logo-for-printing

01. febrúar 2001

Seðlabanki Íslands gerir lánssamning við erlendan banka

Hinn 26. janúar sl. var undirritaður samningur á milli Seðlabanka Íslands og þýska bankans DePfa Europe um lánsheimild að fjárhæð 250 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar liðlega 21 milljarði króna. Samningurinn er til fimm ára og felur í sér hagstæð kjör fyrir Seðlabankann.

Lánssamningurinn við DePfa Europe kemur til viðbótar sambærilegum samningum við nokkrar aðrar fjármálastofnanir. Fyrir hefur bankinn samningsbundinn aðgang að lánsfé, meðal annars hjá Alþjóðagreiðslubankanum BIS í Basel og norrænum seðlabönkum. Heildarfjárhæð þessara samninga nemur um 60 milljörðum króna. Auk þess hefur Seðlabankinn aðgang að lánsfé hjá fjölmörgum erlendum viðskiptabönkum.

Hinn nýi lánssamningur treystir stöðu Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og eykur svigrúm hans til aðgerða á þeim vettvangi.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Ólafur Ísleifsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.

 

Nr. 5/2001
1. febrúar 2001

Til baka