logo-for-printing

15. desember 1997

Sérstök fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands

Uppboð á endurhverfum verðbréfakaupum

Lausafjárstaða banka og sparisjóða hefur verið mjög erfið undanfarna daga sem m. a. má rekja til árstíðabundinna þátta. Við slíkar aðstæður hafa viðskiptabankar getað útvegað sér lausafé með endurhverfum verðbréfaviðskiptum við Seðlabanka Íslands, þ.e. með endurhverfri sölu ríkisvíxla og innstæðubréfa Seðlabankans. Í lok síðustu viku var svo komið að flestir viðskiptabankanna höfðu selt eða gert endurhverfa samninga um alla ríkisvíxla sína og aðgangur að lausafé í Seðlabankanum því nánast úr sögunni. Vegna þessa hækkuðu vextir á peninga- og millibankamarkaði án þess að efnahagslegar forsendur væru til þess.

Til þess að draga úr hækkun vaxta á peningamarkaði ákvað bankastjórn Seðlabankans að bregðast við þessari tímabundnu stöðu með því að efna til uppboðs á endurhverfum verðbréfakaupum til eins mánaðar mánudaginn 15. desember 1997. Um fastverðsuppboð var að ræða, þ.e. ávöxtunarkrafan var ákveðin fyrirfram 7,2%, en tilboð viðskiptabankanna réðu því hve mikið seldist. Andlag þessara verðbréfaviðskipta var víkkað frá því sem gilt hefur - auk ríkisvíxla og innstæðubréfa Seðlabankans var bankinn reiðubúinn að kaupa ríkisbréf, markaðsskráð spariskírteini, húsbréf og húsnæðisbréf.

Niðurstaða uppboðsins var sú að Seðlabankinn keypti röska 5 milljarða króna af ríkistryggðum verðbréfum með endurkaupaskilmálum. Samningarnir gilda sem fyrr segir í einn mánuð.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabankans og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri peningamálasviðs bankans í síma 569-9600.

Nr. 35/1997
15. desember 1997

Til baka