logo-for-printing

Rekstur

Rafræn greiðslumiðlun stuðlar að gegnsæi og skilvirkni. Hlutfall rafrænnar greiðslumiðlunar er mjög hátt á Íslandi og byggir á notkun greiðslukerfa sem mörg hver tengjast beint og óbeint. Peningafærslur frá mismunandi greiðslukerfum (eða fjármálainnviðum) fara ólíkar leiðir í gegnum greiðslu- og uppgjörskerfi, sem saman sjá um miðlun, uppgjör og skráningu viðskiptanna. Peningafærslurnar safnast úr smærri kerfum yfir í stærri kerfi og mörg fjármálafyrirtæki bjóða greiðslumiðlun og veita tengda fjármálaþjónustu. Þar sem stærstu kerfin byggja á tölvubúnaði Reiknistofu bankanna er greiðslumiðlun hér á landi mjög miðlæg og tengist með einum eða öðrum hætti starfsemi Reiknistofu bankanna (RB). Þetta fyrirkomulag stendur á gömlum merg og áratuga farsælu samstarfi banka og sparisjóða. Kostir þessa eru m.a. aukin samhæfing, yfirsýn og rekstrarhagkvæmni. Fyrirkomulagið getur hins vegar haft í för með sér rekstraráhættu, þ.e. að vandamál sem upp koma í einu kerfi geta hugsanlega smitast yfir í önnur kerfi. 


Sýna allt

 • Stórgreiðslukerfi (e. Real-Time Gross Settlement System)

 • Jöfnunarkerfi (e. Retail netting System)

 • Verðbréfauppgjörskerfi (e. Securities Settlement System)

Mikilvægustu greiðslu- og uppgjörskerfin eru stórgreiðslukerfi, jöfnunarkerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Seðlabanki Íslands annast daglega umsjón með stórgreiðslukerfi, Greiðsluveitan ehf. annast jöfnunarkerfi og Verðbréfaskráning Íslands hf. annast umsjón með verðbréfauppgjörskerfi. Tæknilegur rekstur þessara kerfa er í höndum RB. Seðlabanki Íslands er með yfirsýn með greiðslumiðluninni, og ofangreindum greiðslu- og uppgjörskerfum vegna mikilvægis þessara undirstöðuþátta fyrir fjármálastöðugleika og hagkerfið í heild.

Gjarnan er litið á þau kerfi sem miðla mikilli veltu og verðmætum á milli fjármálastofnana sem þýðingarmestu kerfin og kerfislega mikilvæg. Ef greiðandi og móttakandi fjármagns eru viðskiptamenn í ólíkum fjármálastofnunum fer jafnframt fram greiðsla á milli fjármálastofnananna í samræmi við greiðslufyrirmæli greiðandans. Allar greiðslur í íslenskum krónum sem fram fara milli fjármálastofnana/þátttakenda í stórgreiðslu- og jöfnunarkerfunum eru endanlega gerðar upp í gegnum reikninga þeirra í Seðlabanka Íslands.


Stórgreiðslukerfið

SG-kerfið var tekið í notkun 2001. Í kerfinu fer fram rauntímabrúttóuppgjör með íslenskar krónur (e. real-time gross settlement, RTGS). Það þýðir að greiðslufyrirmæli í íslenskum krónum eru bókuð samtímis á reikning greiðanda og móttakanda annars vegar og reikninga þeirra fjármálastofnana sem hlut eiga að máli hjá Seðlabanka Íslands hins vegar.

Greiðslufyrirmæli sem berast til SG-kerfisins eru af fernum toga:

 • Allar greiðslur að fjárhæð 10 milljónir króna eða hærri fjárhæð af reikningi viðskiptavinar hjá einum þátttakanda á reikning viðskiptavinar hjá öðrum þátttakanda. Seðlabankinn getur heimilað lægri fjárhæð.
 • Greiðsla í eigin nafni af reikningi eins þátttakanda í SÍ á reikning annars þátttakanda í SÍ án tillits til fjárhæðar.
 • Færslur vegna uppgjörs í jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar (félags í eigu SÍ) án tillits til fjárhæðar.
 • Færslur vegna uppgjörs í verðbréfauppgjörskerfi Verðbréfaskráningar Íslands án tillits til fjárhæðar.

SG-kerfið gegnir lykilhlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Í því eru t.a.m. gerð upp viðskipti Seðlabankans við innlánsstofnanir, m.a. sem liður í því að framfylgja peningastefnu bankans. Einnig eru gerð upp í því viðskipti á millibankamarkaði með krónur og millibankamarkaði með gjaldeyri. Þá fara um það færslur vegna uppgjörs í tveimur mikilvægum uppgjörskerfum, þ.e. verðbréfauppgjörskerfi Verðbréfaskráningar Íslands og JK-kerfinu. Aðild fjármálafyrirtækja að stórgreiðslukerfinu er forsenda fyrir starfshæfi þeirra á íslenskum fjármálamarkaði.

 

Sýna allt

 • Stjórnskipulag

 • Aðild að stórgreiðslukerfinu

 • Kerfisuppbygging

 • Þjónusta

 • Starfrækslutími

 • Gjaldskrá

 • Þátttakendur

 • Lög og reglugerðir varðandi greiðslumiðlun og stórgreiðslukerfi