logo-for-printing

20. ágúst 2014

Yfirlýsing peningastefnunefndar 20. ágúst 2014

Peningastefnunefnd 2012

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Efnahagshorfur til næstu þriggja ára eru samkvæmt nýrri spá Seðlabankans sem birtist í dag í stórum dráttum svipaðar og spáð var í maíhefti Peningamála. Horfur eru þó á að vöxtur innlendrar eftirspurnar verði ívið meiri í ár og út spátímann.

Verðbólguhorfur hafa heldur batnað frá maíspánni og útlit er fyrir að verðbólga verði nálægt markmiði á spátímanum. Framleiðsluspenna myndast seinna og verður ekki eins mikil og í síðustu spá. Verðbólguvæntingar hafa lítið breyst að undanförnu og eru enn yfir markmiði ef horft er til lengri tíma.

Gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans undanfarið ár hafa stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar. Á þessu ári hefur bankinn keypt gjaldeyri verulega umfram það sem hann hefur selt bæði í reglulegum kaupum og óreglulegum viðskiptum. Stefnt er að því að regluleg kaup haldi áfram í núverandi umfangi svo lengi sem aðstæður breytast ekki umtalsvert. Eftir sem áður mun Seðlabankinn beita óreglulegum viðskiptum í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar.

Slakinn í taumhaldi peningastefnunnar er líklega horfinn og miðað við grunnspá bankans er útlit fyrir að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu í markmiði. Kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu þó leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir Seðlabankans þyrftu að hækka frekar.


Nr. 26/2014
20. ágúst 2014



Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:
Daglán: 7,0%
7 daga veðlán: 6,0%
Viðskiptareikningar: 5,0%
7 daga bundin innlán: 5,25%
Til baka