logo-for-printing

28. nóvember 2022

Hver yrðu möguleg áhrif þess ef laun hækka meira en nýjasta grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir?

Í þessari grein er fjallað stuttlega um fráviksspá sem birtist í nýjasta hefti Peningamála sem kom út 23. nóvember sl. þar sem lýst er mögulegum áhrifum þess að laun hækki meira á næsta ári en nú er gert ráð fyrir (sjá rammagrein 1 í Peningamálum 2022/4).

Núgildandi kjarasamningar hafa skilað launafólki töluverðum ávinningi. Raunlaun hafa hækkað um 7,2% frá því að skrifað var undir samningana vorið 2019 (þ.e. frá mars 2019 til september 2022) og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um ríflega 13% (frá fyrsta ársfjórðungi 2019 til annars ársfjórðungs 2022). Frá því í sumar hafa raunlaun hins vegar farið lækkandi milli ára sé miðað við verðbólgu samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þau hafa þó haldið áfram að hækka milli ára sé húsnæðisliður vísitölunnar undanskilinn. Hver væru möguleg efnahagsleg áhrif þess að reynt sé að endurheimta þennan tapaða kaupmátt í yfirstandandi kjaraviðræðum?

Til að kanna möguleg áhrif þessa er notast við DYNIMO-líkan Seðlabankans. Gert er ráð fyrir að nafnlaun hækki liðlega 5 prósentum meira á næsta ári í þeirri viðleitni að endurheimta sambærilegt raunlaunastig og var í upphafi ársins, áður en verðbólgan tók að grafa undan kaupmætti (mynd 1a). Það felur í sér að laun hækka um 11% milli ársmeðaltala á næsta ári í stað um 6% í grunnspánni og samtals um tæplega 24% á næstu þremur árum í stað 18% samkvæmt grunnspánni. Jaðarkostnaður fyrirtækja hækkar því töluvert meira en í grunnspánni og þau bregðast bæði við með því að ganga á hagnaðarhlutdeild sína og hagræða í rekstri, m.a. með því að stytta vinnutíma starfsfólks eða með uppsögnum. Það dugar þó ekki til og því bregðast þau einnig við með því að hækka afurðaverð sitt.

Eins og sést á mynd 1b fjölgar heildarvinnustundum um 2½ prósentum minna á næsta ári en samkvæmt grunnspánni og samtals eru þær 3% færri í lok spátímans. Lakari atvinnuhorfur vega á móti meiri hækkun nafnlauna og við bætast neikvæð áhrif hærri vaxta og aukinnar verðbólgu (sjá hér á eftir). Einkaneysla vex því hægar á öllum spátímanum og er ¾% minni en í grunnspánni í lok hans (mynd 1c). Hærri vextir hægja einnig á fjármunamyndun og þrýsta upp gengi krónunnar sem hægir á útflutningsvexti og beinir hluta innlendrar eftirspurnar að innflutningi. Hagvaxtarhorfur versna því samanborið við grunnspána: hagvöxtur er 1¾ prósentum minni á næsta ári en í grunnspánni sem myndi fela í sér að stór hluti þess hagvaxtar sem spáð er á árinu hyrfi (mynd 1d). Hagvöxtur yrði þá sá minnsti hér á landi síðan árið 2002 ef frá eru talin samdráttarárin í kjölfar fjármálakreppunnar og heimsfaraldursins. Hagvaxtarhorfur fyrir árið 2024 myndu einnig versna og landsframleiðslan yrði 2⅓% minni í lok spátímans en gert er ráð fyrir í grunnspánni.

Þrátt fyrir lakari hagvaxtarhorfur verður verðbólga meiri á spátímanum en samkvæmt grunnspánni. Verðbólga er næstum 1 prósentu meiri á næsta ári og ¾ úr prósentu meiri árin 2024-2025 (mynd 1e). Vextir Seðlabankans eru jafnframt hærri til að tryggja að verðbólga sé í samræmi við verðbólgumarkmið bankans er frá líður. Miðað við peningastefnureglu líkansins eru meginvextir bankans 1 prósentu hærri á næstu tveimur árum og ½ prósentu hærri árið 2025 (mynd 1)f.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

 

 
Til baka