logo-for-printing

13. október 2014

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2014

Seðlabankastjórar á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2014

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fundur fjárhagsnefndar sjóðsins árið 2014 voru haldnir dagana 10. -12. október í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti fundina, en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja var flutt af seðlabankastjóra Finnlands, Erkki Liikanen. Fulltrúi kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Finnlands, Antti Rinne.

Seðlabankastjóri átti jafnframt fundi með starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fulltrúum alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og lánshæfisfyrirtækja og sótti ráðstefnu á vegum AGS um framtíð fjármálakerfisins. Þá sótti seðlabankastjóri fund stýrinefndar sem hann á sæti í um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör. 

Í umræðum í fjárhagsnefnd AGS og tengdum fundum kom fram að óvissa og skortur á trausti til framtíðar halda enn aftur af fjárfestingum og hagvexti. Í ályktun fjárhagsnefndar AGS er bent á að alþjóðahagkerfið haldi áfram að rétta úr kútnum en hagvöxtur er ójafn og veikari en búist hafði verið við. Nefndin var einhuga um að vinna að því að glæða eftirspurn og losa um framboðstakmarkanir með hagstjórn og skipulagsumbótum. Einnig var lögð áhersla á að stuðla að fjármálastöðugleika og sjálfbærum ríkisfjármálum.

Meðfylgjandi eru ræður og yfirlýsingar frá ársfundinum, auk ályktunar:

Ályktun fjárhagsnefndar AGS, október 2014

Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, flutt af Erkki Liikanen, seðlabankastjóra Finnlands

Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS, flutt af Antti Rinee, fjármálaráðherra Finnlands

Sjá nánar á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 

Mynd sem tekin var af seðlabankastjórum í aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ársfundi sjóðsins um síðustu helgi. Már Guðmundsson seðlabankastjóri er í þriðju öftustu röð, rétt hægra megin við miðju:


Seðlabankastjórar á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2014

Til baka