logo-for-printing

31.03.2017

Hvaða upplýsingar geymir greiðslujöfnuður?

Tómas Örn Kristinsson framkvæmdastjóri Ásgeir Daníelsson forstöðumaður Ríkarður B. Ríkarðsson forstöðumaður Rósa Sveinsdóttir sérfræðingur.

Alla jafna eru fáir sem rýna í tölfræði Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð, sem er miður, því úr tölfræðinni má lesa margvíslegar og gagnlegar upplýsingar um fjármagnsflæði milli innlendra og erlendra aðila. Að undanförnu hafa birst nokkrar greinar og skýrsla þar sem rýnt er í tölfræðina og dregnar af henni margvíslegar ályktanir. Því miður er sumt í þessum skrifum nokkuð ónákvæmt. T.d. leggur Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, saman viðskiptajöfnuð og útstreymi fjármagns í grein sem hann birti á heimasíðu Virðingar 6. febrúar og fær út tölur sem hann segir sýna mikið innstreymi fjármagns til landsins. Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Gamma, ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu 8. febrúar og telur þar að tölur Seðlabankans sýni mikið innstreymi fjármagns á þriðja fjórðungi ársins 2016 og segir þetta innstreymi til komið vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans og það geti leitt til þess að hagkerfið „brotni vegna ofriss krónunnar“. Ályktanir þessara hagfræðinga byggjast að nokkru leyti á misskilningi á því hvaða upplýsingar greiðslujöfnuður geymir eins og fjallað er um hér fyrir neðan. Í nýlegri skýrslu um „Eignir Íslendinga á aflandssvæðum“ eru vafasamar vangaveltur um kerfisbundna skekkju út frá uppsafnaðri fjárhæð liðarins „skekkjur og vantalið“ úr greiðslujöfnuði yfir langt tímabil.

Grundvallarreglur greiðslujafnaðar

Greiðslujöfnuður sýnir viðskipti milli innlendra og erlendra aðila yfir ákveðið tímabil. Honum er skipt upp í viðskiptajöfnuð og fjármagnsjöfnuð (til einföldunar sleppum við jöfnuði fjárframlaga, sem jafnan er óverulegur liður). Viðskiptajöfnuður (VJ) sýnir mun á tekjum innlendra aðila vegna útflutnings, launa, vaxta og arðs frá erlendum aðilum og gjöldum vegna sömu þátta. Afgangur af viðskiptajöfnuði bætir erlenda stöðu þjóðarbúsins, annaðhvort vegna þess að erlendar eignir aukast eða skuldir lækka. Sé aftur á móti halli á viðskiptajöfnuðinum versnar erlend staða þjóðarbúsins, annaðhvort vegna þess að gengið er á erlendar eignir eða að hallanum er mætt með erlendri lántöku.
Þessar breytingar á erlendri stöðu þjóðarbúsins mynda hina hliðina á greiðslujöfnuðinum, þ.e. fjármagnsjöfnuður (FJ) sem sýnir fjármagnsviðskipti milli innlendra og erlendra aðila. Grundvallarreglan er að viðskiptajöfnuður er jafn fjármagnsjöfnuði VJ = FJ. Allar færslur í viðskiptajöfnuð eru mótbókaðar í fjármagnsjöfnuði og eigna- eða skuldaviðskipti jafnast út í fjármagnsjöfnuði.

Því miður er það oft svo að ekki tekst að afla upplýsinga um öll viðskipti sem tilheyra greiðslujöfnuði. Ástæður þess eru margar og eru ræddar hér fyrir neðan undir liðnum: Skekkjur og vantalið (S&V;). Eftir sem áður hlýtur grunnjafnan að gilda jafnvel þótt ekki takist að afla allra nauðsynlegra upplýsinga og er S&V; bætt við sem afgangslið og þá verður jafnan:

VJ – FJ + S&V; = 0.

Hvaða upplýsingar má finna í birtingu Seðlabankans á greiðslujöfnuði?

Í síðustu birtingu Seðlabankans á greiðslujöfnuði kom fram að fjármagnsjöfnuður hefði verið jákvæður um 129 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi 2016. Hreint fjármagnsútstreymi (þ.e. uppbygging eigna innlendra aðila erlendis umfram aukningu eigna erlendra aðila innanlands) var því 129 ma.kr. og eins og sjá má í töflu 1 fór það að mestu leyti í að byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans eða alls 116 ma.kr.
Ásgeir Jónsson mælir fjármagnsinnstreymi til landsins út frá tölum Seðlabankans með því að leggja saman VJ + FJ + S&V;, sem fyrir þriðja fjórðung ársins 2016 verður 100 + 129 + 29 = 258 ma.kr., sem er allnokkur fjárhæð og gæti augljóslega haft mikil áhrif á gengi krónunnar og aðrar þjóðhagsstærðir. Eins og fram kemur hér að ofan er VJ = FJ og því ekki rétt að leggja þessar tvær stærðir saman.

Í greiðslujöfnuði er innstreymi fjármagns alltaf jafnt útstreyminu. Það er vissulega hægt að finna í þessum tölum upplýsingar um aukningu útflutnings á þjónustu og aukningu erlendra eigna innlendra aðila sem auðvitað eru vísbendingar um framboð og eftirspurn eftir gjaldeyri, en sjálfur greiðslujöfnuðurinn, sem er alltaf núll, er skráning á þeim viðskiptum sem áttu sér stað eftir að búið var að ákveða gengi gjaldmiðlanna. Þessi jöfnuður segir þess vegna ekkert um framboð og eftirspurn eftir gjaldeyri eða mögulegan „þrýsting“ á gengi krónunnar.

Nánari lýsing á gerð greiðslujafnaðar má finna á heimasíðu Seðlabankans.

Skekkjur og vantalið

Í lýsingu á aðferðafræðinni sem áður var nefnd eru tilgreindar þrjár ástæður fyrir liðnum S&V;: Tímaskekkja vegna þess t.d. að útflutningur á sér stað áður en greiðsla berst og ósamræmi er við gögn um lán í formi greiðslufrests kaupanda, verðskekkja vegna breytinga á verði frá því að viðskipti eiga sér stað og þangað til greiðsla berst, t.d. vegna gengisbreytinga, og magnskekkja vegna þess að Seðlabankinn fær ekki þær upplýsingar sem þörf er á og veldur það skekkjum.
Í skýrslunni „Eignir Íslendinga á aflandssvæðum“ er notast við upplýsingar úr greiðslujafnaðartölum Seðlabanka Íslands og augunum sérstaklega beint að liðnum S&V; og ýjað að því að kerfisbundin villa kunni að vera í liðnum. Þessu til stuðnings er í mynd á bls. 31 sýndur „uppsafnaður skekkjuliður á föstu gengi“ fyrir tímabilið frá fyrsta fjórðungi ársins 1995 til fyrsta fjórðungs ársins 2016 og er talan fyrir síðasta fjórðunginn tæplega -400 ma.kr., sem er óneitanlega mjög stór tala.

Þegar tölfræðingar meta hvort skekkja sé kerfisbundin eða ekki horfa þeir ekki til samanlagðra mæliskekkja í úrtakinu. Ef mæliskekkjurnar eru óháðar getur summa mæliskekkja verið mjög há eða lág tala þótt kerfisbundin skekkja sé ekki til staðar, ef mælingar eru nægjanlega margar. Til að kanna hvort um kerfisbundna skekkju sé að ræða er tekið meðaltal af skekkjunum og það borið saman við mælikvarða á dreifinguna, oftast staðalfrávikið. Ef meðalskekkjan er normaldreifð og einstakar skekkjur óháðar þarf meðalskekkjan að vera stærri en tvö staðalfrávik til að hægt sé að tala um marktæka (kerfisbundna) skekkju miðað við 5% skekkjumörk. Á tímabilinu frá fyrsta fjórðungi ársins 1995 til þriðja fjórðungs ársins 2016 (alls 87 fjórðungar) var meðaltal liðarins S&V; -4,6 ma.kr. en staðalfrávik meðaltalsins var 13,6 ma.kr. Þessar tölur benda ekki til þess að þessi skekkja sé kerfisbundin.

Af reynslu má ætla að meginhluti skekkja sé tilkominn vegna mælivanda, þ.e. að ekki fást réttar upplýsingar um tímasetningu viðskipta og rétt virði þeirra, ellegar að upplýsingar liggja fyrir um annan legg viðskipta, t.d. kaup á vöru en minni eða engar um hinn, þ.e. greiðsluna. Það spilar einnig inn í að nokkur fjöldi alþjóðlegra félaga sem eiga viðskipti hér á landi hefur mjög flókin eignatengsl. Oft á tíðum taka félögin breytingum og stundum er óvíst hvort þeir aðilar hér á landi sem sinna skýrslugjöf til Seðlabankans hafa allar upplýsingar um fyrirkomulag og uppbyggingu félaganna. Einnig má benda á að í sumum tilfellum hefur Seðlabankinn einungis upplýsingar um stöðustærðir fjármálalegra eigna eða skulda en ekki um virði fjármagnsviðskipta með viðkomandi gerninga. Aðferðir við að áætla viðskipti í slíkum tilfellum styðjast við meðaltöl gengis og/eða verðs sem getur valdið ónákvæmri niðurstöðu, sérstaklega þegar mikið flökt er á gengi gjaldmiðilsins og þegar bankakreppur með falli alþjóðlegra banka og eignarhaldsfélaga eiga sér stað. Ítarlega er fjallað um liðinn S&V; í greiðslujöfnuði í nýrri ritgerð eftir Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóra gagnasöfnunar og upplýsingavinnslu hjá Seðlabanka Íslands, og bent á mögulegar leiðir til að minnka þennan lið (ritgerðina má finna á heimasíðu Seðlabankans).

Það er rétt sem fram kemur í skýrslunni „Eignir Íslendinga á aflandssvæðum“ að skekkjur og vantalið hér á landi hafa verið mun meiri en í öðrum löndum, enda eiga aðstæður hér á landi í kjölfar hruns bankanna árið 2008 sér vart hliðstæðu í viðskiptasögu samtímans. Erlendar eignir og skuldir þjóðarbúsins námu margfaldri landsframleiðslu fyrir fjármálahrunið og fjöldi fyrirtækja fór í þrot. Ef liðurinn skekkjur og vantalið er skoðaður sem hlutfall af erlendum skuldum sker tímabilið í kringum fjármálahrunið sig ekkert sérstaklega úr miðað við önnur tímabil. Upplýsingar úr þrotabúum til opinberrar hagskýrslugerðar voru nær ófáanlegar á árunum eftir fjármálahrunið og mátti því búast við verulegum skekkjum þess vegna. Skekkjurnar voru hins vegar stórar miðað við landsframleiðslu vegna þess hve slitabú hinna föllnu banka voru umfangsmikil. Þá má nefna að alþjóðlegur samanburður á skekkjum og vantöldu er erfiður sakir mismunandi aðferða við að meðhöndla þennan lið. Eins og fram kemur í ofangreindri ritgerð tíðkast sums staðar að „lagfæra“ greiðslujafnaðaruppgjör í því skyni að minnka skekkjur og vantalið. Ýmsum aðferðum er beitt, t.d. að lækka alla liði hlutfallslega jafnt eða að lagfæra þá liði sem líklegast er talið að séu rangir. Slíkum aðferðum hefur ekki verið beitt hérlendis.

Höfundar eru starfsmenn Seðlabanka Íslands. Umfjöllun í þessari grein byggist á þeim reglum sem gilda um færslu greiðslujafnaðar hjá Seðlabanka Íslands. Ef einhvers staðar eru atriði sem teljast túlkunaratriði er túlkunin á ábyrgð höfunda en ekki Seðlabanka Íslands

Til baka