logo-for-printing

Fjármálakerfið

Fjármálastöðugleikasvið fylgist með þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Starfsemi seðlabanka á þessu sviði er frábrugðin hefðbundnu fjármálaeftirliti að því leyti að í stað þess að fylgjast fyrst og fremst með stöðu einstakra fjármálastofnana er áhersla lögð á þætti sem kynnu að fela í sér hættu fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Í því skyni að stuðla að traustum undirstöðum og heilbrigði fjármálakerfisins hafa Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið gert með sér samstarfssamning, sjá hann og aðra samninga hér: Samningar og samstarf.

 

12. apríl 2018

Helstu áhættuþættir

Áhætta í fjármálakerfinu er innan hóflegra marka enda hafa ytri aðstæður verið fjármálafyrirtækjum hagfelldar undanfarin misseri. Þó eru nýlegar vísbendingar um vaxandi áhættusækni og að aukinnar áhættu sé farið að gæta í fjármálakerfinu. Áhrif eins lengsta hagvaxtarskeiðs á Íslandi koma nú m.a. fram í auknum útlánavexti en hann verður þó enn að teljast hóflegur, sérstaklega hjá heimilum, en útlán til fyrirtækja hafa aukist nokkru hraðar. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað áfram en dregið hefur úr hækkuninni að undanförnu. Aukið svigrúm heimila til skuldsetningar, samhliða sögulega lágum vöxtum á fasteignalánum og sögulega háu húsnæðisverði, getur leitt til frekari útlánavaxtar og ýtt undir meiri hækkun íbúðaverðs. Slík þróun getur aukið áhættu og ójafnvægi í fjármálakerfinu. Ör vöxtur ferðaþjónustunnar hefur einnig valdið hækkun íbúðaverðs. Áhætta tengd framvindu ferðaþjónustunnar gæti því raskað verðþróun á íbúðamarkaði. Verð á atvinnuhúsnæði hefur einnig hækkað mjög undanfarin ár og er raunverð nú með því hæsta sem mælst hefur síðustu tvo áratugi. Það hefur hækkað yfir 10% á ári samfleytt síðustu fjögur ár. Nú fer því saman hátt fasteignaverð og aukning útlána. Þegar mikill útlánavöxtur fer saman við hátt eignaverð getur áhætta aukist í fjármálakerfinu. Nokkurs óróa hefur gætt á erlendum fjármagnsmörkuðum það sem af er ári. Undanfarin misseri hefur áhættusækni markaðsaðila aukist samhliða sögulega lágu áhættuálagi. Væntingar um aukna verðbólgu og hærri vexti hafa hreyft við erlendum eignamörkuðum í ár. Mögulegt endurmat á áhættuálagi getur einnig haft áhrif á eignaverð. Í opnara umhverfi er Ísland næmara fyrir breytingum á ytri aðstæðum sem gætu leitt til vaxandi áhættu. Fjárhagsleg staða heimila og fyrirtækja er enn sterk og viðnámsþróttur bankanna mikill. Eiginfjár- og lausafjárhlutföll bankanna hafa verið vel yfir tilskildum mörkum á undanförnum misserum og því nokkurt svigrúm til arðgreiðslna. Miklar arðgreiðslur upp á síðkastið og áform um frekari arðgreiðslur á þessu ári hafa þó fært eiginfjárhlutföll bankanna mun nær eiginfjárkröfum Fjármálaeftirlitsins. Bankarnir þurfa að viðhalda getu til að mæta áföllum eftir að toppi fjármálasveiflunnar er náð svo að áföll ógni ekki stöðugleika fjármálakerfisins með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á þjóðarbúið. Því er mikilvægt að við arðgreiðslur og breytingar á fjármagnsskipan banka sé tekið mið af aukinni áhættusækni og stöðu fjármálasveiflunnar.

 

 

Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja

Efnahagsþróun er áfram hagfelld. Hagvöxtur er töluverður, hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð, afgangur er af utanríkisviðskiptum og jafnvægis hefur gætt að undanförnu á gjaldeyrismarkaði. Mikil umsvif í efnahagslífinu undanfarin misseri hafa leitt til bættrar afkomu fyrirtækja og styrkt stöðu þeirra. Fjárhagsstaða heimilanna hefur einnig styrkst með sterkari eiginfjárstöðu og auknum kaupmætti. Undanfarin misseri hefur vöxtur útlána aukist en er þó enn hóflegur. Alþjóðlegur hagvöxtur og verðbólga hafa aukist og slaki minnkað. Stýrivextir hafa verið hækkaðir bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi en Seðlabanki Evrópu heldur vöxtum áfram í núlli. Nokkrar hræringar hafa verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu. Hækkandi vextir eftir langvarandi lágvaxtaumhverfi og mögulegt endurmat á áhættuálagi getur hreyft við eignaverði.

 

Fyrirtæki á fjármálamarkaði

Helsta breytingin undanfarin ár sem orðið hefur á hlutfallslegri stærð efnahagsreikninga aðila á fjármálamarkaði er að hlutdeild lífeyrissjóða hefur aukist töluvert en hlutdeild Íbúðalánasjóðs hefur minnkað umtalsvert. Í árslok 2017 tilheyrðu um 40% eigna fjármálakerfisins lífeyrissjóðum og er ólíklegt að hlutfallið lækki á næstunni þar sem framlag atvinnurekenda í sjóðina hefur verið hækkað.1 Innlánsstofnanir eru hættar að minnka miðað við landsframleiðslu. Á árinu 2017 hækkaði hlutfallið lítillega og nam 133% í árslok. Sem hlutfall af heildarfjáreignum fjármálakerfisins nema eignir innlánsstofnana nú rúmlega þriðjungi, þar af tilheyra um 97% kerfislega mikilvægum bönkum. Hlutur Íbúðalánasjóðs er um 8% af heildarfjáreignum fjármálakerfisins og það sem eftir stendur eða um 17% af heildarfjáreignunum tilheyrir öðrum aðilum á fjármálamarkaði.

Kerfislega mikilvægir bankar

Undanfarin ár hefur vægi útlána af heildareignum kerfislega mikilvægra banka (KMB) aukist og jukust útlán þeirra töluvert á árinu 2017. Lausafjárstaða bankanna hélst áfram sterk og vel hefur gengið með markaðsfjármögnun bæði á erlendum mörkuðum og innanlands. Hagnaður og arðsemi KMB lækkuðu nokkuð á árinu 2017 miðað við árið á undan, en rekstur KMB á síðasta ári einkenndist helst af lækkun óreglulegra tekna og matsliða. Hreinar vaxtatekjur og rekstrarkostnaður hafa á heildina litið lítið breyst á milli ára en þróun þessara þátta er nokkuð mismunandi milli bankanna. Eigið fé KMB hækkaði lítið eitt á milli ára þrátt fyrir töluverðar arðgreiðslur á árinu 2017 en vegna hærri áhættugrunns lækkaði eiginfjárhlutfall KMB samanborið við árslok 2016. Líklegt er að eiginfjárhlutfall KMB lækki áfram með frekari arðgreiðslum. Hærra lánshæfismat og betra aðgengi bankanna að fjármögnun eykur síðan svigrúm þeirra til að breyta fjármagnsskipan sinni með tilliti til samsetningar og stærðar eiginfjárgrunns. Lækkun eigin fjár og breyting á samsetningu eiginfjárgrunns verða þó alltaf að samrýmast kröfum um eiginfjárgrunn með fullum eiginfjáraukum og lausafjárstöðu.

Aðrir lánveitendur

Miklar uppgreiðslur reynast Íbúðalánasjóði áfram erfiðar en sjóðurinn reynir að draga úr neikvæðum áhrifum uppgreiðslna á vaxtamun sjóðsins með því að fjárfesta í eignavörðum verðtryggðum skuldabréfum. Erlendar eignir lífeyrissjóða jukust talsvert á milli ára en á síðasta ári héldu lífeyrissjóðirnir áfram að fjárfesta erlendis, þá aðallega í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum.