logo-for-printing

Seðlabanki Íslands

Seðlabanki Íslands var stofnaður með lögum árið 1961 og er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Áður hafði Landsbanki Íslands gegnt vissu hlutverki seðlabanka allt frá árinu 1927, er skipulagi hans var breytt og honum fengin einkaréttur til seðlaútgáfu. Íslensk seðlaútgáfa á sér þó lengri sögu, sjá frekar hér: Saga og húsnæði. Seðlabankinn starfar samkvæmt lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, samanber síðari breytingar. Sjá þau lög og fleiri hér: Lög og reglur.  

Ráðherra skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til fimm ára í senn. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd en stjórn bankans er að öðru leyti í höndum seðlabankastjóra. Seðlabanki Íslands heyrir stjórnskipulaga undir forsætisráðuneytið og bankaráð sem hefur eftirlit með starfsemi bankans. Alþingi kýs sjö fulltrúa í bankaráð að loknum kosningum til Alþingis. Sjá nánar hér: Stjórnsýsla og skipurit.

Meginmarkmið bankans er að stuðla að stöðugu verðlagi. Hann skal enn fremur stuðla að fjármálastöðugleika. Seðlabankinn skal einnig stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiðum um stöðugt verðlag.

Seðlabankinn á enn fremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Bankinn hefur einkarétt til þess að gefa út seðla og mynt. Hann tekur við innlánum frá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum innlánsstofnunum og getur einnig veitt innlánsstofnunum lán. Seðlabankinn verslar með gjaldeyri, hefur milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og stundar önnur erlend viðskipti. 

 

Helstu verkefni Seðlabanka Íslands:

  • Seðlabankinn skal stuðla að stöðugu verðlagi

  • Seðlabankinn skal stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu

  • Seðlabankinn gefur út seðla og mynt

  • Seðlabankinn fer með gengismál

  • Seðlabankinn sinnir leiðbeiningum, eftirliti og rannsóknum í gjaldeyrismálum

  • Seðlabankinn annast bankaviðskipti ríkissjóðs og er banki lánastofnana

  • Seðlabankinn annast lántökur ríkisins

  • Seðlabankinn varðveitir og sér um ávöxtun gjaldeyrisforða landsmanna

  • Seðlabankinn safnar upplýsingum um efnahags- og peningamál, gefur álit og er ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál

 

Starfsemi Seðlabanka Íslands fer að mestu fram í húsnæði bankans að Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík, en þangað flutti Seðlabankinn starfsemi sína árið 1987. Ennfremur fer hluti starfseminnar fram í Einholti 4 í Reykjavík.

Sjá hér stutta kynningu á Seðlabanka Íslands (pdf-skjal):

Almenn kynning á markmiðum og starfi Seðlabanka Íslands, 18. september 2018