Nýfjárfesting

Unnið að uppfærslu.


Nýfjárfesting er ívilnun sem kynnt var til sögunnar 30. október 2009, með breytingum á reglum um gjaldeyrismál, sem nú hafa verið færðar í lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Ákvæði um nýfjárfestingu er að finna í 13. gr. m. laganna. Í nýfjárfestingu felst sú ívilnun að fjárfestar, innlendir sem og erlendir, geta komið til landsins með erlendan gjaldeyri og fjárfest hérlendis án þess að festast með fjármuni fjárfestingarinnar vegna þeirra takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem til eru komnar í lögunum. Nýfjárfesting var þannig fyrsta skrefið í losun gjaldeyrishafta. Skráð nýfjárfesting er stundum nefnd gulur miði í daglegu tali .

Skilyrði nýfjárfestingar er að hún sé fjárfesting sem gerð er hérlendis eftir 31. október 2009 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris sem skipt er í innlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Þannig fellur bein fjárfesting með erlendum gjaldeyri hérlendis ekki undir skilgreiningu nýfjárfestingar. Gjaldeyrisviðskipti verða því ávallt að eiga sér stað. Fjárfestar taka þannig stöðu með krónunni í þann tíma sem þeir ætla sér að fjárfesta hérlendis. Þó eru takmarkanir á því í hverju er fjárfest og á uppruna þeirra fjármuna sem fjárfest er fyrir. Afleiður og afleiðutengd ákvæði samninga teljast ekki til nýfjárfestingar enda getur virði þeirra tekið stórfelldum og ófyrirséðum breytingum með tilheyrandi áhrifum á greiðsluflæði ef þessir gerningar væru undanþegnir fjármagnshöftum. Sambærileg sjónarmið gilda um fjárfestingar í kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð. Að auki teljast fjárfestingar sem tengjast með óbeinum hætti fjárfestingum í afleiðusamningum og kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð ekki til nýfjárfestingar þar sem óbeinar fjárfestingar geta tekið sömu stórfelldu og ófyrirséðu verðbreytingum og beinar fjárfestingar. Þá teljast söluandvirði og aðrar greiðslur vegna beinna fjárfestinga og fjárfestinga í erlendum verðbréfum og öðrum fjármálagerningum ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris í skilningi nýfjárfestingar.

Innstæður á gjaldeyrisreikningum í innlendum fjármálafyrirtækjum, sem urðu til fyrir 31. október 2009, og tekjur af útflutningsviðskiptum ásamt öðrum skilaskyldum erlendum gjaldeyri samkvæmt 13. gr. l laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris, því er ekki hægt að nýta sér ívilnun nýfjárfestingar með slíkum fjármunum.

Þegar fjárfestir vill fjárfesta hérlendis og nýta sér þessa ívilnun þarf viðkomandi að leita til innlends fjármálafyrirtækis sem aðstoðar hann við að útbúa tilkynningu um fjárfestinguna sem svo er send til Seðlabankans. Rétt er að taka fram að tilkynningin þarf að berast Seðlabanka Íslands innan þriggja vikna frá því að nýju innstreymi erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Tilkynningunni þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að um nýfjárfestingu sé að ræða í skilningi 13. gr. m. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.

Við losun fjárfestingarinnar þarf fjárfestir aftur að fá aðstoð hjá innlendu fjármálafyrirtæki sem útbýr fyrir hann útgreiðslubeiðni sem send er Seðlabanka Íslands til staðfestingar. Þegar Seðlabankinn hefur staðfest útgreiðslubeiðnina falla gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar, vegna þeirra fjármuna sem fjárfestir kemst yfir vegna sölu á fjárfestingunni, ekki undir takmarkanir laganna um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa.

Á tímabilinu frá því nýfjárfesting var fyrst heimiluð og til 31. maí 2015 hafa alls verið skráðar 1.116 nýfjárfestingar fyrir samtals 93,5 milljarða króna. Af þeirri fjárhæð hafa 472 skráningar verið losaðar að fullu, fyrir 37,7 milljarða króna, og 60 skráningar verið losaðar að hluta fyrir 9,6 milljarða króna. Alls hefur losun 532 nýfjárfestinga verið samþykktar í heild eða hluta fyrir samtals 47,2 milljarða króna. Rétt er að benda á að hver fjárfestir og/eða fjárfesting getur verið að baki fleiri en einni skráðri nýfjárfestingu.