svara þessari spurningu nú.

b) Leggja verður ríka áherslu á að það mat sem hér fer á eftir er afar mikilli óvissu háð og aðeins til viðmiðunar. Áhrifin geta að verulegu leyti ráðist af ástandi þjóðarbúskaparins þegar framkvæmdir hefjast og öðrum ytri áhrifum sem þjóðarbúið verður fyrir meðan á þeim stendur. Ef umtalsverð spenna verður til staðar á vinnu- og vörumarkaði þegar framkvæmdir hefjast gætu áhrifin á launaþróun orðið mun meiri en ella. Það ræðst þó að verulegu leyti af því í hve miklum mæli aðflutt vinnuafl gæti komið í stað innlends. Einnig ríkir mjög mikil óvissa um áhrif á væntingar sem gætu leitt til stigmögnunar eftirspurnar. Há skuldastaða heimila um þessar mundir mun þó að öðru óbreyttu draga úr uppsveiflu einkaneyslu. Einn stærsti óvissuþátturinn sem tengist framkvæmdunum er áhrif þeirra á gengi krónunnar. Í þeim framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar. Allar niðurstöður hér á eftir verður að skoða í ljósi þess. Sennilegt er að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær. Gengi krónunnar gæti t.d. hækkað verulega snemma á framkvæmdatímanum og lækkað aftur síðar. Þessar gengissveiflur myndu hafa umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina og veruleg áhrif á raungengi og samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Á móti kemur að hugsanlegt er að Seðlabankinn muni draga úr þessum sveiflum með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Þannig er vel líklegt að tækifærið yrði notað til að efla gjaldeyrisforðann með kaupum á gjaldeyri ef gengið virðist ætla að styrkjast umtalsvert af þessum sökum.

Seðlabankinn mun vinna að því að verðbólga verði sem næst 2½% á ári. Noral verkefnið mun því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og á meðan framkvæmdir eru sem mestar. Búast má við að áhrif á vexti séu mest við eða fyrir upphaf framkvæmda, en síðan dragi úr þeim. Núverandi framkvæmdaáætlanir gera ráð fyrir að mestur þungi verði í framkvæmdum árin 2003 til 2006 og að þær verði einnig töluvert miklar árin 2009 til 2012. Ef reiknað er með að áhrif vaxtabreytinga komi fram u.þ.b. ½ til 2 árum eftir að vöxtum er breytt er ekki ósennilegt að á árabilinu 2002 til 2005 þurfi stýrivextir að jafnaði að vera 1 til 2½ prósentustigum hærri en ella vegna verkefnisins og um 2½ prósentustigum hærri við upphaf tímabilsins. Í jafnvægi þar sem framleiðsluspenna/slaki er engin og verðbólga er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans má ætla að stýrivextir hans séu á bilinu 5½-6½%. Miðað við að grunndæmið feli í sér slíkt jafnvægi gætu nafnvextir bankans orðið 7-9% á tímabilinu. Þetta felur í sér að raunstýrivextir Seðlabankans hækka um 2% frá grunndæmi. Er þá gengið útfrá því að aðhald í opinberum rekstri sé ekki aukið sérstaklega. Á sama hátt má gera ráð fyrir að á árunum 2006 til 2007 verði vextir allt að ½ prósentustigi lægri en ef ekki væri farið út í verkefnið. Árin 2008 til 2011 má reikna með að verkefnið leiði að jafnaði til ½ til 1 prósentustiga hækkunar á stýrivöxtum, eða ½ - 1½ prósentustiga hækkunar raunstýrivaxta.

Áhrif stýrivaxta á skammtímavexti koma jafnan fljótt fram og fylgja stýrivöxtum eftir. Áhrif á langtímavexti eru ekki eins ljós. Þar sem ætla má að langtímavextir séu því sem næst vegið meðaltal væntra skammtímavaxta í framtíð er líklegt að þeir hreyfist í sömu átt og skammtímavextir, en ekki jafn mikið. Að svo miklu leyti sem vaxtahækkun leiðir til væntinga um minni verðbólgu í framtíð, og þar með lægri nafnvaxta, er ekki útilokað að langtímavextir hreyfist í gagnstæða átt við skammtímavexti. Ekki er við því að búast að framkvæmdin hafi varanleg áhrif á raunvexti.

5. Hvaða þýðingu hefur það fyrir aðrar innlendar fjárfestingar á tímabilinu að lánsfé til virkjanaframkvæmda er með ábyrgð ríkis, Reykjavíkur og Akureyrarbæjar og að fjármagnskostnaður er því minni en ella'

Það hefur engin eða hverfandi áhrif á aðra innlenda fjárfestingu að lánsfé til virkjanaframkvæmda er með ábyrgð ríkisins. Landsvirkjun tekur aðeins að litlu leyti lán hjá sömu lánveitendum og innlendir bankar, fjármálastofnanir eða einkaaðilar. Hafi lántökur Landsvirkjunar einhver ruðningsáhrif (neikvæð áhrif) á aðra innlenda lántakendur, ætti það helst við um ríkið. Þess sjást ekki merki og ekki er líklegt að lántökur sem nauðsynlegar eru vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi slík áhrif.

Óvíst er hvort áhrif ríkisábyrgðar á aðrar fjárfestingar eru nokkur. Hugsanlegt er að jaðarfjármagnskostnaður í landinu verði lægri en ella vegna ríkisábyrgðar á lánum til Landsvirkjunar, og ruðningsáhrif því minni. Einnig er hugsanlegt að ríkisábyrgð ráði úrslitum um það hvort ráðist verður í verkefnið. Í því tilfelli hefur ríkisábyrgð mikla þýðingu.

6. Hver er mismunur á framkvæmdakostnaði með og án ábyrgðar ríkis og kemur til greina að veita slíkar ábyrgðir til fleiri áhættuframkvæmda, t.d. byggingar iðnaðarhúsnæðis í eigu einstaklinga'

Hafa verður í huga að Landsvirkjun og aðrir sem taka lán með ríkisábyrgð greiða árlega 0,25% ábyrgðargjald á höfuðstól lánsins á hverjum tíma. Landsvirkjun hefur að undanförnu notið lánskjara sem eru LIBOR-vextir án álags á skammtímalánum. Til samanburðar tók Íslandsbanki nýlega lán að upphæð 375 milljónir evra með LIBOR-vöxtum að viðbættum 0,25%. Hvað eldri útistandandi lán áhrærir til 2½-3½ ára bera lán Landsvirkjunar LIBOR-vexti að viðbættum 0,35%, en lán Íslandsbanka bera vexti sem eru með 0,22% álag á LIBOR-vexti. Nýleg lengri tíma lán Landsvirkjunar bera LIBOR-vexti með 0,06%-0,08% álagi en lán ríkissjóðs til lengri tíma hafa verið með 0,05% álag á LIBOR-vexti. Ekki verður því séð að Landsvirkjun njóti betri kjara en bankar þegar tekið er tillit til ábyrgðargjaldsins. Hins vegar má færa rök fyrir því að ríkisábyrgð á lánum Landsvirkjunar og gott lánshæfismat (sem m.a. leiðir af ríkisábyrgð) auðveldi henni lánsfjáröflun erlendis vegna þess að fleiri lánveitendur koma til greina eftir því sem lánshæfi batnar.

Seðlabankinn telur að almennt sé ríkisábyrgð á lánum óheppileg. Bankinn telur því að frekari ríkisábyrgðir til áhættuframkvæmda væru óheppilegar, þ.m.t. vegna byggingar iðnaðarhúsnæðis í eigu einstaklinga, eins og spurt er um. Slíkar ábyrgðir skekkja áhættumat fjárfestinga og geta skekkt samkeppnisstöðu. Á þessu eru þó alltaf undantekningar sem meta verður í hverju tilfelli, sbr. ríkisábyrgð sem veitt var tímabundið vegna ábyrgðatryggingar á flugflota landsmanna.    
 

Umsögn um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar - 503. mál.


Efni: Frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar

Í bréfi iðnaðarnefndar Alþingis, dags. 20. febrúar sl., var óskað umsagnar Seðlabanka Íslands um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, 503. mál.

Málið sem hér er til umfjöllunar er mjög viðamikið enda er um að ræða eina stærstu fjárfestingu í raforkukerfi landsmanna í sögu þjóðarinnar. Það snertir einnig margvísleg svið, svo sem atvinnumál, umhverfismál, arðsemi og áhættu fjárfestingar Landsvirkjunar, byggðamál, ríkisábyrgðir og fjárhagslegt skipulag í tengslum við áhættufjárfestingar í raforkukerfinu og tengdri stóriðju, þjóðarbú og hagstjórn. Margir þessir málaflokkar falla utan verksviðs Seðlabanka Íslands og mun hann ekki víkja að þeim í þessari umsögn. Ekki tókst að fá í tíma aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins. Því byggir álit bankans sem hér fer á eftir í veigamiklum atriðum á athugunum Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagslegum áhrifum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður. Hann tekur þær einfaldlega sem gefnar sem undirstöðu undir mat hans á því hvaða áhrif verkefnið kann að hafa á peningastefnuna, vexti, gengi og aðra þá þætti sem snerta bankann mest. Seðlabankinn mun á næstunni meta líkleg áhrif þessara framkvæmda og afleiðingar þeirra fyrir stefnuna í peningamálum og birta niðurstöðurnar í ritum sínum.

Þær fjárfestingar í raforkukerfinu sem hér eru til umfjöllunar tengjast áformum um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði sem samkvæmt áætlunum yrði reist í tveimur áföngum, með 240 til 280 þúsund tonna framleiðslugetu í fyrri áfanga sem síðan yrði aukin í 360 til 420 þúsund tonn í síðari áfanga. Miðað við að ákvörðun verði tekin um að ráðast í verkefnið í september á þessu ári mun meginþungi framkvæmdanna í fyrri áfanga leggjast á árin 2004 til 2006, en þá má ætla að 60-65% heildarfjárfestingarinnar eigi sér stað. Verði tekin ákvörðun um stækkun álversins fellur meginþungi seinni áfanga framkvæmdanna á árin 2010 til 2011. Hann verður hins vegar mun minni en hinn fyrri.

Til marks um umfang þessarar fjárfestingar er að þegar hún verður mest á árinu 2005 er áætlað að hún muni nema um 7,7% af landsframleiðslu. Samtals er áætlað að fjárfesting í raforku- og hitaveitum og álverksmiðjum verði 7,9% af landsframleiðslu það ár en til samanburðar nam samskonar fjárfesting 8,6% á árinu 1968 þegar bygging Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík stóð yfir. Hafa ber þó í huga að á árinu 1968 var landsframleiðsla óeðlilega lítil vegna mikils slaka í þjóðarbúskapnum. Sé leiðrétt fyrir því og fjárfestingin sett í hlutfall við framleiðslugetu (jafnvægislandsframleiðslu) verður hlutfallið mjög svipað bæði árin, þ.e. 1968 og 2005, eða rétt rúmlega 8%. Því er ljóst að verkefnið er það stórt að mjög mun reyna á hagstjórn ef það á ekki að leiða til alvarlegrar röskunar á efnahagslegum stöðugleika þjóðarbúsins. Ef byggt er á athugunum Þjóðhagsstofnunar og viðbótarathugunum Seðlabankans á hugsanlegum viðbrögðum peningastefnunnar er það eigi að síður mat bankans að mögulegt sé að rúma þessar framkvæmdir innan hagkerfisins án alvarlegrar röskunar á stöðugleika. Það krefst hins vegar verulegra hærri vaxta en ella í aðdraganda framkvæmdanna. Ef til koma mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum gætu vextirnir orðið lægri en ella. Sama á við ef létt er á aukinni eftirspurn eftir innlendum framleiðsluþáttum með innflutningi erlendra framleiðsluþátta í meira mæli en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi athugun Þjóðhagsstofnunar.

Seðlabankinn lítur ekki á það sem hlutverk sitt að taka afstöðu til málsins í heild enda eru margir þættir þess utan verksviðs hans. Það er fyrst og fremst hlutverk þeirra sem standa að byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði að taka ákvörðun um hvort þeir vilja ráðast í verkið í ljósi væntrar ávöxtunar og áhættu. Með sama hætti verður það viðfangsefni þeirra sem fá það hlutverk að selja álverinu raforku að meta hvort arðsemi og áhætta verður verjanleg. Alþingis verður að meta hvort veita beri málinu brautargengi þar sem vegnir eru saman hugsanlegur ávinningur í hærri þjóðartekjum og byggðaþróun og hugsanleg þjóðhagsleg áhætta og neikvæð umhverfisáhrif. Seðlabankinn bendir hins vegar á að rök kunna að vera til að skoða hvort ekki sé unnt að takmarka áhættu almennings af verkefninu með því að takmarka með einhverjum hætti þær ábyrgðir opinbera aðila sem verða á lánsfjáröflun til orkuframkvæmdanna að öðru óbreyttu. Seðlabankinn hefur almennt verið á móti víðtækri notkun ríkisábyrgða í áhætturekstri og fjármálastarfsemi enda geta þær skekkt áhættumat og samkeppnisstöðu. Á þessu eru þó alltaf undantekningar sem meta verður í hverju tilfelli, sbr. ríkisábyrgð sem veitt var tímabundið vegna ábyrgðartrygggingar á flugflota landsmanna.

Hugsanleg áhrif framkvæmdanna á stefnuna í peningamálum verða sem hér segir. Á heildina litið mun verðbólguþrýstingur aukast af völdum fjárfestingar í álveri á Reyðarfirði og tengdum raforkuframkvæmdum. Seðlabankinn getur eftir sem áður náð yfirlýstu verðbólgumarkmiði sínu en til þess mun peningastefnan þurfa að vera töluvert aðhaldssamari en ella. Að öðru óbreyttu má þó búast við að verkefnið leiði til hækkunar á gengi krónunnar í aðdraganda og á fyrstu stigum framkvæmdanna og hafi þannig tímabundin áhrif til lækkunar verðbólgu. Þessi gengishækkunaráhrif eru því meiri sem erlend fjármögnun er meiri en því minni sem innflutt aðföng, þ.m.t. erlent vinnuafl, vega þyngra.

Í eftirfarandi mati Seðlabankans er byggt á úttekt Þjóðhagsstofnunar sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Ekki er reiknað með neinum mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum. Leggja verður ríka áherslu á að matið er afar mikilli óvissu háð og aðeins til viðmiðunar. Áhrifin geta að verulegu leyti ráðist af ástandi þjóðarbúskaparins þegar framkvæmdir hefjast og öðrum ytri áhrifum sem þjóðarbúið verður fyrir meðan á þeim stendur. Ef umtalsverð spenna verður á vinnu- og vörumarkaði þegar framkvæmdir hefjast gætu áhrifin á launaþróun orðið mun meiri en ella. Það ræðst þó að verulegu leyti af því í hve miklum mæli aðflutt vinnuafl gæti komið í stað innlends. Einnig ríkir mjög mikil óvissa um áhrif á væntingar sem gætu leitt til stigmögnunar eftirspurnar. Há skuldastaða heimila um þessar mundir mun þó að öðru óbreyttu draga úr uppsveiflu einkaneyslu. Einn stærsti óvissuþátturinn sem tengist framkvæmdunum er áhrif þeirra á gengi krónunnar. Í þeim framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar. Allar niðurstöður hér á eftir verður að skoða í ljósi þess. Sennilegt er að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær. Gengi krónunnar gæti t.d. hækkað verulega snemma á framkvæmdatímanum og lækkað aftur síðar. Þessar gengissveiflur myndu hafa umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina og veruleg áhrif á raungengi og samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Á móti kemur að hugsanlegt er að Seðlabankinn dragi úr þessum sveiflum með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Þannig má vel hugsa sér að tækifærið yrði notað til að efla gjaldeyrisforðann með kaupum á gjaldeyri ef gengið virðist ætla að styrkjast umtalsvert af þessum sökum.

Seðlabankinn mun vinna að því að verðbólga verði sem næst 2½% á ári. Framkvæmdirnar munu því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og á meðan þær eru sem mestar. Búast má við að áhrif á vexti verði mest við eða fyrir upphaf framkvæmda, en síðan dragi úr þeim. Núverandi framkvæmdaáætlanir gera sem fyrr segir ráð fyrir að mestur þungi verði í framkvæmdum árin 2003 til 2006 og að þær kunni einnig að verða töluvert miklar árin 2009 til 2012. Ef reiknað er með að áhrif vaxtabreytinga komi fram u.þ.b. ½ til 2 árum eftir að vöxtum er breytt er ekki ósennilegt að á árabilinu 2002 til 2005 þurfi stýrivextir að jafnaði að vera 1 til 2½ prósentustigum hærri en ella vegna verkefnisins og um 2½ prósentustigum hærri við upphaf tímabilsins. Í jafnvægi þar sem framleiðsluspenna/slaki er engin og verðbólga er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans má ætla að stýrivextir hans séu á bilinu 5½ til 6½%. Miðað við að grunndæmið feli í sér slíkt jafnvægi gætu nafnvextir bankans orðið 7 til 9% á tímabilinu. Þetta felur í sér að raunstýrivextir Seðlabankans hækka um 2% frá grunndæmi. Er þá gengið útfrá því að aðhald í opinberum rekstri sé ekki aukið sérstaklega. Á sama hátt má gera ráð fyrir að á árunum 2006 til 2007 verði vextir allt að ½ prósentustigi lægri en ef ekki væri farið út í verkefnið. Árin 2008 til 2011 má reikna með að verkefnið leiði að jafnaði til ½ til 1 prósentustiga hærri stýrivaxta en ella, eða ½ til 1½ prósentustiga hærri raunstýrivaxta en ella.

Áhrif stýrivaxta á skammtímavexti koma jafnan fljótt fram og fylgja stýrivöxtum eftir. Áhrif á langtímavexti eru ekki eins ljós. Þar sem ætla má að langtímavextir séu því sem næst vegið meðaltal væntra skammtímavaxta í framtíð er líklegt að þeir hreyfist í sömu átt og skammtímavextir, en ekki jafn mikið. Að svo miklu leyti sem vaxtahækkun leiðir til væntinga um minni verðbólgu í framtíð, og þar með lægri nafnvaxta, er ekki útilokað að langtímavextir hreyfist í gagnstæða átt við skammtímavexti. Ekki er við því að búast að framkvæmdin hafi varanleg áhrif á raunvexti.

 

   
 Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569-9600.

 

   
 

Nr. 8/2002
11. mars 2002

 

 

 

Til baka