logo-for-printing

02. júní 2023

Gjaldeyrismarkaður á Íslandi

Seðlar

Mikilvægi gjaldeyrismarkaða og gengi gjaldmiðla verður seint of mikils metið. Gjaldeyrismarkaðir hafa það hlutverk að mynda verð á ólíkum gjaldmiðlum með tilliti til hver annars og auðvelda miðlun gjaldeyris milli þeirra sem vilja kaupa og selja – og greiða þannig götu milliríkjaviðskipta með vörur, þjónustu og fjármagn um allan heim. Á Íslandi fara fram skipti á íslenskum krónum fyrir erlendan gjaldeyri, en ekki er þó öllum ljóst hvernig innlendur gjaldeyrismarkaður virkar í reynd og hvernig gengi krónunnar er ákvarðað. Í þessari grein er grundvallaratriðum í umgjörð gjaldeyrisviðskipta hér á landi lýst.

Íslenska krónan er fljótandi gjaldmiðill. Í því felst að gengi hennar gagnvart öðrum gjaldmiðlum ræðst í viðskiptum á innlendum gjaldeyrismarkaði, í stað einhliða ákvörðunar stjórnvalda. Þegar rætt er um gjaldeyrismarkað er þó ekki átt við einn miðlægan markað. Gjaldeyrisviðskipti fara ekki öll fram á einum vettvangi þar sem þau eru jafnframt skráð, líkt og í kauphöll. Þess í stað vísar hugtakið til dreifðs en samtengds kerfis þar sem fjármálastofnanir – einkum stórir viðskiptabankar – miðla gjaldeyri milli þeirra sem vilja kaupa og selja gjaldeyri.

Í grófum dráttum eiga gjaldeyrisviðskipti á Íslandi sér stað annars vegar innan hvers banka og hins vegar milli stóru bankanna á svokölluðum millibankamarkaði með gjaldeyri. Hver banki stundar gjaldeyrisviðskipti við viðskiptavini sína og miðlar gjaldeyri milli þeirra, en ef þau viðskipti skila afgangi eða skorti á gjaldeyri á banki þess kost að leita út á millibankamarkaðinn. Gengi krónunnar ræðst af framboði og eftirspurn eftir gjaldeyri á millibankamarkaði, sem aftur á móti endurspeglar undirliggjandi gjaldeyrisflæði í bankakerfinu.

Viðskipti milli banka og viðskiptavina

Ísland er lítið og opið hagkerfi með eigin mynt, útflutningsdrifið en mjög háð innflutningi á ýmsum neysluvörum og framleiðsluaðföngum.Utanríkisviðskipti skipa því stóran sess í hagkerfinu, en einnig skipta fjármagnsviðskipti töluverðu máli fyrir þjóðarbúið. Á hverjum tíma streymir því gjaldeyrir til og frá landinu vegna utanríkisviðskipta og fjármagnshreyfinga, en flæðið er verulega háð efnahagslegum skilyrðum í innra og ytra umhverfi þjóðarbúsins.

Stór hluti gjaldeyrisviðskipta á Íslandi er í dag gerður upp innan bankakerfisins. Hver banki starfrækir eigið gjaldeyrisviðskiptakerfi – eins konar innri markað með gjaldeyri – og tekur við pöntunum um kaup og sölu á gjaldeyri fyrir íslenskar krónur frá viðskiptavinum í gegnum síma, netbanka eða bankaútibú og miðlar honum á milli þeirra. Bankarnir koma þannig fram sem milliliðir og mótaðilar í gjaldeyrisviðskiptum gagnvart viðskiptavinum sínum. Geta bankanna til að stunda umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti felst í því að þeir búa yfir stórum efnahagsreikningum og fjölbreyttum hópi viðskiptavina.

Viðskiptavinir bankanna á gjaldeyrismarkaði eru þversnið af íslensku efnahagslífi og líklega er enginn markaður á Íslandi jafn fjölbreyttur og gjaldeyrismarkaðurinn. Þar koma saman fyrirtæki í innflutningi og útflutningi, fjármálafyrirtæki önnur en bankar (t.d. lífeyrissjóðir, tryggingafélög og verðbréfasjóðir), ríkissjóður2, sveitarfélög, stofnanir, almenningur og spákaupmenn. Innlendir jafnt sem erlendir aðilar eru meðal viðskiptavina bankanna. Stærsti hluti þeirra á í viðskiptum með gjaldeyri til að sinna hefðbundnum rekstri, en einnig eru gjaldeyrisviðskipti nýtt til þess að verja vaxta- og gengisáhættu og í hagnaðarskyni með stöðutökum.3 Í innlendum bönkum er hægt að eiga í viðskiptum með helstu gjaldmiðlana, en þó er mest velta með evrur og bandaríkjadali.

Þátttakendum á gjaldeyrismarkaði má skipta í tvo hópa: framboðshlið og eftirspurnarhlið. Framboð eða innflæði á gjaldeyri verður til vegna tekna í tengslum við útflutning á vöru og þjónustu, þáttatekna erlendis frá í formi launa, vaxta og arðs, og sölu á innlendum eignum (t.d. skráðu og óskráðu hlutafé og innviðum) til erlendra aðila. Þá er gjaldeyrir seldur til banka og krónur keyptar í staðinn. Til dæmis fá útflytjendur á borð við fyrirtæki í sjávarútvegi og ferðaþjónustu tekjur í erlendri mynt en eru með kostnað á borð við laun og skatta í krónum, auk annarra fjárútláta í tengslum við arðgreiðslur og innlendar fjárfestingar.4 Erlend lán sem tekin eru vegna framkvæmda eða neyslu hér á landi þarf að skipta yfir í krónur. Þá þurfa erlendir fjárfestar að selja gjaldeyri og kaupa krónur til þess að geta keypt innlendar eignir.

Eftirspurn eftir gjaldeyri eða útflæði myndast vegna gjalda í tengslum við innflutning á vöru og þjónustu, greiðslna til útlanda vegna þáttatekna, og kaupa innlendra aðila á erlendum eignum. Þá er gjaldeyrir keyptur af banka og krónur seldar. Til dæmis fá innflutningsfyrirtæki á borð við olíufélög og verslunarfyrirtæki tekjur í krónum en þurfa erlendan gjaldeyri til að greiða fyrir vörukaup. Til þess að greiða vexti og afborganir á erlendum lánum þarf að kaupa gjaldeyri fyrir krónur. Innlendir lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir selja einnig krónur og kaupa gjaldeyri til þess að ráðstafa innlendum sparnaði á erlendum verðbréfamörkuðum, og erlendir fjárfestar þurfa að gera hið sama þegar þeir fara með fjármagn úr landi. Þá hefur almenningur aðgang að gjaldeyrismörkuðum allan sólarhringinn í gegnum greiðslukort, til að mynda vegna netverslunar eða utanlandsferða.

Gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta er kerfisbundið og að einhverju leyti fyrirsjáanlegt, en flæði vegna fjármagnshreyfinga er aftur á móti kvikt og lítt fyrirsjáanlegt. Viðskiptavinir bankanna eru því ólíkir og hafa mismunandi væntingar og þarfir í gjaldeyrisviðskiptum, til að mynda varðandi verð, magn og tímasetningu viðskipta. Gjaldeyrismiðlun bankanna leiðir saman þessa ólíku hagsmuni, en banka er umbunað fyrir að veita seljanleika5 í gjaldeyrisviðskiptum í formi verðbils á milli kaup- og sölutilboða (þar sem kauptilboð eru lægri en sölutilboð) og þóknanatekna.

Gjaldeyrisjöfnuður

Bankarnir stunda gjaldeyrisviðskipti annars vegar fyrir hönd viðskiptavina og hins vegar fyrir eigin reikning til að mæta viðskipta- og fjárfestingaþörfum. Öll gjaldeyrisviðskipti bankanna endurspeglast í svokölluðum gjaldeyrisjöfnuði þeirra. Gjaldeyrisjöfnuður er mismunur gengisbundinna eigna og skulda fjármálastofnunar, eins konar birgðastaða með erlendan gjaldeyri. Jöfnuðurinn er jákvæður ef gengisbundnar eignir eru meiri en skuldir en neikvæður ef gengisbundnar skuldir eru meiri en erlendar eignir.6 Jöfnuðurinn er sífellt á hreyfingu vegna gjaldeyrisviðskipta og breytinga á gengi íslensku krónunnar, en jöfnuðurinn er gerður upp í íslenskum krónum.

Ef viðskiptabanki vill halda gjaldeyrisjöfnuði í jafnvægi og minnka áhættu af gengisbreytingum leitast hann við að losa sig við uppsafnaða gjaldeyrisstöðu jafnt og þétt fyrir lok hvers viðskiptadags. Bankinn getur reynt að finna viðskiptavini sem hafa áhuga á að kaupa stöðuna en ef það gengur ekki eftir getur hann losað stöðuna að hluta eða að fullu á millibankamarkaði. Reglur um gjaldeyrisjöfnuð setja skorður á hversu jákvæð eða neikvæð gjaldeyrisstaða bankanna getur orðið.7

Millibankamarkaður með gjaldeyri

Viðskiptabankarnir eiga í samkeppni sín á milli um viðskipti einstaklinga, fyrirtækja og fjárfesta á fjármagnsmarkaði. Samsetning viðskiptavina þeirra er mismunandi og er gjaldeyrisflæði viðskiptabankanna fjarri því að vera einsleitt, en þegar innstreymi og útstreymi gjaldeyris fer ekki saman á banki þess kost að leita út á millibankamarkað til að rétta sig af eða uppfylla viðskiptapöntun.

Millibankamarkaður með gjaldeyri er lokaður markaður. Aðilar að honum eru í dag stóru viðskiptabankarnir þrír – Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn – sem jafnframt eru viðskiptavakar. Viðskiptavakt á markaðinum felur í sér skuldbindingu til þess að halda stöðugt úti leiðbeinandi kaup- og sölutilboðum í evru gagnvart íslensku krónunni fyrir tiltekna viðmiðunarfjárhæð sem markaðurinn kemur sér saman um, sem á undanförnum árum hefur verið ein milljón evra. Bankarnir verða því alltaf að vera tilbúnir að eiga í viðskiptum hver við annan, sé eftir því óskað, óháð ástandi í efnahagsmálum og hvort sem þeir tapa á því eða hagnast. Tilboðin birtast í viðurkenndu viðskiptakerfi, sem í dag er Bloomberg, og fara viðskipti milli viðskiptavakanna jafnframt fram í því kerfi.

Viðskipti á millibankamarkaði endurspegla að mestu leyti afgang eða skort á gjaldeyri í viðskiptum bankanna við viðskiptavini sína. Millibankamarkaðurinn er því eins konar afgangsstærð fyrir gjaldeyrisflæði. Ef margir vilja selja viðskiptabanka gjaldeyri en fáir vilja kaupa, þá er framboð á gjaldeyri umfram eftirspurn. Viðskiptabankinn getur þá brugðist við með því að selja gjaldeyri fyrir krónur á millibankamarkaðinum. Ef margir vilja kaupa gjaldeyri í viðskiptabanka en fáir vilja selja, þá er eftirspurn eftir gjaldeyri umfram framboð. Viðskiptabankinn getur þá keypt gjaldeyri fyrir krónur af öðrum banka á millibankamarkaðinum. Ef jafnvægi er í gjaldeyrisflæði innan bankanna hafa þeir litla þörf á að nota millibankamarkaðinn og gengið ætti að vera stöðugt. Ekki er þó hægt að tala um hreint samband á milli viðskipta við viðskiptavini og viðskipta á millibankamarkaði. Ástæðan er sú að banki getur einnig átt viðskipti á millibankamarkaði fyrir eigin reikning.

 
 

 

Millibankamarkaðurinn er opinn frá kl. 9:15 til 16:00 hvern viðskiptadag. Millibankamarkaður með gjaldeyri lýtur reglum Seðlabankans um gjaldeyrismarkað nr. 600/2020. Reglurnar kveða á um skilyrði fyrir aðild að markaðinum, skyldur viðskiptavaka, tíðni verðtilboða og viðskipta, lágmarksfjárhæð viðskipta, upplýsingaskyldur, siðareglur og fleira.

Verðmyndun á gengi krónunnar

Gjaldeyrisviðskipti fara fram milli banka og viðskiptavina þeirra, en gengi krónunnar ákvarðast í viðskiptum á millibankamarkaði með gjaldeyri. Markaðurinn er því verðmyndunartæki fyrir gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Algengast er að viðskipti á millibankamarkaði fari þannig fram að viðskiptavaki eigi viðskipti við hina viðskiptavakana og biðji þá um verðtilboð í eina milljón evra. Sé tilboðum tekið og viðskiptavaki kaupir evrur fyrir krónur hækka viðskiptavakarnir allir verðtilboð sín í kjölfarið. Verð á evru gagnvart krónu hækkar og það þarf fleiri krónur en áður til að kaupa eina evru. Öfugt ferli á við þegar viðskiptavaki selur evrur fyrir krónur. Verð á evru gagnvart krónu lækkar og færri krónur þarf en áður til að kaupa eina evru. Viðskiptavakar geta einnig breytt viðmiðunarverði án þess að viðskipti eigi sér stað, til að mynda vegna nýrra upplýsinga sem breyta efnahagslegum grunnþáttum.

Hve mikil breyting verður á verðtilboðum viðskiptavakanna í kjölfar viðskipta er háð markaðsaðstæðum hverju sinni. Munur á kaup- og sölutilboðum á millibankamarkaði hefur á undanförnum árum verið 20 aurar og hefur það jafnframt verið venja viðskiptavakanna að hliðra tilboðum sínum um það gengisbil í kjölfar viðskipta. Gengisbilið á millibankamarkaði myndar síðan grunn undir gengisbil í viðskiptum banka við viðskiptavini sína. Engin skilyrði eru í reglum millibankamarkaðarins um hámarks bil á milli kaup- og sölutilboða.

Til að einfalda framkvæmd viðskipta og verðlagningu krónunnar fara viðskipti á millibankamarkaði eingöngu fram í evrum og krónum. Verðlagning krónunnar gagnvart öðrum erlendum gjaldmiðlum leiðir því af gengi evru á hverjum tíma. Við ákvörðun á gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðli þarf annars vegar gengi þess gjaldmiðils gagnvart evru og hins vegar gengi krónu gagnvart evru.8 Þar sem evran hefur mikið vægi í utanríkisviðskiptum Íslands og þar af leiðandi einnig í opinberri gengisvísitölu Seðlabankans hefur verðhækkun á evrunni, mælt í íslenskum krónum, áhrif til hækkunar á gengisvísitölunni og þar af leiðandi veikingar krónunnar.9 Lækki verð á evrunni leiðir það til lækkunar á gengisvísitölunni og styrkingar krónunnar. Þróun gengisvísitölunnar ræðst þó einnig af innbyrðis hreyfingum þeirra gjaldmiðla sem eru í vísitölunni hverju sinni.10

Spíralmyndun

Íslenskt hagkerfi er minna en flest önnur og er innlendur gjaldeyrismarkaður því örsmár í alþjóðlegum samanburði. Þátttakendur eru færri og velta umtalsvert minni. Af þessum sökum er seljanleiki íslensku krónunnar takmarkaður. Það þýðir að aðilar sem vilja eiga viðskipti með háar fjárhæðir þurfa að gera ráð fyrir að gengi krónunnar geti hækkað eða lækkað vegna viðskiptanna og að hugsanlega sé ekki hægt að eiga í viðskiptunum í einu lagi. Fáir aðilar geta jafnframt haft mikil áhrif á verðmyndun og lítið magn viðskipta komið af stað miklu róti sem síður yrði á dýpri markaði með fleiri þátttakendum og meiri veltu. Gengishreyfingar geta því verið ýktar og í litlu samræmi við undirliggjandi efnahagslegar forsendur; þá er talað um tímabundið yfir- eða undirskot sem gjarnan gengur síðan til baka eða leiðréttist.

Millibankamarkaði með virkri viðskiptavakt er ætlað að koma til móts við takmarkaðan seljanleika íslensku krónunnar, svo viðskiptakostnaður sé sem minnstur og íslenska krónan haldi stöðu sinni sem gjaldmiðill landsins. Viðskiptavakakerfið á millibankamarkaði tryggir að alltaf er til mótaðili sem tekur við þegar viðskiptaþörf skapast og að verðlagning á krónunni gagnvart erlendum gjaldmiðlum sé virk, sýnileg og samfelld.

Þrátt fyrir að viðskiptavakt á millibankamarkaði henti vel því umhverfi sem Íslendingar búa við er markaðurinn ekki laus við markaðsbresti sökum smæðar. Dæmi um slíkt er svokölluð spíralmyndun. Spírall myndast þegar tiltölulega lítið gjaldeyrisflæði kemur af stað hraðri og ýktri breytingu á gengi gjaldmiðils til lækkunar eða hækkunar. Neikvæður spírall getur orðið til ef skortur er á erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisjöfnuður viðskiptavakanna er neikvæður; þegar einn viðskiptavakanna kaupir gjaldeyri gera hinir hið sama til að færa gjaldeyrisjöfnuðinn nær jafnvægi og svo koll af kolli. Veltan eykst en uppistaðan í veltunni eru sömu evrurnar sem skipta hratt um hendur á sífellt hærra verði. Jákvæður spírall er öfugt ferli sem getur átt sér stað þegar ofgnótt er á gjaldeyri og gjaldeyrisjöfnuður viðskiptavakanna er jákvæður; þá fer sami gjaldeyrinn sem einn viðskiptavaki fær til sín milli vakanna á sífellt lægra verði, eins og heit kartafla sem þeir vilja losna við. Spíralmyndun getur stöðvast með tvennum hætti: annars vegar getur komið fjármagn inn á markaðinn frá aðila sem sér kaup- eða sölutækifæri í hærra eða lægra gengi og hins vegar getur Seðlabankinn gripið inn í atburðarás á gjaldeyrismarkaði með kaupum eða sölu á gjaldeyri.

Hlutverk Seðlabankans

Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þar sem Ísland er lítið og opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil hafa breytingar á gengi krónunnar mikil áhrif á innlenda verðlagsþróun, fjármálakerfið og efnahagsstarfsemi almennt. Gengisþróun krónunnar hefur þar af leiðandi áhrif á það hversu vel Seðlabankanum tekst til við að uppfylla lögbundin markmið sín. Gjaldeyrisviðskipti teljast því til stjórntækja Seðlabankans og stundar bankinn þau telji hann það nauðsynlegt til að stuðla að markmiðum sínum. Seðlabanki Íslands er aðili að millibankamarkaði með gjaldeyri, en virkur millibankamarkaður er forsenda fyrir því að Seðlabankinn geti beitt markaðsaðgerðum til þess að hafa áhrif á gengi krónunnar. Bankinn er ekki viðskiptavaki, heldur sinnir hann eftirlitshlutverki, setur reglur á markaðinum og á viðskipti ef honum þykir þörf á. Seðlabankinn varðveitir gjaldeyrisforða og notar hann til að grípa inn í gang gjaldeyrismála með kaupum og sölu á gjaldeyri fyrir krónur. Gengisstefna Seðlabankans skiptist í tvo meginhluta: annars vegar ríkjandi stefnu um að draga úr óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónunnar eða spíralmyndun með svokölluðum inngripum á gjaldeyrismarkaði og hins vegar aðgerðir sem ráðist er í stöku sinnum til þess að koma í veg fyrir að gengi krónunnar víki verulega frá eðlilegu jafnvægi, til að mynda vegna mikils fjármagnsinnstreymis eða -útstreymis. Gengisstefnu bankans mætti því lýsa sem stýrðu floti, þar sem gengi krónunnar flýtur í frjálsum viðskiptum við flest skilyrði.

Samantekt

Gjaldeyrisviðskipti á Íslandi skiptast annars vegar niður á viðskipti milli banka og viðskiptavina þeirra og hins vegar milli stórra viðskiptabanka á millibankamarkaði með gjaldeyri. Flest gjaldeyrisviðskipti eru gerð upp innan bankanna án þess að millibankamarkaður komi við sögu, en viðskipti á þeim markaði endurspegla fyrst og fremst afgang eða skort á gjaldeyri í gjaldeyrismiðlun bankanna. Gengi íslensku krónunnar ræðst af framboði og eftirspurn eftir gjaldeyri á millibankamarkaðinum og endurspeglar því gjaldeyrisflæði inn og út úr hagkerfinu. Íslenski gjaldeyrismarkaðurinn er ákaflega smár í alþjóðlegum samanburði og seljanleiki krónunnar takmarkaður. Það er því afar mikilvægt fyrir innlent efnahagslíf að gjaldeyrismarkaðurinn sé nægilega skilvirkur. Til þess að tryggja samfelld viðskipti með krónuna og söluhæfi hennar gagnvart erlendum gjaldmiðlum eru gjaldeyrisviðskipti studd með viðskiptavakafyrirkomulagi á millibankamarkaði með gjaldeyri. Seðlabanki Íslands er aðili að millibankamarkaðinum, en bankinn hefur eftirlit með honum, varðveitir gjaldeyrisforða og beitir inngripum til þess að stuðla að markmiðum sínum um stöðugt verðlag og fjármálastöðugleika.

Höfundar: Jakob Hansen og Snorri Páll Gunnarsson, gjaldeyrismiðlarar í markaðsviðskiptum Seðlabanka Íslands.

Neðanmáls

  1. Á undanförnum fimm árum hafa heildarutanríkisviðskipti Íslands (samanlagður inn- og útflutningur vöru og þjónustu) numið að meðaltali 82% af vergri landsframleiðslu.
  2. Gjaldeyrisviðskipti ríkissjóðs – svo sem vegna afborgana og vaxta af erlendum lánum, útgjalda og annarra alþjóðlegra skuldbindinga – fara í gegnum Seðlabankann en ekki í gegnum viðskiptabankana. Að jafnaði hafa gjaldeyrisviðskipti ríkissjóðs því ekki bein áhrif á gengisþróun krónunnar.
  3. Afleiður (e. derivatives), einkum framvirkir samningar (e. forwards), eru gjarnan notaðar til áhættuvarna og spákaupmennsku með gjaldeyri. Opnað var á auknar heimildir til afleiðuviðskipta með íslensku krónuna í júní 2021 með nýjum lögum um gjaldeyrismál nr. 70/2021, en reglur um afleiðuviðskipti viðskiptabanka nr. 412/2022 setja afleiðuviðskiptum með íslensku krónuna mörk. Fyrir þann tíma, frá fjármálaáfallinu 2008, var notkun afleiða í stöðutöku óheimil, en leyfileg í áhættuvörnum.
  4. Stór útflutningsfyrirtæki eiga oft gjaldeyrisreikninga erlendis og fá útflutningstekjur inn á þá eða nota þá til að greiða fyrir erlend aðföng. Það er á þeirra valdi hvenær þeir færa þá fjármuni til Íslands eða skipta þeim yfir í krónur. Hluti gjaldeyrisviðskipta stórra íslenskra fyrirtækja kann því að nettast í erlendum bönkum.
  5. Seljanleiki (e. liquidity) vísar til þess hversu fljótlegt og auðvelt er fyrir aðila að eiga í viðskiptum á núverandi markaðsverði. Seljanleiki samanstendur af breidd (e. breadth) og dýpt (e. depth). Breidd vísar til fjölda aðila á markaði á meðan dýpt lýsir getu markaðarins til þess að höndla stórar pantanir án þess að hreyfa mikið við verði. Aukin breidd og dýpt leiða til aukins seljanleika.
  6. Ef banki er með jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð er hann sagður „langur“ í gjaldeyri eða með „gnóttstöðu“. Ef banki er með neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð er hann sagður „stuttur“ í gjaldeyri eða með „skortstöðu“.
  7. Tvær reglugerðir Seðlabankans eru í gildi sem takmarka gjaldeyrisstöðu bankanna og þá áhættu sem hlýst af gengissveiflum: reglur um gjaldeyrisjöfnuð nr. 784/2018 og reglur um afleiðuviðskipti viðskiptabanka nr. 412/2022 þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðlum.
  8. Gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum – svokallað krossgengi (e. cross rate) – er fundið út samkvæmt formúlunni A/C=(A/B)/(C/B)=A/B×B/C, þar sem A er erlendur gjaldmiðill (t.d. bandaríkjadalur, USD), B er svokölluð grunnmynt (t.d. evra, EUR) og C er heimamynt (íslenska krónan, ISK). Þannig er hægt að reikna út gengi tveggja gjaldmiðla út frá gengi þeirra gagnvart tiltekinni grunnmynt.
  9. Gengisvísitalan mælir gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er því margföldunarandhverfa gengisvísitölunnar: Gengi íslensku krónunnar=1/Gengisvísitala. Hækkun vísitölunnar táknar því lækkun á gengi krónunnar (veikingu) og lækkun vísitölunnar táknar hækkun (styrkingu). Vísitalan er vegið faldmeðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu, en gengi erlendu gjaldmiðlanna er vegið saman eftir samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar. Gjaldmiðlavogirnar eru endurskoðaðar árlega í ljósi samsetningar utanríkisviðskipta árið áður. Nánari upplýsingar um gengisvísitölu Seðlabankans er að finna á heimasíðu Seðlabankans
  10. Hvern viðskiptadag skráir Seðlabankinn gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Skráningin er augnabliksmynd af markaðinum á þeim tíma sem gengið er skráð. Opinber gengisskráning Seðlabankans er ætluð til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Nánari upplýsingar um skráningu á opinberu gengi íslensku krónunnar er að finna á heimasíðu Seðlabankans.
Til baka