logo-for-printing

08. júní 2015

Breytingar á lögum um gjaldeyrismál

Bygging Seðlabanka Íslands

Breytingar á lögum um gjaldeyrismál
Samþykktar hafa verið breytingar á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Þær meginbreytingar sem gerðar hafa verið á lögunum snúa annars vegar að almennum breytingum sem ætlað er að stemma stigu við sniðgöngu á fjármagnshöftum og hins vegar að sértækum breytingum sem varða fjármálafyrirtæki sem sæta eða lokið hafa slitameðferð. Helstu breytingarnar eru þessar:
Í fyrsta lagi hafa verið gerðar breytingar á lögum um gjaldeyrismál annars vegar til nánari skýringar á hugtakinu samningsbundin afborgun og hins vegar til skýringar á að greiðslur af lánasamningum megi ekki vera á grundvelli ákvæða sem leitt geta til þess að endurgreiðslu láns sé hraðað.
Í öðru lagi er um að ræða breytingu á 13. gr. c laga um gjaldeyrismál, sem fjallar um gjaldeyrisviðskipti milli innlendra og erlendra aðila. Felur breytingin í sér að fallin fjármálafyrirtæki og lögaðilar sem stofnaðir eru í tengslum við efndir nauðasamnings þeirra, er aðeins heimilt að eiga gjaldeyrisviðskipti, þar sem íslenskar krónur eru hluti af viðskiptunum, við viðskiptabanka eða sparisjóði hér á landi. Þessi takmörkun mun hins vegar ekki koma í veg fyrir að þessir lögaðilar geti nýtt erlendan gjaldeyri í sinni eigu við úthlutun til kröfuhafa í tengslum við uppgjör sem Seðlabankinn hefur veitt undanþágu fyrir.
Í þriðja lagi er um að ræða breytingu á 13. gr. g laga um gjaldeyrismál, sem fjallar um lántökur og lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila. Felur breytingin í sér að fallin fjármálafyrirtæki og lögaðilar sem stofnaðir eru í tengslum við efndir nauðasamnings þeirra er aðeins heimilt að eiga lánaviðskipti innan samstæðu að uppfylltum almennum skilyrðum laganna fyrir lánveitingum og lántökum á milli landa.
Í fjórða lagi er um að ræða breytingu á 13. gr. j laga um gjaldeyrismál, sem fjallar um greiðslur af lánum í erlendum gjaldeyri. Felur breytingin í sér að innlendum aðilum er ekki heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri vegna endurgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, nema lánstími sé ekki skemmri en tvö ár eða lán hafi verið veitt vegna greiðslna til erlends aðila vegna vöru- og þjónustuviðskipta. Þetta gildir um lán sem tekin eru eftir gildistöku laganna. Felur breytingin jafnframt í sér að aðeins er heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri vegna endurgreiðslu lána og greiðslu áfallinna ábyrgða innan samstæða, hafi lánið uppfyllt almenn skilyrði laganna fyrir lánveitingum og lántökum milli landa. Þá felur breytingin í sér að föllnum fjármálafyrirtækjum og lögaðilum sem stofnaðir eru í tengslum við efndir nauðasamnings þeirra er óheimilt að kaupa erlendan gjaldeyri vegna endurgreiðslu lána og greiðslu áfallinna ábyrgða, nema slík lán séu veitt í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti.
Í fimmta lagi er um að ræða breytingu sem fellir úr gildi sérstakar undanþágur sem fallin fjármálafyrirtæki hafa haft frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál. Þau hafa þó enn undanþágu frá skilaskyldu erlends gjaldeyris, að frátöldum lántökum í erlendum gjaldeyri.
Tilgangur framangreindra breytinga er að takmarka möguleika aðila til að sniðganga fjármagnshöftin sem er forsenda þess að áform stjórnvalda um losun fjármagnshafta nái fram að ganga.
Lögin voru komin í gildi við opnun markaða í morgun og tekur framkvæmd Seðlabanka Íslands varðandi fjármagnshöft mið af því.

Breytingar á lögum um gjaldeyrismál.pdf

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699600.

Til baka