Yfirsýn
Seðlabanki Íslands beinir fyrst og fremst sjónum að hinu þjóðhagslega umhverfi fjármálakerfisins og að fjármálakerfinu í heild, styrk þess og veikleikum. Markmið yfirsýnar með kerfislega mikilvægum fjármálainnviðum af hálfu Seðlabankans eru að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni kjarnainnviða íslensks fjármálakerfis, og þar með fjármálastöðugleika.
Í yfirsýnarhlutverki Seðlabankans gagnvart kerfislega mikilvægum innviðum felst einkum eftirfarandi:
- Fylgst er með þróun, virkni og rekstraröryggi slíkra innviða með söfnun upplýsinga og samskiptum við kerfisstjóra, sem lagalega ábyrgð bera á rekstri innviða sinna, s.s. um frávik/uppákomur.
- Reglubundið skal mat lagt á öryggi og virkni einstakra kerfislega mikilvægra innviða á grundvelli alþjóðlega viðurkenndra tilmæla um bestu framkvæmd, þ.e. Kjarnareglna CPMI/BIS og IOSCO (e. Principles for Financial Market Infrastructures, PFMI). Kjarnareglunum skal beitt með samræmdum hætti gagnvart ólíkum kerfislega mikilvægum innviðum.
- Tillögugerð um breytingar á innviðum og umgjörð þeirra (þ.m.t. regluverki), ef ástæða þykir til.
Árlega fjallar Seðlabankinn um kerfislega mikilvæga fjármálainnviði í riti sínu Fjármálainnviðir. Gerð er grein fyrir ofangreindum þáttum eftir því sem við kann að eiga. Seðlabankinn endurmetur reglulega hvaða fjármálainnviðir teljast skulu kerfislega mikilvægir, á grundvelli framangreindra viðmiða. En eitt af verkefnum fjármálastöðugleikaráðs skv. lögum nr. 66/2014 er að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum innviðum sem eru þess eðlis að geta haft áhrif á fjármálastöðugleika. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið eiga lögum samkvæmt með sér samstarf m.t.t. fjármálastöðugleika og mögulegrar kerfisáhættu, þ.á m. á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar (sjá 35. gr. laga nr. 36/2001, 15. gr. laga nr. 87/1998 og gildandi samstarfssamning stofnananna. Stofnanirnar hafa t.d. átt samstarf um framkvæmd úttektar á uppgjörskerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. andspænis alþjóðlegum tilmælum um öryggi verðbréfauppgjörs.)
Sýna allt
Hvað er átt við með hugtakinu fjármálainnviðir?
Fjármálainnviði má kalla „pípulagnir“ eða „vegakerfi“ markaðanna. Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) og Alþjóðlega verðbréfanefndin (IOSCO) hafa skilgreint hugtakið þannig:
„Með fjármálainnviðum er átt við marghliða kerfi sem skilgreindir aðilar eru þátttakendur í og notuð eru til greiðslujöfnunar, uppgjörs eða skráningar greiðslna, verðbréfa-, afleiðu- og/eða annarra fjármálaviðskipta. Settar eru reglur og staðlað verklag sem gildir um alla þátttakendur í hlutaðeigandi innviðum, sameiginlegu tækniumhverfi og viðeigandi sérhæfðri áhættustýringu komið á fót. Fjármálainnviðir veita þátttakendum miðlæga greiðslujöfnunar-, uppgjörs- og skráningarþjónustu (…) sem gerir aukna skilvirkni mögulega og dregur úr kostnaði og áhættu. (…) Fjármálainnviðir geta stuðlað að auknu gagnsæi á ákveðnum mörkuðum. Sumir fjármálainnviðir eru mikilvægir til stuðnings framkvæmdar seðlabanka á peningastefnu og því hlutverki þeirra að stuðla að fjármálastöðugleika."
Hvað er átt við með hugtakinu kerfislega mikilvægir?
Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir á hverjum tíma eru einkum greiðslukerfi sem geta hrundið af stað og/eða breitt út kerfislega röskun. Þá má ganga út frá að allar verðbréfamiðstöðvar, verðbréfauppgjörskerfi, miðlægir mótaðilar (e. central counterparties) og viðskiptahýsingar (e. trade repositories) teljist kerfislega mikilvægir innviðir, a.m.k. í heimalögsögu sinni. Reglubundið skal endurmetið hvaða innviðir teljast kerfislega mikilvægir á hverjum tíma).
Fjármálainnviðir geta hvort heldur verið í eigu einkaaðila eða opinberra aðila. Að einhverju marki kunna ólík viðmið að eiga við um ólíkar tegundir innviða. Sem dæmi má nefna að hér á landi eru verðbréfamiðstöðvar starfsleyfis- og eftirlitsskyldir aðilar, þ.a.l. háðar eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Ófullnægjandi öryggi og skilvirkni í rekstri kerfislega mikilvægra fjármálainnviða getur valdið keðjuverkun milli þátttakenda og markaða. Viðhafa ber staðfasta og skörulega áhættustýringu af hálfu kerfisstjóra slíkra innviða, enda geta áföll í eða tengd rekstri þeirra haft veruleg neikvæð áhrif fyrir samfélagið. Í nútímahagkerfum og fjármálamörkuðum þykir því viðeigandi að gera ríkar kröfur til kerfisstjóra kerfislega mikilvægra innviða um fagleg vinnubrögð og rekstrarfyrirkomulag, svo og að fela yfirvöldum að veita slíkum rekstri aðhald; markmiðið að lágmarka mögulega kerfisáhættu.
Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir á Íslandi
Stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar ehf. eru stærstu og mikilvægustu greiðslukerfin á Íslandi nú, með vísan til veltu og fjármálastöðugleika.
Eina innlenda verðbréfauppgjörskerfið rekur Verðbréfaskráning Íslands hf. Endanlegt uppgjör jöfnunarkerfisins og verðbréfaviðskipta (þ.e. fjárhagsfærslur verðbréfauppgjörskerfisins) á sér stað í stórgreiðslukerfinu.
Kerfislegt mikilvægi einstakra innviða, fyrir íslenskt fjármálakerfi, er einkum ákvarðað út frá neðangreindum viðmiðum (Eigin kerfi/innviðir greiðsluþjónustuveitenda skv. lögum nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu („innanhússkerfi“) uppfylla almennt ekki hefðbundin viðmið um kerfislegt mikilvægi):
- Viðskiptamagni.
- Fjölda og stærð/mikilvægi þátttakenda.
- Staðgengnimöguleikum.
- Tengslum við aðra fjármálainnviði
- Mikilvægi/snertiflötum við peningastefnu.
- Beinum áhrifum á raunhagkerfið.
Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir njóta almennt viðurkenningar og eru tilkynntir sem slíkir til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum (Á vefsíðu Framkvæmdastjórnar ESB er að finna lista yfir alla innviði á Evrópska efnahagssvæðinu sem njóta viðurkenningar samkvæmt Settlement Finality Directive 98/26/EC, en með lögum nr. 90/1999 var sú tilskipun innleidd hér á landi).