logo-for-printing

13. nóvember 1998

Haustskýrsla Seðlabanka Íslands 1998

Peningamál: Þróun, horfur og stefna
Út er komin haustskýrsla Seðlabanka Íslands 1998, sem fjallar um þróun, horfur og stefnu í peningamálum. Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir mati Seðlabankans á stöðu efnahags- og peningamála og stefnu hans í peningamálum.

Í skýrslunni kemur fram það mat að þrátt fyrir öflugan hagvöxt og enn kröftugri vöxt innlendrar eftirspurnar hafi náðst mikilsverður árangur í því að halda verðbólgu í lágmarki að undanförnu. Núverandi uppsveifla hér á landi er hin fyrsta í nærri fimm áratugi þar sem verðbólga er svipuð eða minni en í viðskiptalöndum. Aðhaldssöm peningastefna á mikinn þátt í þessum árangri en einnig hafa hagstæð ytri skilyrði hjálpað til. Á móti vegur mikill viðskiptahalli sem verður meiri í ár en hægt er skýra með tímabundnum áhrifum stóriðjufjárfestingar. Undirliggjandi viðskiptahalli er nú talinn um 3% af landsframleiðslu en gæti orðið meiri ef ytri skilyrði þjóðarbúsins versna. Því er mjög brýnt að efla þjóðhagslegan sparnað og draga þannig úr viðskiptahallanum. Það eru því vonbrigði að afkomubati ríkissjóðs á þessu og næsta ári virðist minni en hagsveiflan gefur tilefni til og afkoma sveitarfélaga er mun verri en æskilegt getur talist. Mjög mikilvægt er að framlag opinberra aðila til þjóðhagslegs sparnaðar verði aukið.

Ekki er hægt að búast við að jafn öflugur hagvöxtur og verið hefur síðustu þrjú ár geti til lengdar farið saman við litla verðbólgu. Í fyrsta lagi er framleiðslugeta þjóðarbúsins nú fullnýtt og ekki er hægt að gera ráð fyrir að atvinnuleysi minnki frekar án þess að laun hækki umfram það sem nú er útlit fyrir. Í öðru lagi er vart hægt að reikna með að lækkun innflutningsverðs og hækkun gengis stuðli í sama mæli að minni verðbólgu á næstu misserum og gerst hefur að undanförnu. Í þriðja lagi veldur þróun alþjóðlegra efnahagsmála að undanförnu því að óhagstæðari ytri skilyrði kunna samtímis að stuðla að minni hagvexti hér á landi og gera erfiðara en ella að halda verðbólgu lítilli þar sem viðskiptakjör gætu versnað. Innlend hagstjórn verður að taka mið af þessum breyttu aðstæðum. Brýnasta verkefni hennar er að koma böndum á mikinn vöxt innlendrar eftirspurnar með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum og í fjármálum sveitarfélaga, og með aðgerðum sem örva sparnað einkaaðila og draga úr miklum útlánavexti lánastofnana.

Mikill vöxtur útlána að undanförnu er verulegt áhyggjuefni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi ýtir hann undir vöxt innlendrar eftirspurnar og stuðlar þannig að auknum viðskiptahalla og/eða meiri verðbólgu. Í því efni má benda á mjög mikinn vöxt einkaneyslu samfara aukinni skuldsetningu. Í öðru lagi sýnir reynsla annarra þjóða að mikilli útlánaþenslu í framhaldi af auknu frelsi og samfara vaxandi samkeppni á lánamarkaði getur fylgt mikil áhætta. Lánastofnanir kunna að leiðast út í áhættusamari lánveitingar sem skila ekki tilætlaðri ávöxtun þegar í bakseglin slær í þjóðarbúskapnum. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði verður áhætta tengd útlánaþenslu meiri en ella ef hún er í umtalsverðum mæli fjármögnuð með erlendu lánsfé til skamms tíma og ef halli er á viðskiptum við útlönd. Seðlabankinn mun á næstunni kanna leiðir til að draga úr útlánaþenslunni samfara því sem hann mun brýna árvekni fyrir innlendum lánastofnunum bæði varðandi útlán og fjármögnun þeirra.

Stefnan í peningamálum hefur verið mjög aðhaldssöm að undanförnu eins og sést á miklum mun innlendra og erlendra skammtímavaxta, háum skammtímaraunvöxtum og, þar til á síðustu vikum, styrkingu á gengi krónunnar, þrátt fyrir mikinn viðskiptahalla. Stefnan í peningamálum verður áfram aðhaldssöm svo lengi sem vöxtur innlendrar eftirspurnar er mun meiri en til lengdar getur samrýmst verðstöðugleika og þjóðarbúið er við mörk fullrar nýtingar á bæði vinnu- og vörumörkuðum. Horft lengra fram á við er hins vegar hugsanlegt að öndverð alþjóðleg þróun muni hægja á hagvexti sem ásamt bættri afkomu hins opinbera gæti skapað tilefni til minna aðhalds í peningamálum. Mikillar árvekni er því þörf við mótun peningastefnunnar á næstu mánuðum og misserum. 

Í haustskýrslunni er sérefni um verðbólguferlið á Íslandi. Í niðurlagi þess kafla segir að ástæður lítillar verðbólgu hér á landi séu að hluta til tímabundnar. Ekki virðist hafa orðið grundvallarbreyting á langtímasambandi launakostnaðar, innflutningsverðs og verðlags. Ofspár verðbólgu hafa að verulegu leyti stafað af of svartsýnum forsendum um ytri stærðir eins og innflutningsverð og framleiðni, auk þess sem aðhaldssöm peningastefna hefur stuðlað að minni verðbólgu í gegnum hærra gengi. Laun koma hins vegar hægar fram í verðlagi en áður og samband launamyndunar og hlutfalls launa í þjóðartekjum hefur veikst.

Hagstæðar ytri aðstæður að undanförnu og tafir í áhrifum launabreytinga á verðlag gefa síður en svo tilefni til að slaka á árvekni gagnvart verðbólgu. Þvert á móti krefjast slíkar aðstæður meiri framsýni stjórnvalda við mótun efnahagsstefnunnar. Það að ástæður lítillar verðbólgu að undanförnu hafi að hluta til verið tímabundnar gefur ekki tilefni til að ætla að ekki verði unnt að varðveita litla verðbólgu á komandi misserum. Aðrir þættir eins og litlar verðbólguvæntingar geta komið til skjalanna og peningastefnan mun áfram hafa það að höfuðmarkmiði að halda verðbólgu í skefjum.Taki kjarasamningar mið af litlum verðbólguvæntingum á að vera hægt að ná fram hæfilegum vexti kaupmáttar með minni hækkun nafnlauna en áður þurfti. Þar með skapast skilyrði til að festa litla verðbólgu í sessi, sérstaklega í ljósi þess að erlend verðlagsþróun verður að líkindum hagstæð enn um sinn. Til þess að treysta undirstöður lítillar verðbólgu er hins vegar nauðsynlegt að efnahagsstefnan vinni markvisst að því að draga úr viðskiptahalla.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabankans, Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri, Már Guðmundsson aðalhagfræðingur og Yngvi Örn Kristinsson framkvæmdastjóri peningamálasviðs í síma 569-9600.

Nr. 65/1998
13. nóvember 1998

Til baka