logo-for-printing

16. janúar 2002

Breyting á starfrækslutíma stórgreiðslukerfis

Í samræmi við lög um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum nr. 90/1999 og reglur um aðgang að uppgjörsreikningum í Seðlabanka Íslands nr. 951/2000 starfrækir Seðlabanki Íslands stórgreiðslukerfi vegna greiðslufyrirmæla sem eru að fjárhæð 25 milljónir króna eða hærri. Stórgreiðslukerfið hefur verið opið allan sólarhringinn. Fjölgreiðslumiðlun hf. starfrækir fjölgreiðslukerfi vegna greiðslufyrirmæla sem eru allt að 25 milljónum króna.

Í samstarfi Seðlabanka Íslands og Fjölgreiðslumiðlunar hf. hefur að undanförnu verið unnið að undirbúningi breytinga á íslenskum greiðslukerfum. Markmið þeirra er að laga íslensk greiðslukerfi að alþjóðlegum kröfum, einkum að því er varðar áhættustjórnun. Í því skyni er talið nauðsynlegt að takmarka framkvæmd hárra greiðslufyrirmæla sem mest við almennan starfstíma lánastofnana.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur því ákveðið að stórgreiðslukerfið verði fyrst um sinn starfrækt frá kl. 8.45 til kl. 18.00 á almennum viðskiptadögum viðskiptabanka og sparisjóða. Ákvörðunin byggir á 5. gr. reglna nr. 951/2000.

Breyting þessi tekur gildi 20. janúar 2002.

Af hálfu Seðlabanka Íslands verður áfram unnið að þróun stórgreiðslukerfisins.

Nánari upplýsingar veitir Hallgrímur Ásgeirsson á fjármálasviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9642.

 

Nr. 2/2002
16. janúar 2002

Til baka