logo-for-printing

11. febrúar 2000

Vextir Seðlabanka Íslands hækkaðir og vikmörk gengisstefnunnar víkkuð

Að höfðu samráði við ríkisstjórn hefur bankastjórn Seðlabanka Íslands ákveðið að víkka vikmörk gengisstefnunnar um 3% í hvora átt frá mánudeginum 14. febrúar 2000. Þau verða því hér eftir 9% í hvora átt frá miðgildi í stað 6% áður. Breytingin skapar skilyrði til frekara aðhalds í peningamálum í því skyni að draga úr verðbólgu.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur einnig ákveðið að hækka vexti bankans um 0,3 prósentustig. Vaxtahækkunin hefur þann tvíþætta tilgang að auka vaxtamuninn gagnvart útlöndum á ný eftir nýlegar vaxtahækkanir í mikilvægum viðskiptalöndum og að undirstrika enn frekar ásetning bankans um að nýta aukið svigrúm gengisstefnunnar til þess að draga úr verðbólgu.

 Víkkun vikmarkanna felur í sér viðbótarskref til þess að auka sveigjanleika gengisstefnunnar. Í september 1995 voru vikmörkin víkkuð úr 2¼% í hvora átt í 6%. Sú ráðstöfun var fyrst og fremst gerð í varúðarskyni sakir þess að í upphafi þess árs var síðustu hömlum á skammtímahreyfingum fjármagns til og frá landinu aflétt. Gengi krónunnar hélst innan gömlu markanna þar til í maí 1998. Í kjölfar kjarasamninga í apríl 1997 stuðlaði aðhaldssöm peningastefna að hækkun gengis krónunnar innan vikmarkanna og átti það sinn þátt í að halda aftur af verðbólgu. Á síðasta ári jókst verðbólga mjög. Peningastefnunni var beitt gegn henni og vaxtahækkanir Seðlabankans stuðluðu að hækkun á gengi krónunnar á seinni hluta ársins. Það varð hæst 28. desember sl. 4,9% yfir miðgengi, þ.e. rúmlega 1% innan vikmarkanna. Bankinn hefur hins vegar engin viðskipti átt á millibankamarkaði fyrir gjaldeyri síðan 14. júní á síðasta ári og hefur því ekki haft áhrif á gengi krónunnar með beinum hætti síðan þá.

 Seðlabanki Íslands telur við ríkjandi aðstæður nauðsynlegt að veita baráttunni gegn verðbólgu forgang. Sem fyrr segir varð gengi krónunnar hærra innan vikmarkanna undir lok desember sl. en áður hafði þekkst. Við þær aðstæður virtist sem vikmörkin hömluðu frekari hækkun gengisins, jafnvel þótt enn væri nokkurt rými innan þeirra. Með því að víkka vikmörkin er komið í veg fyrir að gengisstefnan hamli frekara aðhaldi í peningamálum. Víkkun vikmarkanna nú og hækkun vaxta Seðlabankans fela því í sér skýran ásetning um að peningastefnan skuli öðru fremur stuðla að lítilli verðbólgu.

 Eftir breytinguna verða vikmörk gengisskráningarvísitölunnar 104,66 og 125,36 en miðgildið verður áfram óbreytt, þ.e. 115,01.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 560-9600.

Nr. 7/2000
11. febrúar 2000

Til baka