logo-for-printing

15. janúar 1999

Verðbólguspá Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur endurskoðað verðbólguspá sína fyrir árið 1999 í ljósi nýjustu mælinga vísitölu neysluverðs og upplýsinga um þróun undirliggjandi stærða. Seðlabankinn spáir nú 1,9% verðbólgu milli ársmeðaltala 1998 og 1999 og 2,2% verðbólgu frá upphafi til loka árs 1999.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 1998, sem samsvarar 2,2% verðbólgu á heilu ári. Spá Seðlabankans í október sl. gerði ráð fyrir 0,2% hækkun á milli ársfjórðunganna. Frávikið er innan tölfræðilegra skekkjumarka.

Verðbólga síðasta árs mældist 1,7% milli ársmeðaltala og 1,3% yfir árið. Milli ára var verðbólgan hin sama og 1995 sem var sú næst lægsta síðan 1959. Spá bankans í október gerði ráð fyrir 1,6% hækkun milli ára og 0,6% hækkun yfir árið.

Meginforsendur endurskoðaðrar spár gera ráð fyrir 3,7% hækkun umsaminna launa í upphafi þessa árs, um 2% launaskriði og 2,5% framleiðniaukningu í ár og óbreyttu gengi frá deginum í dag. Einnig er gert ráð fyrir að innflutningsverðlag í erlendri mynt lækki á fyrri hluta ársins en snúist síðan til hækkunar á seinni hluta þess. Að lokum er gert ráð fyrir að hækkun markaðsverðs húsnæðis umfram almenna verðlagsþróun muni stuðla að meiri hækkun vísitölu neysluverðs á þessu ári en ella.

Í endurskoðaðri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir því að verðbólga þessa árs verði 1,9%, mælt milli ársmeðaltala, og 2,2% yfir árið. Þetta er nokkur hækkun frá spá bankans í október sl., en í henni var gert ráð fyrir 1,3% hækkun milli ársmeðaltala og 2% hækkun yfir árið. Munar þar mest um meiri hækkanir vísitölunnar á síðasta ársfjórðungi 1998 en spáð hafði verið. Mikill vöxtur innlendrar eftirspurnar að undanförnu og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu stuðlað að meiri verðbólgu þegar líður á árið en hér er spáð. Á móti kemur að erlend verðþróun kann að verða hagstæðari en hér er reiknað með, sérstaklega á fyrri hluta ársins.

Seðlabankinn hefur einnig metið þróun raungengis krónunnar (sjá meðfylgjandi töflu). Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 1998 hækkaði raungengi á mælikvarða hlutfallslegs verðlags um 1,5% á milli áranna 1997 og 1998, en um 4,5% á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar á framleidda einingu. Gangi verðlagsspá bankans eftir og að gefnu óbreyttu gengi krónunnar frá því sem það er nú mun raungengi krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs verðlags verða óbreytt á þessu ári, en hækka um 0,7% á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar á framleidda einingu.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans, í síma 569 9600.

Töflur yfir spár

Nr. 4/1999
15. janúar 1999

Til baka