Undanþágur

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. 13. gr. o. sömu laga, er Seðlabanka Íslands heimilt að veita undanþágu frá banni á fjármagnshreyfingum samkvæmt umsókn þar að lútandi. Við mat á beiðni um undanþágu skal Seðlabankinn líta til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.


Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu.pdf 

Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu  (sama skjal birt með öðrum hætti vegna vandræða í Chrome-vefsjá).

Umsækjandi skal fylla út skjalið rafrænt, eins og við á. Umsækjandi skal undirrita útprentað skjal og senda það í bréfpósti. Umsóknir um undanþágu samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, skulu berast Seðlabanka Íslands bréflega ásamt gögnum er málið varða, sbr. 1. mgr. 13. gr. o. laganna.

Umsóknir skulu berast til:

Seðlabanki Íslands
b.t. Gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík


Afgreiðslutími undanþágubeiðna er almennt að lágmarki átta vikur eins og er. Afgreiðslutími beiðna frá einstaklingum, sem afgreiddar eru í samræmi við fordæmi, er þó að meðaltali um fjórar vikur. Ef afla þarf frekari gagna eða upplýsinga frá umsækjanda til þess að unnt sé að afgreiða undanþágubeiðni má búast við því að afgreiðslutíminn lengist sem því nemur. Afgreiðslutíminn er lengri þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða eða beiðnir sem varða töluverðar fjárhæðir þar sem mat Seðlabankans, sbr. 2. mgr.7. gr. laga um gjaldeyrismál, er unnið í samvinnu við önnur svið bankans.

Rétt er að vekja athygli á því að jafnræði er gætt í hvívetna og njóta sambærileg mál sömu málsmeðferðar og fá sömu niðurstöðu.

Starfsmenn undanþágudeildar gjaldeyriseftirlitsins, sem sjö lögfræðingar skipa, afgreiða að meginstefnu undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál. Tekið skal fram að auk þess að vinna að almennri afgreiðslu undanþágubeiðna, þá vinna starfsmenn meðal annars að því að svara fyrirspurnum sem berast í tölvupósti til gjaldeyriseftirlitsins (gjaldeyrismal@sedlabanki.is) eða í gegnum síma 569-9600.