logo-for-printing

18. janúar 2023

Af hverju hefur Seðlabankinn verið að hækka vexti?

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði vexti enn frekar um miðjan nóvember sl., þá um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans fóru við það í 6% en þeir voru 2% í fyrir einu ári síðan.

Fólk spyr sig, eðlilega, hvers vegna vextir hafa verið hækkaðir svona mikið. Hærri vextir valda því jú að hluti heimila og fyrirtækja þarf að greiða meira í hverjum mánuði í afborganir af lánum sínum. Það getur komið sér illa fyrir marga.

Á sama tíma kostar sífellt meira að kaupa í matinn, sækja sér þjónustu eða fylla á bílinn, vegna verðbólgunnar. Er þá ekki í raun verið að hella olíu á eldinn með hækkun vaxta?

Mörgum finnst einnig erfitt að skilja hvers vegna vextir hafa hækkað meira hér á landi en í flestum öðrum Evrópuríkjum þótt verðbólga sé svipuð eða jafnvel minni hér á landi.

Í þessari grein er reynt að svara þessum spurningum og útskýra hvernig hærri vextir leiða til minni verðbólgu.

Í stuttu máli sagt er verið að hækka vexti til að kæla hagkerfið niður og draga þannig úr verðhækkunum þar sem verðbólga er langt umfram 2½% markmið Seðlabankans. Það er lögbundið hlutverk bankans að stuðla að stöðugu verðlagi. Þótt rekja megi aukna verðbólgu að hluta til alþjóðlegrar þróunar er verulegur hluti hennar af innlendum toga enda hefur eftirspurn aukist gríðarlega og hagkerfið „hitnað“ mikið. Ef íslenska hagkerfið væri bíll er það að keyra vel umfram skynsamlegan hámarkshraða. Við þurfum að hægja á svo við missum ekki stjórn á bílnum.

Meiri vaxtahækkanir hér á landi endurspegla að miklu leyti kraftmeiri efnahagsumsvif og betri efnahagshorfur en í öðrum Evrópuríkjum. Undirliggjandi verðbólguþrýstingur hefur verið meiri hér á landi og verðbólguhorfur verri. Margir búast einnig við að verðbólga á Íslandi verði umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans í langan tíma til viðbótar. Allt þetta eykur hættuna á því að mikil verðbólga festist í sessi hér á landi og það kallar á meiri viðbrögð Seðlabankans.

Það er rétt að hækkun vaxta eykur kostnað margra heimila og fyrirtækja til skamms tíma litið. Kostnaðurinn yrði hins vegar mun meiri til lengri tíma litið ef ekki yrði brugðist við og verðbólgunni leyft að festa rætur, einkum fyrir lágtekjuhópa.

Líkja mætti verðbólgunni við bakteríusýkingu: Hún mallar undir niðri, veldur óþægindum og slappleika. Ef hún er ekki meðhöndluð rétt strax í upphafi þá grasserar hún og veldur alvarlegri veikindum og sársauka síðar meir. Þess vegna er mikilvægt að bregðast fljótt og ákveðið við til að koma í veg fyrir að skaðvaldurinn festi rætur og koma í veg fyrir að taka þurfi stærri skammt af bragðvondu meðali síðar meir og yfir lengra tímabil til að losna við hann. Verðbólgan er hinn raunverulegi skaðvaldur lífskjara.

 

Seðlabanki Íslands á að sjá til þess að verðlag á Íslandi sé stöðugt

Lögbundið hlutverk Seðlabankans er sem fyrr segir að sjá til þess að verðlag á Íslandi sé stöðugt og hækki ekki of mikið yfir tíma. Markmið bankans er að verðbólga sé sem næst 2½%.

Alveg eins og hjá öðrum þróuðum ríkjum heims er helsta tæki Seðlabankans til að ná þessu markmiði svokallað „vaxtatæki“, þ.e. ákvörðun vaxta í viðskiptum við lánastofnanir (sjá nánar hér á eftir og hvernig hærri vextir draga úr verðbólgu).

 

Verðlag á Íslandi hefur hækkað mikið að undanförnu og vel umfram markmið Seðlabankans

Verðlag á Íslandi hefur hækkað mun meira að undanförnu en sem nemur 2½% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í desember mældist 9,6% verðbólga (mynd 1). Það þýðir að neyslukarfa Íslendinga var 9,6% dýrari í desember 2022 en í sama mánuði árið áður. Fólk fær því minna fyrir launin sín sem því nemur.

 

 

Eins og oft hefur verið bent á í opinberri umræðu þá vegur hækkun húsnæðisverðs og verðhækkun á innfluttum vörum og þjónustu þungt í verðbólguþróun undanfarið.

Flestir aðrir kostnaðarliðir hafa þó einnig hækkað mikið í verði og margir vel umfram markmið bankans (mynd 2). Á það m.a. við um:

  • innlenda þjónustu: það kostar t.d. hátt í 10% meira að kaupa sér skyndibita eða fara á veitingahús en fyrir einu ári síðan. Þá kostar 8,7% meira að fara í klippingu. Það þarf því að borga um 6500 kr. fyrir klippingu í dag sem kostaði 6000 kr. í fyrra.
  • vörur sem framleiddar eru á Íslandi (einkum þá matvörur): smjör hækkaði t.d. um 14,3% á sl. ári og brauð um 9%. Þá kostar fiskur nú 11% meira og lambakjöt er 19% dýrara. Lambakjöt sem kostaði 3.000 kr. í fyrra kostar því nú um 3.600 kr.
  •  

Það er því fjarri lagi að eingöngu megi rekja aukna verðbólgu á Íslandi til nokkurra kostnaðarliða. Verðbólguþrýstingurinn er almennur. Endurspeglast það í því að um 65% af neyslukörfu heimila hefur hækkað um meira en 6% á síðastliðnu ári (mynd 3).

 

 

Hagkerfið hefur hitnað og verðbólguþrýstingur er mikill

Alþjóðlegir atburðir hafa auðvitað haft áhrif á þróun verðbólgunnar á Íslandi undanfarin misseri, einkum þá afleiðingar COVID-heimsfaraldursins og stríðsátakanna í Úkraínu.

Verulegan hluta verðbólgunnar hér á landi má þó rekja til innlendra efnahagsþátta. Eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur þannig aukist mikið og meira en framboð á vöru og þjónustu. M.ö.o. eru landsmenn í sífellt meira mæli að keppast um að kaupa sömu vörur og þjónustu.

Íslenska hagkerfið hefur „hitnað“ sem eykur þrýsting á hækkun verðlags. Þetta birtist m.a. í því að:

  • Íslendingar hafa aukið kaup sín á vöru og þjónustu umtalsvert.
  • Útlán til heimila hafa aukist verulega.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað mikið og laun hækkað verulega.
  • Töluvert af lausum störfum er í boði og eiga fyrirtæki erfitt með að manna þau. Fyrirtæki þurfa því líklega að hækka laun enn frekar til að gera störf hjá sér meira aðlaðandi.
  • Fyrirtæki eiga því sífellt erfiðara með að auka framleiðslu sína. Sjaldan (eða aldrei) hafa jafn mörg fyrirtæki sagst starfa við eða umfram hámarksframleiðslugetu.
  • Fyrirtæki og almenningur búast einnig áfram við að verðbólga verði mikil á næstu misserum.

 

Seðlabankinn þarf að bregðast við með hækkun vaxta til að kæla hagkerfið niður og draga úr verðhækkunum

Samkvæmt ofangreindu er ljóst að verðbólguþrýstingur á Íslandi er allt of mikill um þessar mundir og má rekja hann að stórum hluta til aukinnar eftirspurnar íslenskra heimila og fyrirtækja. Verðbólgan er einnig á „breiðum grunni“, þ.e. meirihluti þeirrar vöru og þjónustu sem íslensk heimili kaupa hefur hækkað mun meira en sem nemur 2½% markmiði Seðlabankans.

Seðlabankinn þarf því að bregðast við til að draga úr eftirspurn, kæla hagkerfið niður og hægja þannig á verðhækkunum svo mikil verðbólga vari ekki of lengi. Það gerir hann með vaxtahækkunum.

 

Hvernig leiða hærri vextir til minni verðhækkana?

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákveður vexti bankans. Ef nefndin hækkar vexti hefur það áhrif á aðra vexti á Íslandi. Bankar og lífeyrissjóðir hækka yfirleitt sína vexti í takt við vaxtahækkun bankans.

Hærri vextir þýða að peningar verða dýrari. Það hvetur fólk og fyrirtæki til að spara meira, kaupa minna og taka minna af lánum. Hærri vextir valda því einnig að afborganir af lánum margra hækka sem þýðir að hluti fyrirtækja og fólks á minna eftir af tekjum sínum í hverjum mánuði til að nota í neyslu.1 Þannig draga hærri vextir úr eftirspurn eftir vöru og þjónustu (mynd 4).

Þegar eftirspurn eftir vöru og þjónustu minnkar skapast síður hvati fyrir verslanir og aðra þjónustuaðila til að hækka verð. Fyrirtæki sem á í erfiðleikum með að selja vörur sínar er ólíklegra til að hækka verð. Minni neysla og aukinn sparnaður leiðir því til minni verðbólgu.

Hærri vextir og minni eftirspurn draga einnig úr vilja fyrirtækja til að fjárfesta og vilja þeirra til að ráða fólk til starfa. Það veldur því að eftirspurn eftir vöru og þjónustu minnkar enn frekar og þrýstingur til verðhækkana sömuleiðis.

Tekjur byggingafyrirtækja verða til dæmis minni ef innlend fjárfesting dregst saman. Þau þurfa þá heldur ekki jafn marga starfsmenn og áður. Það veldur minni sölu hjá öðrum íslenskum fyrirtækjum sem byggingafyrirtækin versla jafnan við og starfsmenn sem ekki fá jafn mikla vinnu og áður geta ekki keypt jafn mikið og þeir gerðu. Allt þetta dregur enn frekar úr eftirspurn og verðbólguþrýstingi.

Áhrif vaxtahækkana Seðlabankans breiðast þannig út um allt hagkerfið og magnast líkt og snjóbolti sem rúllar niður hlíð. Þess vegna tekur tíma fyrir vaxtahækkanir að virka almennilega á eftirspurn og verðbólgu.

Þá leiðir hækkun seðlabankavaxta einnig að öðru óbreyttu til hærra gengis krónunnar sem gerir innflutning á erlendum vörum ódýrari. Verð á innfluttum vörum hefur áhrif á verðlag á Íslandi og þar með verðbólgu.

 

Hækkun vaxta hefur einnig áhrif á væntingar um framtíðarþróun verðbólgu

Vaxtahækkun Seðlabankans eykur tiltrú og traust á því að mikilli verðbólgu verði ekki leyft að festast í sessi. Ef allir búast við að verðbólga minnki þá er líklegra að svo verði (mynd 4).

Launafólk þarf þá ekki jafn mikla launahækkun til að fá sömu raunverulegu kjarabót. Að sama skapi er minni ástæða fyrir fyrirtæki að hækka verð í dag ef þau búast við hóflegri hækkun launakostnaðar í framtíðinni.

Fyrirtæki hækka einnig síður verð ef þau sjá að önnur fyrirtæki búast líka við minni verðhækkunum og verðbólgu í framtíðinni. Fyrirtæki vill forðast það að hækka verð á sínum vörum meira en samkeppnisaðilinn því þá missir það viðskiptavini sína.

Mynd 4: Hvernig hærri vextir Seðlabankans leiða til minni verðbólgu.

 

 

Hætta á að verðbólga fari úr böndunum og hagkerfið „ofhitni“ bregðist Seðlabankinn ekki við

Eins og nefnt var framar í greininni þá leiða hærri vextir til aukins kostnaðar fyrir einhver heimili og fyrirtæki til skamms tíma litið. Greiðslubyrði eykst t.d. hjá þeim sem eru með lán á breytilegum vöxtum og þeim sem þurfa á nýjum lánum að halda, hvort sem um er að ræða rekstrarlán, lán til fjárfestingar, húsnæðislán eða minni neyslulán.

Minni eftirspurn eftir vöru og þjónustu vegna hærri vaxta dregur að sama skapi úr tekjum og veldur því að atvinnuleysi verður meira en ella. Þótt fjárhagsleg staða heimila og fyrirtækja sé almennt sterk um þessar mundir, getur hærri vaxtakostnaður og aukið atvinnuleysi orðið þeim erfið á næstunni.

Vandamálið yrði hins vegar stærra og verra fyrir almenning til lengri tíma litið ef Seðlabankinn brygðist ekki við með hækkun vaxta. Mun meiri hætta yrði þá á að verðbólga ykist enn frekar og að hún festist í sessi. Þjóðhagslegt tap yrði þá meira enda gríðarlegur kostnaður sem mikil verðbólga hefur í för með sér, sérstaklega fyrir lágtekjuhópa (sjá nánar hér á eftir). Fleiri tækifæri glatast, lífsgæði verða verri en ella og atvinnuleysi meira. Það er einnig erfiðara og kostnaðarsamara að ná verðbólgu niður ef hún nær fótfestu.

Ef vextir eru ekki hækkaðir skapast einnig hætta á að eftirspurn aukist of mikið og hagkerfið „ofhitni“. Neysla og skuldsetning heimila og fyrirtækja yrði þá enn meiri, sparnaður minni og verð á eignum hærra. Slíkt gæti endað með snörpum viðsnúningi og jafnvel efnahagskreppu.

 

Seðlabankinn gæti einnig misst stjórn á verðbólguvæntingum ef hann hækkaði ekki vexti

Bregðist Seðlabankinn ekki við aukinni verðbólgu með trúverðugum hætti geta væntingar fólks um verðbólgu í framtíðinni farið úr böndunum. Ef fólk og fyrirtæki búast við meiri verðbólgu í framtíðinni er líklegra að sú verði raunin. Væntingar um verðbólgu að nokkrum árum liðnum skipta þar mestu máli.

Launafólk fer fram á meiri hækkun launa í dag ef það telur að verðlag muni hækka mikið í framtíðinni. Ef laun hækka of mikið þurfa fyrirtæki að hækka verð til að borga launin. Fyrirtæki hækka einnig verð í auknum mæli ef þau telja að önnur fyrirtæki munu gera slíkt hið sama, jafnvel einungis til að auka hagnað sinn. Væntingar um meiri verðbólgu í framtíðinni leiða þannig til þess að hún verður meiri í dag.

Þessi atburðarás getur undið upp á sig: laun og verðlag gæti hækkað á víxl og verðbólga farið stigvaxandi. Afar kostnaðarsamt og sársaukafullt getur reynst að vinda ofan af svona víxlverkandi atburðarás. Því er afar mikilvægt að koma í veg fyrir að hún fari af stað. Þess vegna er Seðlabankinn að hækka vexti.

 

Það tekur tíma fyrir vaxtahækkanir Seðlabankans að hafa áhrif á verðbólgu

Það tekur tíma fyrir vaxtahækkun Seðlabankans að hafa áhrif á verðbólgu að fullu; fyrstu áhrif geta komið fram strax en það getur tekið 1-2 ár fyrir vextina að virka almennilega. Verðbólga verður því líklega mikil í einhvern tíma til viðbótar áður en hún hjaðnar í markmið bankans. Hluta verðbólgunnar má einnig rekja til alþjóðlegra þátta sem bankinn hefur ekki stjórn á. Með því að hækka vexti getur Seðlabankinn þó dregið úr væntingum um að alþjóðleg verðhækkun valdi viðvarandi verðbólgu hér á landi og minnkað líkur á að fólk og fyrirtæki gangi út frá því við launa- og verðákvarðanir sínar.

 

Mikil og óregluleg verðbólga er afar skaðleg …

Slæmar afleiðingar mikillar verðbólgu eru margvíslegar og ekki allar augljósar. Kostnaður verðbólgunnar getur því verið nokkuð dulinn. Það sem fólk finnur beinast fyrir er hvað allt verður sífellt dýrara og að það fær minna og minna fyrir launin sín. Þetta gerir fólki erfiðara um vik að ná endum saman og framfleyta sér og sínum.

Önnur afleiðing mikillar verðbólgu er að verðskyn slævist en verðskyn er einmitt grundvallarforsenda virkrar samkeppni. Einstaklingar og fyrirtæki þurfa jafnframt að leggja ýmsan kostnað á sig til að draga úr áhrifum verðbólgunnar á eigin efnahag, m.a. til að koma í veg fyrir að peningar þeirra brenni upp á verðbólgubáli.

Til viðbótar gerir mikil og sveiflukennd verðbólga alla áætlanagerð erfiðari. Það torveldar skynsamlegar ákvarðanir um fjárfestingu og aðra ráðstöfun fjármuna. Mörg hagkvæm verkefni, einkum þá lengri verkefni, verða þá líklega ekki að veruleika. Þeim mun meiri sem verðbólgan er, þeim mun sveiflukenndara verður allt og þeim mun fleiri tækifæri glatast.

Í stuttu máli þá minnkar geta fólks og fyrirtækja til að ráðstafa tíma, fjármunum og öðrum takmörkuðum gæðum á skilvirkan hátt í mikilli og óreglulegri verðbólgu. Það gerir alla fátækari.

 

… og bitnar mest á tekjuminni heimilum

Mikil og óregluleg verðbólga bitnar mest á tekjulágum sem hafa minni tækifæri til að verja sig gegn verðbólgu og eiga síður sparnað sem þeir geta gengið á og notað til að takast á við verðhækkanir. Tekjulágir einstaklingar eiga því enn erfiðara með að ná endum saman og framfleyta sér og sínum. Mikil verðbólga eykur því félagslegan ójöfnuð og veldur því að laun margra duga ekki lengur fyrir öllum nauðsynjavörum, s.s. matvöru og húsnæði.

Félagslegar og efnahagslegar afleiðingar verða þeim mun alvarlegri sem verðbólga verður meiri og varanlegri. Það er því mikilvægt að stigið sé ákveðið á bremsuna svo hægt sé að slaka aftur á fyrr en síðar og til að minnka þörf á nauðhemlun ef ástandið færi úr böndunum.

 

Af hverju eru vextir hærri hér á landi en í flestum öðrum ríkjum Evrópu?

Verðbólga hefur líka aukist mikið í öðrum þróuðum ríkjum og hefur víða ekki mælst meiri í fjóra áratugi. Almenn verðbólga var t.d. svipuð hér og meðalverðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar seint á síðasta ári. Hún var meira að segja orðin meiri á evrusvæðinu og Bretlandi seint í fyrra en á Íslandi.2

Þrátt fyrir það hafa vextir ekki verið hækkaðir jafn mikið í þessum ríkjum né í flestum öðrum Evrópuríkjum (mynd 5). Fólk spyr sig því eðlilega: af hverju eru vextir hærri hér á landi?

 

 

Ákvörðun um vaxtastig ræðst af fjölmörgum þáttum sem geta verið mismunandi milli landa. Það er því ekki til einfalt og stutt svar við þessari spurningu. Hins vegar má benda á mikilvæga ákvörðunarþætti sem eru frábrugðnir hér á landi og skipta miklu við ákvörðun á vaxtastigi:

  • Innlend eftirspurn og efnahagsumsvif hafa verið kröftugri hér á landi: Talið er að hagvöxtur á Íslandi hafi verið 5½% í fyrra samanborið við um 3% í okkar helstu viðskiptalöndum. Þá er útlit fyrir að einkaneysla hafi vaxið um 7% hér á landi í fyrra eftir hátt í 8% vöxt árið 2021. Það er mjög mikill vöxtur. Kraftmeiri efnahagsumsvif endurspeglast m.a. í því að laun hafa hækkað mun meira hér á landi en á Norðurlöndum eða í öðrum viðskiptalöndum, og ekki bara nýlega heldur yfir langt tímabil.
  • Efnahagshorfur á næstu misserum eru einnig betri hér á landi: Áfram er búist við ágætis hagvexti á Íslandi í ár eða um 3%. Hins vegar er spáð litlum hagvexti í viðskiptalöndunum og jafnvel efnahagssamdrætti í sumum þeirra (m.a. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og á evrusvæði). Dekkri horfur erlendis skýrast að miklu af áhrifum orkukreppunnar en hún hefur minni áhrif hér.
  • Samsetning verðbólgunnar er ólík hér á landi: Mikil hækkun orkuverðs vegur þyngra í öðrum ríkjum. Þegar horft er fram hjá orku- og matvælaverði (svo kölluð kjarnaverðbólga) er verðbólga meiri hér á landi (mynd 6). Hún fór einnig almennt fyrr af stað á Íslandi og hefur aukist enn frekar hér. Erfiðara er að ná verðbólgu niður eftir því sem þessi undirliggjandi verðbólguþrýstingur er meiri.
  • Horfur eru á að verðbólga gæti orðið þrálátari hér á landi á næstu árum en víða erlendis í ljósi þróttmeiri efnahagsumsvifa og mismunandi samsetningar verðbólgunnar, þrátt fyrir að nú sé búist við hjöðnun húsnæðisverðs sem hefur vegið þungt í þróun verðbólgunnar hér.
  • Verðbólguvæntingar hafa hækkað meira hér á landi, sérstaklega væntingar um verðbólgu þegar horft er lengra fram á veginn. Ef fólk og fyrirtæki búast við meiri verðbólgu í framtíðinni er líklegra að svo verði raunin.

Allt ofangreint veldur því að meiri hætta er á að mikil verðbólga festist í sessi hér á landi. Seðlabankinn þarf því að bregðast ákveðið við til að svo verði ekki.

 

 

Peningastefnunefnd mun grípa til nauðsynlegra aðgerða til að ná verðbólgu niður

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ítrekað lýst því yfir að hún mun áfram grípa til nauðsynlegra aðgerða svo verðbólga hjaðni í 2½% verðbólgumarkmið bankans innan ásættanlegs tíma. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn.

Mikilvægt er að aðrir aðilar sem hafa mikil áhrif á umsvif í þjóðarbúinu leggist á eitt með Seðlabankanum og beiti sér þannig að verðbólga hjaðni sem fyrst niður í verðbólgumarkmið bankans. Á það bæði við um ríki og sveitarfélög ásamt atvinnurekendum og launafólki. Stöðug og lítil verðbólga stuðlar að almennri efnahagslegri velferð og skilar sér í bættum lífskjörum fyrir alla.

Höfundur: Kristófer Gunnlaugsson, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu

Neðanmálsgreinar:

[1] Eins og lesandi tekur líklega eftir þá valda bæði hærri vextir og aukin verðbólga því að fólk fær minna fyrir launin sín. Stór munur er hins vegar þarna á milli. M.a. hvetja hærri vextir til aukins sparnaðar og minni lántöku. Hækkun þeirra fær því fólk til að geyma meira af tekjum sínum í dag til að nota síðar. Verðbólga rýrir hins vegar verðgildi peninga, og veldur óskilvirkari ráðstöfun fjármuna (sjá nánar hér á eftir). Fólk getur því keypt minna fyrir hvern peningaseðil og sparnaður þess rýrnar. Einnig draga trúverðugar aðgerðir Seðlabankans úr væntingum fólks og fyrirtækja um framtíðarþróun verðbólgu. Það er mikilvægur hluti þess að ná verðbólgu niður eins og fjallað er um hér á eftir.

[2] Miðað við tiltekna mælikvarða mælist verðbólga jafnframt einna minnst hér á landi af öllum ríkjum Evrópu eða m.v. svo kallaða samræmda vísitölu neysluverðs. Sú vísitala inniheldur ekki húsnæðisliðinn.

Til baka