logo-for-printing

24. febrúar 2017

Ný greiðslukerfi

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands undirritaði í gær samning við ítalska hugbúnaðarframleiðandann SIA um kaup og innleiðingu á nýjum hugbúnaði fyrir millibankagreiðslur á Íslandi. Nýr búnaður mun leysa af hólmi núverandi stórgreiðslu- og jöfnunarkerfi sem verið hafa í rekstri frá 2001.

Stórgreiðslukerfi er greiðslukerfi sem gerir upp í rauntíma öll greiðslufyrirmæli á milli þátttakenda, þ.e. fjármálastofnana, þar sem hver greiðslufyrirmæli eru 10 milljónir íslenskra króna eða hærri. Jöfnunarkerfið er greiðslu- og uppgjörskerfi fyrir peningafærslur undir 10 milljónum króna. Heildarvelta í íslenskri millibanka-greiðslumiðlun nam um 21.000 milljörðum króna á síðasta ári.

Undirbúningur að forvali hugbúnaðarframleiðanda fór fram á seinni hluta ársins 2015 og lauk með birtingu á forvali á Evrópska efnahagssvæðinu í desember sama ár. Fimm fyrirtæki skiluðu inn forvalsgögnum. Eftir rýni og mat á þeim var ljóst að aðeins tvö þeirra uppfylltu skilyrði Seðlabanka Íslands og var þeim boðið að taka þátt í útboðinu.

Í framhaldinu var ráðist í útboð á verkefninu eftir ítarlega greiningu á þeim skilyrðum sem ný kerfi og viðkomandi hugbúnaðaraðili þurfa að uppfylla ásamt þeim kröfum sem gerðar eru til virkni millibankagreiðslumiðlunar hér á landi. Frestur til að skila inn tilboðum rann út 9. júní 2016. Að vel ígrunduðu máli var ákveðið að samþykkja tilboð ítalska hugbúnaðarframleiðandans SIA sem starfar einkum á sviði tæknilegra innviða fyrir fjármálastofnanir, seðlabanka og opinbera aðila víða um heim. Dótturfyrirtæki SIA, Perago, mun innleiða lausnina fyrir Seðlabanka Íslands en fyrirtækið hefur verið leiðandi í þróun greiðsluinnviða fyrir seðlabanka. Stórgreiðslukerfi SIA/Perago er notað víðar á Norðurlöndum. Í ljósi náins samstarfs Seðlabanka Íslands og seðlabanka á Norðurlöndum er ljóst að ákveðin samlegðaráhrif nást í framtíðinni varðandi mögulega aðlögun á kerfi SIA/Perago í samræmi við markaðs- og tækniþróun. Hugbúnaðurinn þarf á hverjum tíma að mæta alþjóðlega viðurkenndum kröfum um bestu framkvæmd því slíkar kröfur eru gerðar til uppbyggingar og rekstrar kerfislega mikilvægra fjármálainnviða eins og þeirra sem hér um ræðir.

Reiknað er með að nýr hugbúnaður verði að fullu kominn í notkun á árinu 2018.

 

Nánari upplýsingar veita Guðmundur Kr Tómasson og Páll Kolka Ísberg í síma 569 9600.

Nr. 4/2017
24. febrúar 2017

Til baka