logo-for-printing

22. febrúar 2016

Efni frá málstofu um fjármálasveifluna á Íslandi

Bygging Seðlabanka Íslands

Efni frá málstofu um fjármálasveifluna á Íslandi er nú aðgengilegt hér:

Glærur frá málstofu um fjármálasveifluna á Íslandi, 23. febrúar 2016

Drög að seinni hluta rannsóknarinnar: The long history of financial boom-bust cycles in Iceland - Part 2: Financial cycles

Fyrri hluti rannsóknarinnar: The long history of financial boom-bust cycles in Iceland. Part 1. Working paper no. 68, August 2015.

Gagnasafn um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013

Efni frá málstofu um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013

Á málstofunni kynnti Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, rannsókn á mikilvægi samspils fjármálakerfis og þjóðarbúskapar í efnahagsþróun Íslands yfir ríflega aldartímabil. Niðurstöðurnar sýna m.a. að fjármálasveiflan gegnir mikilvægu hlutverki í framvindu efnahagsmála og við að magna upp ójafnvægi og koma af stað fjármálakreppum á Íslandi. Rannsóknin er seinni hluti rannsóknarverkefnis þeirra Þórarins, Bjarna G. Einarssonar, Kristófers Gunnlaugssonar og Þorvarðar Tjörva Ólafssonar, en í þeim fyrri var fjallað um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013.

Ágrip:

Claudio Borio, aðalhagfræðingur Alþjóðagreiðslubankans, sagði nýlega að „þjóðhagfræði án fjármálasveiflunnar sé eins og Hamlet án prinsins“ (Borio, 2014, bls. 183). Við svörum kalli hans og tökumst á við tilvistarspurningu prinsins í íslensku samhengi. Niðurstöður okkar sýna að fjármálasveiflan sé vissulega til staðar hér á landi og að henni hafi smám saman vaxið ásmegin, ekki síst samfara aukinni frjálsvæðingu og áframhaldandi þróun innlends fjármálakerfis frá því á níunda áratug síðustu aldar. Með því að byggja á gögnum sem ná yfir ríflega aldartímabil og ná yfir útlán og húsnæðisverð auk stærðar og samsetningar bankakerfisins, komumst við að því að fjármálasveiflan sé miklu lengri en hin hefðbundna hagsveifla. Meðallíftími fjármálasveiflunnar er þannig fimmtán ár og hún virðist bæði vera að lengjast og ágerast eftir því sem líður á tímabilið. Niðurstöður okkar sýna að verulegur munur er á efnahagsumsvifum í ólíkum fösum fjármálasveiflunnar, sem gefur til kynna að hún gegni mikilvægu hlutverki í efnahagsþróuninni. Reyndar er það svo að nánast allir toppar fjármálasveiflunnar eiga samleið með einhvers konar fjármálakreppu. Uppsveiflufasi fjármálasveiflunnar virðist því nokkuð áreiðanlegur fyrirboði um væntanlega fjármálakreppu. Fjármálasveiflan er þannig betur til þess fallin að gefa vísbendingu um væntanlega fjármálakreppu en einstaka fjármála- eða þjóðhagsstærðir, sem sýnir hversu mikilvægu hlutverki samspil ólíkra fjármálastærða gegnir við að magna upp fjármálalegt ójafnvægi. Samkvæmt niðurstöðum okkar er íslenska fjármálasveiflan ótrúlega tengd þeirri alþjóðlegu (sem við nálgum með því að meta fjármálasveiflu Bandaríkjanna). Þannig eiga nær allir toppar innlendu fjármálasveiflunnar sér stað nærri toppum alþjóðlegu fjármálasveiflunnar (ýmist á sama ári eða einu til tveimur árum á eftir). Auk þess eru vísbendingar um að þessi smitáhrif hafi færst í aukana yfir tímabilið. Niðurstöður okkar benda því til þess að það sé erfitt að skilja efnahagsþróunina á Íslandi án þess að skilja fjármálasveifluna og að ef við kjósum að horfa framhjá henni, sé það á eigin ábyrgð. Við ljúkum rannsóknarritgerð okkar með því að gera fyrstu tilraun til að takast á við ýmsar af þeim hagstjórnarlegu spurningum sem niðurstöður okkar velta upp.

 

 

Til baka