logo-for-printing

07. maí 2014

Hvað skuldar þjóðarbúið? Hvað skuldar ríkið? Hvað eru erlendar skuldir miklar?

Bygging Seðlabanka Íslands

Það getur ruglað ýmsa í ríminu í hraðri samfélagsumræðu þegar verið er að ræða skuldatölur þjóðarbúsins, ríkisins, heimila og fyrirtækja og flokka þær í skuldir í krónur og erlenda gjaldmiðla, að ekki sé talað um þegar tölum um svokallaðar undirliggjandi skuldir er bætt við.

Starfsfólk Seðlabanka Íslands fékk spurningu frá einstaklingi nýverið þar sem óskað var eftir svörum við nokkrum spurningum um helstu skuldir sem skipta máli í umræðu um þjóðarhag. Þar sem gera má ráð fyrir að margir fleiri séu að velta þessum hlutum fyrir sér er spurningarnar og svörin við þeim að finna hér að neðan, en svörin hafa verið sótt á vef bankans og í fáein rit sem starfsmenn bankans hafa umsjón með.

1. Hvað eru skuldir íslenska þjóðarbúsins miklar ?
a. Erlendar skuldir íslenskra aðila námu 12.295 milljörðum króna í lok árs 2013. Þar af námu skuldir innlánsstofnana í slitameðferð um 9.281 milljarði króna eða um 75,5% af heildarskuldum. Sjá hér.
b. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að reikna má með að þegar uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna er lokið verða þessar skuldir miklu lægri. Þess vegna er rétt að reyna að meta svokallaða undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins, þ.e. þær skuldir sem verða eftir þegar uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna er lokið. Reikna má með að við uppgjör á búunum lækki erlendar skuldir íslenskra aðila í heild verulega. Í Fjármálastöðugleika 2014/1 kemur fram að svokallaðar brúttó undirliggjandi erlendar skuldir eru taldar hafa numið um 3.690 milljörðum króna í lok árs 2013 og hrein erlend staða þjóðarbúsins, eignir að frádregnum skuldum, hafi þá verið neikvæð um 944 milljarða króna eða 53% af landsframleiðslu.

2. Hverjar eru skuldir íslenska ríkisins í heild? 
Samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins (útg. í apríl 2014 – efst á bls. 5) eru heildarskuldir íslenska ríkisins rúmlega 1.418 milljarðar króna. Af því eru tæplega 357 milljarðar króna skuldir í erlendum gjaldmiðlum og rúmlega 1.061 milljarður króna skuldir í íslenskum krónum.

3. Hvenær og hverjar eru næstu afborganir?
Myndin Endurgreiðsluferill lána ríkissjóðs á síðu sjö í Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins sýnir þetta í grófum dráttum, en nákvæmari tölur eru: 34 milljarðar króna á þessu ári, 234 milljarðar króna á næsta ári, 197 milljarðar króna árið 2016, 18 milljarðar á árinu 2017 og 234 milljarðar á árinu 2018. 

4. Hve mikið er eftir að borga af Icesave-skuldinni?
Eins og fram kemur í Fjármálastöðugleika 2014/1 á síðu 78 var það nálægt 610 milljörðum króna þegar ritið var gefið út.

Sjá ítarlegri heimildir:
A. Peningamál. Þar er reglulega fjallað um opinber fjármál og ytri stöðu þjóðarbúsins. Sjá m.a. hér: Nýjustu Peningamál. Enn fremur hér: Peningamál í heild. Sjá t.d. síðasta hefti á árinu 2013, kafla V og kafla VII.
B. Vefsíða Seðlabankans, Hagtölur Seðlabankans, þar sem eru upplýsingar um erlendar skuldir.
C. Fjármálastöðugleiki, nr. 2014/1, blaðsíður 21 og 22 þar sem fjallað er um Undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins. Sjá hér: Fjármálastöðugleiki.
D. Markaðsupplýsingar - Lánamál ríkisins, apríl 2014. Upplýsingar um skuldir ríkissjóðs eru aðgengilegar hér: Markaðsupplýsingar.
E. Fjármálastöðugleiki, 2014/1, bls. 78 þar sem fjallað er um ICESAVE-skuldina. Sjá hér: Fjármálastöðugleiki.
F. Viðauki II í Fjármálastöðugleika, 2014/1. Erlend staða þjóðarbúsins og horfur næstu árin. Sjá hér: Fjármálastöðugleiki.

Til baka