Um Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn

Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Meginmarkmið bankans er að stuðla að stöðugu verðlagi. Hann skal enn fremur stuðla að fjármálastöðugleika. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á enn fremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann.

Lánamál ríkisins

Seðlabanki Íslands sér um erlendar lántökur ríkissjóðs ásamt framkvæmd innlendra útboða, uppkaupa og innlausnar ríkisverðbréfa, gerð aðalmiðlarasamninga og umsjón með verðbréfalánum til aðalmiðlara samkvæmt sérstökum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið frá 18. október 2010. 

Nánar

Gjaldeyrisforði

Seðlabanki Íslands hefur það viðfangsefni samkvæmt lögum að varðveita gjaldeyrisforða. Með gjaldeyrisforða er Seðlabankanum gert kleift að ná settum markmiðum og sinna skyldum sínum. Gjaldeyrisforðinn dregur úr áhrifum af ytri áhættu tengdri breytingum á aðgangi að lánsfé og sveiflum í fjármagnsstreymi til og frá landinu. Forðinn gerir bankanum kleift að aðstoða ríkissjóð við að mæta þörfum fyrir erlendan gjaldeyri. 

Nánar

Seðlabanki Íslands

Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi og fjármálastöðugleika. Með samþykki fjármála- og efnahagsráðherra er bankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Lög um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 veita bankanum fullt sjálfstæði við að framkvæma peningastefnuna til þess að ná verðbólgumarkmiði. Það er skilgreint sem 2½% hækkun á verði vöru og þjónustu á 12 mánaða tímabili. 

Nánar

Alþjóðlegt samstarf

Seðlabankinn á margvíslegt samstarf við fjölmargar erlendar fjármálastofnanir, svo sem aðra seðlabanka og þá ekki síst á Norðurlöndum. Þá er reglubundið samstarf við Seðlabanka Evrópu, Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og enn fremur er Seðlabankinn hluthafi í Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss. Seðlabankinn fer með fjárhagsleg og fagleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) fyrir hönd íslenska ríkisins.

Nánar