logo-for-printing

22. apríl 2015

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2015

Skjaldarmerki
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum dagana 16. til 19. apríl. Fulltrúar Seðlabankans áttu auk þess fundi með stjórnendum AGS og fulltrúum fjármálastofnana ásamt því að sækja ráðstefnu um þjóðhagsvarúð.

Á fundi fjárhagsnefndar AGS (e. International Monetary and Financial Committee) kynnti framkvæmdastjóri AGS mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og helstu viðfangsefni AGS (sjá meðfylgjandi).

Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Lettlands, Jānis Reirs, og má nálgast yfirlýsingu hans fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er undir forystu Agustín Carstens, seðlabankastjóra Mexíkó, kemur m.a. fram að spáð er áframhaldandi efnahagsbata. Talið er að hagvöxtur muni aukast hjá þróuðum ríkjum en að það dragi úr vexti í nýmarkaðsríkjum. Heildaráhrif lækkunar á olíuverði eru talin jákvæð fyrir heimsbúskapinn þótt áhrifin séu mismunandi á einstök aðildarríki sjóðsins. Ýmis áhætta er enn til staðar í heimsbúskapnum. Þannig stafar hætta af miklum sveiflum í gengi helstu gjaldmiðla, viðvarandi lítilli verðbólgu, óvissu um fjármálastöðugleika, háum skuldum hins opinbera auk stjórnmálalegri óvissu. Nefndin fagnaði stofnun Neyðar- og viðbragðasjóðsins (e. Catastrophe Containment and Relief (CCR) sem hefur það hlutverk meðal annars að aðstoða ríki sem hafa orðið fyrir ebólufaraldrinum. Að lokum lýsti nefndin yfir miklum vonbrigðum með hversu hægt hefur gengið að ljúka umbótum á stjórnskipulagi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hófust árið 2010. Umbæturnar miða m.a. að því að auka hlutdeild nýmarkaðsríkja í yfirstjórninni í samræmi við aukið vægi þeirra í heimsbúskapnum. Sem fyrr voru stjórnvöld í Bandaríkjunum hvött til þess að staðfesta umbæturnar.


Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vorfundi 2015

Sjá nánar:
1. Skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um alþjóðleg viðfangsefni. (e. Managing Director´s Global Policy Agenda to the IMFC)
2. Yfirlýsing Jānis Reirs, fjármálaráðherra Lettlands, fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á vorfundi 2015.pdf
3. Ályktun fjárhagsnefndar AGS á vorfundi 2015
Til baka