logo-for-printing

11. nóvember 1997

Haustskýrsla Seðlabanka Íslands 1997

PENINGAMÁL: ÞRÓUN, HORFUR OG STEFNA

Út er komin haustskýrsla Seðlabanka Íslands 1997, sem fjallar um þróun, horfur og stefnu í peningamálum. Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir mati Seðlabankans á stöðu efnahags- og peningamála og stefnu hans í peningamálum.

Í skýrslunni kemur fram það mat að slakinn, sem var í íslenska hagkerfinu á árunum 1992 til 1995, sé horfinn. Mikill hagvöxtur á þessu og síðasta ári hefur skilað hagkerfinu nálægt þeim mörkum sem samrýmst geta til lengdar stöðugleika í verðlagsmálum. Á sama tíma hafa ytri skilyrði þjóðarbúsins batnað vegna aukinnar stóriðju og uppbyggingar fiskistofna. Merki aukinnar innlendrar eftirspurnar sjást víða, m.a. í peninga- og lánastærðum. Launahækkanir og skattalækkanir, sem lofað var í tengslum við kjarasamninga, eru á ystu nöf og ýta undir mikinn vöxt innlendrar eftirspurnar. Vísbendingar um afkomu í atvinnurekstri á þessu ári benda til þess að hún sé yfirleitt þokkaleg þótt hún hafi líklega versnað frá fyrra ári, m.a. vegna aukins launakostnaðar, en afkoman var með besta móti á árinu 1996. Efnahagsbatinn hefur skilað sér í bættri afkomu ríkissjóðs, og sá ánægjulegi árangur er í sjónmáli, gangi markmið fjárlagafrumvarps eftir, að afgangur verði á ríkissjóði á rekstrargrunni og að skuldir ríkisins muni lækka að raungildi. Meiri árangur í ríkisfjármálum er hins vegar æskilegur til að hamla gegn mikilli aukningu þjóðarútgjalda, auka þjóðhagslegan sparnað og skapa svigrúm fyrir lægri langtímavexti og minna aðhald í peningamálum en ella.

Bætt ytri skilyrði þjóðarbúsins hafa leitt til þess að það raungengi sem samrýmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur hækkað. Því til viðbótar kemur að stóriðjuframkvæmdir fela í sér hreint innstreymi gjaldeyris. Að öðru óbreyttu felur þetta hvort tveggja í sér að gengi krónunnar hefur tilhneigingu til að hækka á sama tíma og viðskiptajöfnuður versnar. Það er áhyggjuefni að viðskiptahalli myndast við fjárfestingarstig sem er ekki ýkja hátt í sögulegu eða alþjóðlegu samhengi. Það er hins vegar fyrst og fremst hlutverk ríkisfjármálanna að bregðast við því samkvæmt þeirri verkaskiptingu sem þróast hefur á milli ríkisfjármála og peningamála. Hærra jafnvægisraungengi býður upp á val um hvort aðlögun raungengis gerist í gegnum hærra nafngengi krónunnar eða aukna verðbólgu. Lægra gengi krónunnar er við þessar aðstæður óæskilegt.

Nokkuð gott jafnvægi ríkir í þjóðarbúskapnum. Viðskiptahallinn verður í ár mun minni en reiknað var með í vor, og stærstan hluta hans má rekja til stóriðjuframkvæmda. Verðlagshækkanir í kjölfar kjarasamninga voru minni en búist var við, ekki sjást enn marktækar vísbendingar um aukið almennt launaskrið og verðbólga er enn mjög hófleg. Framundan er hins vegar nokkur óvissa. Seðlabankinn spáir því að verðbólga aukist á næsta ári og verði 2,7% á milli áranna 1997 og 1998. Verðbólguhraðinn verður enn meiri á fyrri árshelmingi vegna almennrar launahækkunar í byrjun árs. Verðbólgu hefur verið ofspáð í framhaldi af launahækkunum á undanförnum árum og svo gæti einnig farið nú. Á móti kemur að framhald öflugs hagvaxtar getur valdið spennu á vinnumarkaði, og meiri eftirspurn á vöru- og þjónustumörkuðum eykur hættuna á að framleiðendur velti kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslenskum þjóðarbúskap er ofþensluhættan meiri en samdráttarhættan. Varúðarsjónarmiðið er því þeim megin. Þetta þýðir að áfram verður fylgt aðhaldssamri peningastefnu.

Nokkur önnur helstu efnisatriði skýrslunnar eru:

§ Fremur litlar breytingar hafa orðið á ytri skilyrðum þjóðarbúsins undanfarna 12 mánuði. Verðlag á helstu útflutningsafurðum fer þó hækkandi en verðlag sjávarafurða verður enn að teljast fremur lágt í sögulegu samhengi.
§ Þrátt fyrir um 3% hækkun raungengis á mælikvarða launa á þessu ári og spá um 2% hækkun á því næsta verður það áfram tiltölulega lágt í sögulegu samhengi. Árshlutauppgjör fyrirtækja sem birst hafa benda til að staða atvinnuveganna sé tiltölulega sterk, þótt afkoman versni nokkuð frá því í fyrra, þegar hún var með besta móti.
§ Afkoma ríkissjóðs, leiðrétt fyrir flýtiafborgunum spariskírteina, mun batna verulega á þessu ári og stefnt er að afgangi á rekstrargrunni á næsta ári. Bætt afkoma ríkissjóðs stafar að verulegu leyti af öflugum hagvexti.
§ Atvinnuleysi fer nú minnkandi og vísbendingar eru um aukna spennu á vinnumarkaði. Hingað til hefur sveigjanleiki vinnumarkaðar varðandi atvinnuþátttöku og aðra þætti nægt til að koma í veg fyrir að hagvöxtur ógni verðstöðugleika, en óvissa er um framhaldið.
§ Verðbólga á þessu ári verður lægri en í fyrra, þrátt fyrir launahækkanir, m.a. vegna lítillar hækkunar innflutningsverðs. Verðbólga verður lítil næstu tvo mánuði vegna árstíðabundinna þátta en vex svo á ný á næsta ári vegna launahækkana.
§ Þróun á innlendum fjármagnsmarkaði á þessu ári hefur einkennst af auknum útlánum innlánsstofnana, sérstaklega endurlánum erlends lánsfjár til fyrirtækja. Víðari útlánamælikvarðar sýna hins vegar svipaðan vöxt og á síðasta ári. Peningastærðir sýna hraðari vöxt á þessu ári en í fyrra en eru þó enn innan viðunandi marka.
§ Litlar breytingar hafa orðið á stýrivöxtum Seðlabankans síðan í september 1996. Vextir á verðtryggðum skuldabréfum hafa lækkað og enn meiri lækkun hefur orðið á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum samfara lægri verðbólguvæntingum. Vextir banka og sparisjóða hafa lítið breyst á árinu.
§ Innstreymi var á gjaldeyrismarkaði mánuðina febrúar til og með júlí og gengi krónunar hækkaði. Þetta snerist við í ágúst og hefur gjaldeyrisstaða Seðlabankans versnað og gengi krónunnar hefur lækkað.
 
Eins og í fyrra er kafli í skýrslunni sem fjallar um sérstakt efni. Að þessu sinni er viðfangsefnið vaxtamyndun og vaxtamunur. Þar er fjallað um þá staðreynd að langtímaraunvextir hafa verið um þó nokkurt árabil mun hærri hér á landi en að meðaltali í viðskiptalöndum. Í kaflanum er rakin vaxtaþróun og breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði á undanförnum einum og hálfum áratug. Síðan er fjallað um þá þætti sem skýrt geta vaxtamun þrátt fyrir frjálsar fjármagnshreyfingar. Að lokum er fjallað um rannsóknir á vaxtamyndun á Íslandi og horfur um langtímaávöxtun fjármagns, m.a. á grundvelli þess hver hún hefur verið í iðnríkjum á 124 ára tímabili til ársins 1995.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabankans, Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri, Már Guðmundsson aðalhagfræðingur og Tómas Örn Kristinsson framkvæmdastjóri peningamálasviðs í síma 569-9600.

Nr. 30/1997
11. nóvember 1997

Til baka