logo-for-printing

11. mars 2014

Greiðsluveita Seðlabankans fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Bygging Seðlabanka Íslands

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur veitt Greiðsluveitunni ehf., félagi í eigu Seðlabanka Íslands, nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Félagið er í hópi 11 íslenskra hlutafélaga sem fengu þessa viðurkenningu á ráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvarinnar í dag.

Greiðsluveitan er jafnframt í hópi þeirra fyrirtækja sem fram koma á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi 2013 en aðeins 1% af íslenskum fyrirtækjum stenst þau skilyrði sem Creditinfo setur. Greiðsluveitan er í 88. sæti af alls 462 fyrirtækjum sem tilgreind eru í flokki framúrskarandi fyrirtækja. 

Meginhlutverk Greiðsluveitunnar er að starfrækja kerfislega þýðingarmestu fjármálainnviði landsins í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma. Nánar tiltekið eru þetta stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, jöfnunarkerfið, SWIFT og heimildar- og færsluvísingarkerfi fyrir greiðslukort. Seðlabanki Íslands er eini hluthafi félagsins. Stjórn félagsins telur að samfélagsleg ábyrgð þess felist m.a. í því að grunnkerfi íslenskrar greiðslumiðlunar uppfylli alþjóðlegar reglur og viðmið um bestu framkvæmd um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Félagið á og rekur eftirfarandi fjármálainnviði:

• Birting, sem er kerfi sem gerir þátttakendum kleift að birta í netbönkum sínum ýmiss konar skjöl á rafrænu formi sem þeir sjálfir eða viðskiptavinir þeirra útbúa.

• Jöfnunarkerfi, sem tekur á móti greiðslufyrirmælum þátttakenda að fjárhæð allt að 10 milljónum króna á öllum tímum sólarhringsins. Uppgjör á sér stað tvisvar á dag á sérhverjum bankadegi, í gegnum stórgreiðslukerfi Seðlabankans.

• RÁS-kerfi, sem annast miðlun á heimildar- og uppgjörsfærslum rafrænna greiðslna (debet- og kreditkortagreiðslna). Færslunum er miðlað milli söluaðila og færsluhirðis eða tækniþjónustufyrirtækja þeirra.

• SWIFT, sem kemur greiðslufyrirmælum, tilkynningum og öðrum samskiptum sem leyfileg eru samkvæmt SWIFT (Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunication) til erlendra og innlendra banka og fjármálastofnana.

Þá hefur félagið með höndum tiltekna þætti í rekstri stórgreiðslukerfis Seðlabankans. Nánari upplýsingar um starfsemi Greiðsluveitunnar er að finna á heimasíðu félagsins: www.greidsluveitan.is.

Til baka