logo-for-printing

22. október 1998

Verðbólguspá Seðlabanka Íslands

Verðlagsþróun þriðja fjórðungs ársins liggur nú fyrir og hefur Seðlabanki Íslands gert nýja verðbólguspá í ljósi hennar. Spáð er að verðbólga milli áranna 1997 og 1998 verði 1,6% en aðeins 0,6% frá upphafi til loka ársins 1998. Því er spáð að á milli áranna 1998 og 1999 hækki verðlag um 1,3%  en um 2% yfir árið 1999.

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,4% á milli annars og þriðja ársfjórðungs 1998, sem samsvarar 1,5% verðhjöðnun á heilu ári. Spá Seðlabankans frá því í júlí sl. gerði ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölunnar, þannig að bankinn ofspáði vísitölunni verulega. Þó er spáskekkjan innan tveggja staðalfrávika skekkjumarka. Forsendur spárinnar í júlí gerðu ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar. Raunin varð hins vegar sú að gengi krónunnar styrktist um tæplega 1%. Einnig benda nýjustu upplýsingar alþjóðastofnana til þess að innflutningsverðlag í erlendri mynt lækki mun meira á þessu ári en gert var ráð fyrir í síðustu spá. Í forsendum júlíspárinnar var gert ráð fyrir 0,5% lækkun innflutningsverðlags í erlendri mynt en nú er gert ráð fyrir 1,5% lækkun á þessu ári. Skv. nýjustu upplýsingum virðist einnig sem launaskrið hafi verið ofmetið og framleiðniþróun vanmetin við síðustu spá. Að lokum skýrist ofspá síðasta ársfjórðungs af áhrifum sumarútsalna á fatnaði sem voru í fyrsta sinn tekin inn í ágústvísitöluna og leiddu til tæplega 0,5% lækkunar vísitölunnar í þeim mánuði.

Vegna árstíðarbundinnar lækkunar á verði ýmissa liða er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% á næstu tveimur mánuðum. Spáin um breytingu á milli ársmeðaltala lækkar nokkuð frá síðustu spá, úr 2% í 1,6%, og spáin um breytingu yfir árið lækkar talsvert, úr 1,6% í 0,6%. Á næsta ári er gert ráð fyrir 1,3% verðbólgu milli ára og 2% yfir árið. Spáin gerir ráð fyrir 3,7% hækkun umsaminna launa í janúar næstkomandi, 2% launaskriði á næsta ári, 2,5% framleiðniaukningu, óbreyttu gengi og 1% hækkun innflutningsverðlags í erlendri mynt. Þess má einnig geta að á undanförnum mánuðum hefur bensínverð lækkað verulega á erlendum mörkuðum jafnframt sem gengi dollars gagnvart krónu er nú mun lægra en um áramót. Þessi verðlækkun hefur enn ekki komið að fullu fram í lækkun útsöluverðs til neytenda. Mismunur útsöluverðs og tafins kostnaðarverðs í íslenskum krónum hefur því aukist og byggir spáin á því að útsöluverð bensíns lækki á næstunni.

Miðað við forsendur þeirrar verðbólguspár sem hér er birt mun raungengi miðað við hlutfallslegan launakostnað hækka um 4,1% á yfirstandandi ári en 1,4% árið 1999. Miðað við hlutfallslegt neysluverðlag hækkar raungengi nokkru minna eða 1,9% á þessu ári, en breytist lítið á því næsta. Raungengi verður þó áfram tiltölulega lágt í lengra sögulegu samhengi. Hins vegar felur þetta í sér að raungengi krónunnar á mælikvarða launa mun á næsta ári hafa náð því stigi sem það var á fyrir gengislækkanirnar 1992 og 1993 en ekki á mælikvarða verðlags.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans, í síma 569 9600.

Ársfjórðungsspá

Nr. 60/1998
22. október 1998

Til baka