Afleiðuviðskipti til áhættuvarna

Seðlabanki Íslands telur nú forsendur til að veita tilteknar undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, gegn umsókn þar að lútandi vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna. Breyting þessi á framkvæmd markar áfanga í átt að fullri losun fjármagnshafta. Nánar tiltekið er um að ræða undanþágur sem geta dregið úr gjaldeyrisáhættu tengdri beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis og erlendra aðila hér á landi. Jafnframt er fyrirtækjum gert kleift að leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð á efnahagsreikningi sínum. Markmiðið með breytingunni er að meta nauðsyn og vilja fyrirtækja til áhættuvarna á næstu misserum og undirbúa fulla losun fjármagnshafta. Undanþágur þessar eru sömuleiðis til þess fallnar að draga úr áhættu fyrirtækja í rekstri, að hafa jákvæð áhrif á kjör og lánshæfi þeirra. Ekki verða að sinni veittar undanþágur vegna afleiðuviðskipta til spákaupmennsku. Þess háttar viðskipti eru aftar í forgangsröðinni við losun fjármagnshafta.

Framangreindar undanþágur um afleiðuviðskipti til áhættuvarna skiptast í eftirfarandi flokka:


Sýna allt

  • Efnahagsvarnir vegna skulda innlendra fyrirtækja í atvinnurekstri

  • Greiðsluflæði vegna beinnar fjárfestingar

  • Nýfjárfesting í innlendum fyrirtækjum í atvinnurekstri

  • Rekstrarvarnir innlendra fyrirtækja í atvinnurekstri

Skilyrði fyrir veitingu undanþágu      

      
Grundvallarforsenda fyrir veitingu undanþágu til áhættuvarna samkvæmt framangreindu er að umsækjandi hyggist leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð og að umfang fyrirhugaðra varna verði ekki umfram það sem gjaldeyrisójöfnuður félagsins gefur tilefni til.

Undanþágur vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna eru í öllum tilvikum bundnar skilyrðum, s.s. um tímalengdir, hlutfall varnar, tímasetningar varna og upplýsingagjöf til Seðlabankans. Slíkum skilyrðum er meðal annars ætlað að tryggja að afleiðuviðskiptin verði raunverulega gerð til að verjast gjaldeyrisáhættu, en ekki til stöðutöku með eða á móti íslensku krónunni. 

Rétt er að taka fram í þessu sambandi að fjármálafyrirtækjum er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti þar sem grunur leikur á að viðskiptin brjóti gegn ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum settum á grundvelli þeirra og tilkynna Seðlabanka Íslands þegar í stað um slík viðskipti, sbr. 2. mgr. 15. gr. g. laganna. Þá segir í sömu málsgrein að kanna skuli bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta að því marki sem unnt er.

Bresti forsendur undanþágu í veigamiklum atriðum eða brjóti umsækjandi gegn tilgreindum skilyrðum hennar gæti komið til álita að afturkalla þegar veitta undanþágu eða að vísa slíkum málum til rannsóknar, allt eftir því hvernig málefnum er háttað hverju sinni. Þá kann röng eða villandi upplýsingagjöf til stjórnvalds að varða við almenn hegningarlög nr. 19/1940.

Upplýsingar um umsóknir um undanþágur má finna hér.