logo-for-printing

Rekstur

Rafræn greiðslumiðlun stuðlar að gegnsæi og skilvirkni. Hlutfall rafrænnar greiðslumiðlunar er mjög hátt á Íslandi og byggir á notkun greiðslukerfa sem mörg hver tengjast beint og óbeint. Peningafærslur frá mismunandi greiðslukerfum (eða fjármálainnviðum) fara ólíkar leiðir í gegnum greiðslu- og uppgjörskerfi, sem saman sjá um miðlun, uppgjör og skráningu viðskiptanna. Peningafærslurnar safnast úr smærri kerfum yfir í stærri kerfi og mörg fjármálafyrirtæki bjóða greiðslumiðlun og veita tengda fjármálaþjónustu. Þar sem stærstu kerfin byggja á tölvubúnaði Reiknistofu bankanna er greiðslumiðlun hér á landi mjög miðlæg og tengist með einum eða öðrum hætti starfsemi Reiknistofu bankanna (RB). Þetta fyrirkomulag stendur á gömlum merg og áratuga farsælu samstarfi banka og sparisjóða. Kostir þessa eru m.a. aukin samhæfing, yfirsýn og rekstrarhagkvæmni. Fyrirkomulagið getur hins vegar haft í för með sér rekstraráhættu, þ.e. að vandamál sem upp koma í einu kerfi geta hugsanlega smitast yfir í önnur kerfi. 

Mikilvægustu greiðslu- og uppgjörskerfin eru stórgreiðslukerfi, jöfnunarkerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Seðlabanki Íslands annast daglega umsjón með stórgreiðslukerfi, Greiðsluveitan ehf. annast jöfnunarkerfi og Verðbréfaskráning Íslands hf. annast umsjón með verðbréfauppgjörskerfi. Tæknilegur rekstur þessara kerfa er í höndum RB. Seðlabanki Íslands er með yfirsýn með greiðslumiðluninni, og ofangreindum greiðslu- og uppgjörskerfum vegna mikilvægis þessara undirstöðuþátta fyrir fjármálastöðugleika og hagkerfið í heild.

Gjarnan er litið á þau kerfi sem miðla mikilli veltu og verðmætum á milli fjármálastofnana sem þýðingarmestu kerfin og kerfislega mikilvæg. Ef greiðandi og móttakandi fjármagns eru viðskiptamenn í ólíkum fjármálastofnunum fer jafnframt fram greiðsla á milli fjármálastofnananna í samræmi við greiðslufyrirmæli greiðandans. Allar greiðslur í íslenskum krónum sem fram fara milli fjármálastofnana/þátttakenda í stórgreiðslu- og jöfnunarkerfunum eru endanlega gerðar upp í gegnum reikninga þeirra í Seðlabanka Íslands.

Sýna allt

  • Stórgreiðslukerfi (e. Real-Time Gross Settlement System)

  • Jöfnunarkerfi (e. Retail netting System)

  • Verðbréfauppgjörskerfi (e. Securities Settlement System)