logo-for-printing

02. mars 2016

Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2015

Bygging Seðlabanka Íslands

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2015 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Sjá hér pdf-skjal með fréttinni í heild með töflum og neðanmálstilvísunum. 

Vakin er sérstök athygli á að nauðasamningar þrotabúa innlánsstofnana í slitameðferð voru endanlega staðfestir á ársfjórðungnum. Áhrif þessa á erlenda stöðu þjóðarbúsins voru mikil. Áhrif á viðskiptajöfnuð munu aftur á móti ekki koma fram að fullu fyrr en á fyrsta ársfjórðungi árið 2016 þar sem nauðasamningarnir voru ekki staðfestir fyrr en undir lok ársfjórðungsins. Nánar er fjallað um áhrif uppgjörs innlánsstofnana í slitameðferð hér að neðan.

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 8 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 50,2 ma.kr. fjórðunginn á undan. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nam 14,2 ma.kr. en þjónustujöfnuður mældist hagstæður um 21,2 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 7,6 ma.kr. en rekstrarframlög óhagstæð um 6,7 ma.kr. Áhrif innláns-stofnana í slitameðferð á frumþáttatekjur voru jákvæð um sem nam 1,5 ma.kr. en reiknuð gjöld þeirra námu 8,8 ma.kr. og tekjur 10,3 ma.kr. Þáttatekjur án áhrifa þeirra voru því hagstæðar um 6,1 ma.kr. og viðskiptajöfnuður um 5,3 ma.kr.

Uppgjör þrotabúa innlánsstofnana í slitameðferð
Haustið 2008 voru þrotabú stærstu banka landsins tekin til slitameðferðar og félögin sett undir skilanefndir. Skuldir þeirra hafa haft mikil áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins allar götur síðan. Í desember síðastliðnum lágu fyrir bindandi nauðasamningar við kröfuhafa slitabúanna. Samningarnir kveða á um greiðslur til kröfuhafa í formi reiðufjár en einnig verða gefin út skulda- og hlutabréf í félögunum sem afhent verða kröfuhöfunum.

Samtals nema greiðslur til kröfuhafa 1.904 ma.kr. en afskrift skulda 7.134 ma.kr. Aðeins hluti greiðslnanna, eða sem nam um 462 ma.kr., kom til framkvæmda á fjórða ársfjórðungi. Eftir standa því 1.442 ma.kr. sem síðar verða greiddar til kröfuhafa í formi reiðufjár eða með afhendingu skulda- og hlutabréfa félaganna.

Frá og með þessari birtingu verður sérbirting á erlendri stöðu þjóðarbúsins með og án innlánsstofnana í slitameðferð hætt. Tölur um innlánsstofnanir í slitameðferð fyrir tímabilið frá fjórða ársfjórðungi 2008 til þriðja ársfjórðungs 2015 verða áfram aðgengilegar sem hluti af tímaröð sögulegra gagna á heimasíðu Seðlabankans. Birting á sérstakri greiningu undirliggjandi erlendrar stöðu þjóðarbúsins hefur jafnframt verið aflögð. Samhliða samþykkt nauðasamninganna í desember var félagaformi félaganna breytt í eignarhaldsfélög. Framvegis munu þau því teljast til annarra fjármálafyrirtækja í hagtölunum.

Erlend staða þjóðarbúsins
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.785 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 5.101 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 316 ma.kr. eða sem nemur 14,4% af VLF. Nettóskuldir lækkuðu um 7.196 ma.kr. eða sem nemur 328,6% af VLF á milli ársfjórðunga. Í töflu 2 er rakin þróun helstu eigna- og skuldaliða á ársfjórðungnum og eru breyt-ingar sundurgreindar í viðskipti í fjármagnsjöfnuði, gengis- og verð-breytingar og aðrar breytingar. Hrein fjármagnsviðskipti leiddu til um 33 ma.kr. bættrar erlendrar stöðu. Þar af lækkuðu erlendar eignir um 448 ma.kr. og skuldir um 486 ma.kr. vegna viðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nam 7.163 ma.kr. á ársfjórðungnum en þar af voru 7.134 ma.kr. vegna afskrifta skulda innlánsstofnanna í slitameðferð. Gengis- og verð-breytingar, aðrar en vegna afskrift skulda, námu 29 ma.kr. Munar þar mestu um hækkun á erlendri hlutabréfaeign en verð erlendra hlutabréfa hækkaði um 5% að meðaltali á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar lækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum, utan Bandaríkjadals, á fjórða ársfjórðungi eða að jafnaði um 0,6% samkvæmt gengisskráningarvog. Gengið lækkaði þannig um 1% gagnvart evru, 0,8% gagnvart sterlings-pundi en hækkaði um 1,8% gagnvart Bandaríkjadal.


Frétt nr. 6/2016
2. mars 2016

Til baka