logo-for-printing

15. júní 1999

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans í viðskiptum við lánastofnanir. Ávöxtun í endurhverfum viðskiptum verður hækkuð um 0,5 prósentustig í 8,4% á næsta uppboði og aðrir vextir bankans í viðskiptum við lánastofnanir hækka samsvarandi frá 21. júní nk.

Að undanförnu hefur gætt vaxandi þrýstings til hækkunar verðlags og hefur hann birst í töluverðri hækkun vísitölu neysluverðs síðustu mánuði. Hækkunin stafar að hluta af sérstökum tilefnum, svo sem hækkun á verði olíuafurða á alþjóðamörkuðum og árstíðabundnum þáttum, en einnig virðist mikil innlend eftirspurn hafa leitt til hækkunar á verði vöru og þjónustu. Aðstæður hafa því breyst frá því að Seðlabankinn hækkaði vexti í febrúar sl. Þá var útlit var fyrir að verðbólga á árinu yrði um 2% en nú virðist sem hún gæti orðið meiri en 3% að óbreyttu.

Seðlabanki Íslands telur afar mikilvægt að áfram ríki stöðugleiki í verðlagsmálum og mun því enn beita ströngu aðhaldi í peningamálum eins og að undanförnu. Tilgangur vaxtahækkunar bankans nú er að draga úr vexti innlendrar eftirspurnar, styrkja gengi krónunnar og þar með að stuðla að því að verðbólga verði minni en ella.

Auk þess að hækka vexti í febrúar sl. lagði Seðlabanki Íslands sem kunnugt er lausafjárkvöð á lánastofnanir og tóku reglur um hana gildi 21. mars sl. Lausafjárkvöðin hemur útlánagetu lánastofnana og kemur til framkvæmda í áföngum frá 21. mars sl. til 21. júlí nk. en frá þeim tíma gildir hún af fullum þunga.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 36/1999
15. júní 1999

Til baka