logo-for-printing

07.03.2002

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins 2001

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahallinn 33,0 milljarðar króna á árinu 2001 samanborið við 67,5 milljarða króna halla árið áður. Á föstu gengi  var hallinn 48 milljörðum króna minni en á fyrra ári. Á fjórða ársfjórðungi var 4,8 milljarða króna afgangur á viðskiptum við útlönd. Síðast var viðskiptaafgangur á fyrsta ársfjórðungi 1996 og leita þarf allt aftur til ársins 1993 til að finna áður afgang á fjórða ársfjórðungi. Minni viðskiptahalli stafar af hagstæðari vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd en jöfnuður þáttatekna var talsvert lakari á árinu 2001 vegna aukinna vaxtagreiðslna af erlendum skuldum. Á fjórða ársfjórðungi er þó farið að gæta vaxtalækkana á erlendum lánamörkuðum. Ennfremur mældist arður af beinni fjárfestingu umtalsvert hærri en áður, einkum sá hluti sem fram kemur sem endurfjárfesting hagnaðar. Viðskiptahallinn árið 2001 er mun minni en spáð var í desember sl. og er frávikið mest á vöruviðskiptum við útlönd.

Fjármagnsjöfnuður við útlönd var jákvæður um 45,8 milljarða króna á árinu 2001.  Erlendar lántökur og skuldabréfaútgáfur nettó, námu samtals 67,4 milljörðum króna. Fjárinnstreymi vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi jókst nokkuð frá fyrr ári og nam 16,9 milljörðum króna. Dregið hefur úr kaupum á erlendum verðbréfum en samtals nam fjárútstreymi vegna þeirra og beinna fjárfestinga í atvinnurekstri erlendis 34,7 milljörðum króna á árinu 2001 miðað við 79,6 milljarða króna fjárfestingu árið áður. Annað fjárútstreymi, einkum útlán lánastofnana til erlendra aðila, jókst á árinu 2001. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði um 4,4 milljarða króna á árinu 2001 en á sama tíma endurgreiddi bankinn erlend skammtímalán svo hrein gjaldeyrisstaða bankans batnaði um 1,4 milljarða króna.

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna

Taflan sýnir samandregið yfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd. Ítarlegar upplýsingar um greiðslujöfnuðinn og erlenda stöðu þjóðarbúsins er að finna í meðfylgjandi yfirlitum og einnig í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðunni

Hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 610 milljarð króna í árslok 2001 og hefur hækkað um 36% frá árslokum 2000 er hún var 448 milljarðar króna. Hækkunin endurspeglar viðskiptahallann, gengislækkun íslensku krónunnar og lækkun á markaðsvirði erlendra verðbréfaeignar á árinu 2001. Erlendar eignir námu samtals um 387 milljörðum króna í árslok 2001. Þar af var erlend verðbréfaeign um 201 milljarður króna og gjaldeyrisforði Seðlabankans 36,6 milljarði króna. Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 997 milljörðum króna sem samsvarar 119,4% áætlaðrar landsframleiðslu ársins en hrein erlend staða þjóðarbúsins er neikvæð um 78,6% vergrar landsframleiðslu samanborið við 62,7% í árslok 2000 og 48,9% 1999.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Greiðslujöfnuður við útlönd

Erlend staða þjóðarbúsins

 

Nr. 7/2002
7. mars 2002

 

Til baka