logo-for-printing

21. júní 2000

Útgáfa minnispenings: Landafundir Leifs Eiríkssonar

Í dag verður kynnt í Washington útgáfa á peningum úr silfri til þess að minnast fundar Leifs Eiríkssonar á Norður-Ameríku. Minnispeningarnir eru tveir, annar gefinn út af Seðlabanka Íslands og hinn af bandarísku myntsláttunni. Peningarnir verða seldir saman í öskju og einnig hvor í sínu lagi. Þeir eru slegnir hjá bandarísku myntsláttunni, U.S. Mint, og mun hún sjá um sölu þeirra á erlendum markaði. Minnispeningarnir eru úr silfri að 9/10 hlutum, 26,73 grömm að þyngd, 38,1 mm í þvermál. Íslenski peningurinn verður löglegur gjaldmiðill að verðgildi 1000 krónur í sérunninni gljásláttu og er hámarksfjöldi sleginna peninga 150.000.

Á annarri hlið íslenska peningsins er mynd af styttu Stirling Calder af Leifi Eiríkssyni á Skólavörðuhæð en hana gaf bandaríska þingið íslensku þjóðinni árið 1930 í tilefni 1000 ára afmælis Alþingis. Á hinni hliðinni er stílfærð mynd af landvættunum eins og þær birtast á gildandi mynt. Peninginn teiknaði Þröstur Magnússon teiknari FIT.

Hagnaður af sölu beggja peninganna rennur í sérstakan sjóð sem kenndur er við Leif Eiríksson. Hann mun styrkja íslenska og bandaríska námsmenn til náms í Bandaríkjunum og á Íslandi. Í stjórn sjóðsins, sem varðveittur verður hjá háskólanum í Virginíu, eru fimm stjórnarmenn, tveir skipaðir af rektor háskólans í Virginíu, einn skipaður af forsætisráðherra og einn af bankastjórn Seðlabanka Íslands. Oddamaður verður valinn af stjórn til tveggja ára í senn og verður hann til skiptis frá Bandaríkjunum og Íslandi.

Sala peninganna á Íslandi hefst síðar og verður kynnt sérstaklega þegar þar að kemur.

Nánari upplýsingar veitir bankastjórn Seðlabanka Íslands.

Nr. 16/2000
21. júní 2000

Til baka