logo-for-printing

Hvað er heimilt?

Með reglum nr. 200/2017, um gjaldeyrismál, sem tóku gildi 14. mars 2017, voru takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum og erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskiptum að mestu leyti afnumdar. Frá þeim tíma hafa heimili og fyrirtæki því almennt ekki verið bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál setja meðal annars á gjaldeyrisviðskipti, fjárfestingar erlendis, áhættuvarnir og lánaviðskipti, auk þess sem skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri hefur verið afnumin. Þessi atriði hafa haft hvað mest áhrif á heimili og fyrirtæki frá því að fjármagnshöft voru sett haustið 2008. Breytingarnar fólu jafnframt í sér að erlend fjárfesting lífeyrissjóða, sjóða um sameiginlega fjárfestingu og annarra fjárfesta umfram fjárhæðarmark sem tilgreint er í lögum um gjaldeyrismál, sem fram að því hafði verið bundin við sérstakar undanþágur Seðlabankans, varð heimil. Staða krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skv. lögum nr. 37/2016, svokallaðra aflandskrónueigna, er hins vegar óbreytt.

Sérstök bindingarskylda vegna tiltekinna fjárfestinga í tengslum við nýtt innstreymi erlends gjaldeyris er áfram til staðar. Nánari upplýsingar um bindingarskyldu má finna hér.

Upplýsingar um þær takmarkanir sem ennþá eru til staðar samkvæmt lögum um gjaldeyrismál er að finna hér.

Nánari upplýsingar um heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa eða gjaldeyrisviðskipta samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrismál má fá með því að senda fyrirspurn á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is eða hringja í síma 569-9600.