logo-for-printing

Fjármálakerfið

Fjármálastöðugleikasvið fylgist með þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Starfsemi seðlabanka á þessu sviði er frábrugðin hefðbundnu fjármálaeftirliti að því leyti að í stað þess að fylgjast fyrst og fremst með stöðu einstakra fjármálastofnana er áhersla lögð á þætti sem kynnu að fela í sér hættu fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Í því skyni að stuðla að traustum undirstöðum og heilbrigði fjármálakerfisins hafa Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið gert með sér samstarfssamning, sjá hann og aðra samninga hér: Samningar og samstarf.

 

6. apríl 2017

Helstu áhættuþættir

Við mat á fjármálastöðugleika þarf einkum að líta til tveggja þátta, annars vegar áhættu og hins vegar viðnámsþróttar eða getu til að mæta áhættu. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hefur verið hagfellt undanfarin misseri og ekki eru skýr merki um yfirvofandi kerfisáhættu. Ýmis teikn eru þó á lofti sem vert er að fylgjast sérstaklega með. Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög hratt og er nú stærsta útflutningsatvinnugrein landsins. Vexti hennar hefur fylgt verulegt innstreymi gjaldeyris sem ásamt öðru innstreymi hefur styrkt gengi krónunnar umtalsvert þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði. Alltaf er hætt við að svo hraðri þróun fylgi sveiflur og að aðlögun að nýju jafnvægi verði ekki hnökralaus. Ferðaþjónustan hefur einnig valdið þrýstingi á fasteignaverð. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er langt umfram framboð og hætt er við að skuldavöxtur fylgi í kjölfar mikilla verðhækkana á húsnæði. Til lengri tíma litið gæti þensla í hagkerfinu smitað inn í fjármálakerfið. Enn sjást þó ekki merki um of öran útlánavöxt. Að lokum má nefna að þótt gott sé að bankarnir hafi greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum og að kjör á fjármögnun hafi batnað, opnar það á þann möguleika að innlendir aðilar sem eru óvarðir fyrir gjaldmiðlaáhættu taki lán í erlendum gjaldmiðlum. Verði slík lán veitt í verulegum mæli getur það grafið undan stöðugleika fjármálakerfisins. Enn er enginn þessara áhættuþátta orðinn áhyggjuefni fyrir fjármálastöðugleika en þeir gætu þróast í kerfisáhættu. Fjármálakerfið stendur vel um þessar mundir, eiginfjárhlutföll eru há, lausafjárstaða góð og vanefndir með minnsta móti þar sem staða lántakenda er sterk. Bankarnir eru því vel í stakk búnir til að mæta áföllum.


 

 

Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja

Ytri aðstæður hafa verið innlenda hagkerfinu hagfelldar síðustu misseri. Lánshæfismat ríkissjóðs og bankanna hefur hækkað, viðskiptakjör batnað og mikill hagvöxtur er drifinn áfram af vexti í útflutningi. Uppgangur í efnahagslífinu hefur haft jákvæð áhrif á starfsumhverfi bankanna. Skuldir heimila og fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu hafa haldið áfram að lækka, fyrst og fremst vegna mikils hagvaxtar. Hagur heimila heldur áfram að vænkast með vaxandi kaupmætti og háu atvinnustigi og staða fyrirtækja hefur einnig styrkst en uppganginum í efnahaglífinu hefur fylgt aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn í hálfa öld og verulegur afgangur er af utanríkisviðskiptum sem ásamt öðru gjaldeyrisinnstreymi hefur leitt til töluverðrar hækkunar á gengi krónunnar. Um miðjan mars voru fjármagnshöft losuð sem næst að fullu af einstaklingum og fyrirtækjum. Takmörkuð reynsla er komin á áhrif þess en án hafta verður efnahagslífið næmara fyrir ytri áhrifum en áður

 

Fyrirtæki á fjármálamarkaði

Samsetning fjármálakerfisins hefur breyst á undanförnum árum. Hlutdeild lífeyrissjóða hefur aukist en hlutdeild innlánsstofnana dregist saman, auk þess hefur skuggabankakerfið stækkað. Eignir kerfislega mikilvægra banka (KMB) nema um 98% af eignum innlánsstofnana.

Kerfislega mikilvægir bankar

Samanlagður hagnaður og arðsemi KMB lækkuðu umtalsvert frá 2015 til 2016. Tekjur af óreglulegum liðum lækkuðu mikið en á móti kom að hreinar vaxtatekjur jukust töluvert. Vöxtur er í útlánum og vanskil eru með lægsta móti. Takmörkuð eftirspurn er eftir innlendri markaðsútgáfu bankanna en erlend markaðsfjármögnun hefur gengið vel. Staða bankanna er sterk, lausafjár- og vogunarhlutföll þeirra eru há og eiginfjárstaða góð. Í mars keyptu erlendir vogunarsjóðir og eignastýringarfyrirtæki samtals 29% eignarhlut í Arion banka og framundan er frekari sala á eignarhlutum í bankanum.

Aðrir aðilar á fjármálamarkaði

Íbúðalánasjóður er enn að takast á við verulegar uppgreiðslur útlána, á sama tíma og mjög takmörkuð eftirspurn er eftir nýjum lánum hjá sjóðnum. Talsverð aukning er í eignum lífeyrissjóða með veði í innlendum fasteignum í gegnum beinar lánveitingar, skuldabréfaútgáfur fasteignafélaga og sérhæfða fjárfestingu. Hlutdeild skuggabankakerfisins í fjármálakerfinu hefur stækkað og tengsl þess við innlánsstofnanir hafa aukist.