logo-for-printing

18. nóvember 1997

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands ákvað í dag að hækka vexti bankans um 0,3 prósentustig. Vaxtahækkunin felur í sér viðbrögð við minna peningalegu aðhaldi á undanförnum mánuðum vegna lækkandi vaxtamunar gagnvart útlöndum og lægra gengis, horfum um aukna verðbólgu á fyrri hluta næsta árs og ýmsum merkjum um aukna spennu í þjóðarbúskapnum.

Vaxtahækkunin nær til viðskipta Seðlabankans við innlánsstofnanir og ávöxtunar í tilboðum bankans í ríkisvíxla á Verðbréfaþingi Íslands. Helstu ástæður vaxtahækkunarinnar eru eftirfarandi:

Þótt enn sé nokkuð gott jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sjást ýmis þenslumerki sem ástæða er til að bregðast við. Dæmi um það er mikill vöxtur útlána og peningastærða, spenna í vissum greinum á vinnumarkaði og mikill vöxtur innlendrar eftirspurnar.

Horfur eru á að verðhækkanir verði fremur litlar fram til áramóta en að verðbólga fari síðan vaxandi með nýju ári vegna launahækkana í byrjun árs. Samkvæmt spá Seðlabankans mun verðbólguhraðinn á fyrra helmingi ársins verða að óbreyttu á bilinu 3-3½% en á milli ársmeðaltala hækkar verðlag um 2,7%. Þetta er meiri verðbólga en í viðskiptalöndum.

Munur peningamarkaðsvaxta hér og erlendis hefur minnkað verulega á undanförnum mánuðum. Hann fór hæst í um 3 prósentustig snemma árs en hefur nú minnkað í 2,4 prósentustig. Ástæðan er vaxtahækkanir á peningamarkaði í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi, auk þess sem bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti sína fyrr á árinu. Eftir síðustu hækkun í Bretlandi eru peningamarkaðsvextir þar tæplega ½ prósentustigi hærri en hér á landi. Þessi þróun hefur farið saman við gjaldeyrisútstreymi og lægra gengi krónunnar allra síðustu mánuði. Það er nú um 2,2% lægra en það var í lok júlí. Á sama tíma hafa verðbólguvæntingar, sem lesa má út úr mun verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta, aukist. Samantekið felur þessi þróun í sér slökun á peningalegu aðhaldi sem ekki er heppileg við þær aðstæður sem nú ríkja.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar í síma 569 9600.

Nr. 31/1997
18. nóvember 1997

Til baka