logo-for-printing

30. nóvember 2020

Stjórnvaldssekt vegna brota Trygginga og ráðgjafar ehf. gegn 1. og 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 140. gr. f laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga

Bygging Seðlabanka Íslands
Hinn 11. nóvember 2020 tók fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands ákvörðun um að leggja stjórnvaldssekt, að fjárhæð 35 milljónir króna, á vátryggingamiðlunina Tryggingar og ráðgjöf ehf. (T&R).

Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að T&R hafi brotið gegn lögum um vátryggingasamninga með því að upplýsa ekki á pappírsformi eða öðrum varanlegum miðli, 125 viðskiptavini af 158 á tímabilinu frá 1. ágúst til 7. september 2019, um að ekki væri hægt að meta hvort ákveðin afurð, sem félagið hafði milligöngu um sölu á, samræmdist þörfum þeirra þar sem fullnægjandi upplýsingar, s.s. um þekkingu og reynslu viðskiptavina, lágu ekki fyrir eða upplýsingar voru ófullnægjandi. Einnig er komist að þeirri niðurstöðu í ákvörðuninni að T&R hafi brotið gegn lögum um vátryggingasamninga og lögum um dreifingu vátrygginga með því að hafa ekki farið að fyrirmælum 45 viðskiptavina af 158 á tímabilinu frá 1. ágúst til 7. september 2019, um fjárfestingarkosti, tapþol og áhættustig fjárfestinga sem fram komu á þarfagreiningareyðublöðum og þannig ráðlagt þeim um fjárfestingarleið sem samræmdist ekki þörfum þeirra.

Með háttseminni braut T&R gegn 1. og 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 140. gr. f laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Þá braut T&R einnig gegn 1. mgr. 32. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga en var ekki gerð sekt vegna þess brots.

Hér má finna ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar.
Til baka