logo-for-printing

25. apríl 2017

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2017

Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vorfundi 2017

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengda fundi sem haldnir voru í Washington 19. til 23. apríl sl. Fulltrúar Seðlabankans áttu m.a. fundi með stjórnendum og starfsfólki sjóðsins, fulltrúum fjármálastofnana og matsfyrirtækja ásamt því að sækja ráðstefnur í tengslum við fundina.

Á fundi fjárhagsnefndar sjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee) kynnti framkvæmdastjóri hans, Christine Lagarde, mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og helstu viðfangsefni framundan. Í ályktun fundarins kemur m.a. fram að hagvaxtarhorfur hafa batnað og hætta á verðhjöðnun minnkað. Enn gætir þó margvíslegrar óvissu, bæði stjórnmálalegrar og óvissu um efnahagsstefnu. Vakin er athygli á að alþjóðleg viðskipti, fjármálaleg samþætting og tækniframfarir hafi bætt lífskjör og dregið úr fátækt milljóna manna. Nefndin lýsti ásetningi sínum um að stefnt skuli að öflugum, sjálfbærum og atvinnuskapandi hagvexti sem skilar sér til sem flestra. Í því skyni skuli beita öllum tiltækum ráðum á sviði peningamála, ríkisfjármála og skipulagsumbóta. Auk þess skuli fjármálastöðugleiki tryggður. Í ályktuninni er einnig vikið að mikilvægi þess að skapa atvinnutækifæri fyrir alla, að þjálfa sveigjanlegt og menntað vinnuafl og aðstoða þá sem lenda í andstreymi af völdum tækniframfara eða samþættingar efnahagslífs.

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni fjármálaráðherra Danmerkur Kristian Jensen.

Hér að neðan eru tenglar á efni frá fundum:

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Kynning (Global Policy Agenda) Christine Lagarde framkvæmdastjóra sjóðsins á viðfangsefnum komandi tíðar

Yfirlýsing Kristian Jensen, fjármálaráðherra Danmerkur og fulltrúa kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd sjóðsins

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var af seðlabankastjórum og fulltrúum í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundinum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri er í þriðju öftustu röð.

Til baka