logo-for-printing

02. október 2013

Yfirlýsing peningastefnunefndar 2. október 2013

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Bráðabirgðatölur benda til þess að hagvöxtur á fyrri hluta ársins hafi verið rúmlega 2%, sem er nokkru meira en gert var ráð fyrir í ágústspá Seðlabankans. Batinn á vinnumarkaði hefur einnig haldið áfram.

Verðbólga jókst nokkuð á þriðja fjórðungi ársins í takt við ágústspá bankans. Inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa stuðlað að minni sveiflum krónunnar. Verðbólguvæntingar hafa þó ekki lækkað og kann það að markast af óvissu um áhrif greiðslubyrði erlendra lána, uppgjöra búa fallinna banka og losunar fjármagnshafta á gengisþróun næstu missera. Einnig skiptir máli óvissa vegna komandi kjarasamninga.

Í ágústspá Seðlabankans var gert ráð fyrir launahækkunum í kjarasamningum sem eru umfram það sem samræmist verðbólgumarkmiðinu og var þá byggt á sögulegri reynslu. Verði launahækkanir í samræmi við spána er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum heldur áfram að minnka. Launahækkanir umfram það auka líkur á vaxtahækkunum enn frekar. Verði launahækkanir hins vegar í samræmi við verðbólgumarkmið mun verðbólga að öðru óbreyttu hjaðna hraðar en gert er ráð fyrir í spánni og vextir verða lægri en ella.

Peningastefnan hverju sinni þarf að taka mið af stefnunni í opinberum fjármálum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Áform í opinberum fjármálum hafa skýrst nokkuð með nýju fjárlagafrumvarpi. Í samræmi við fyrri áætlanir gerir nýtt fjárlagafrumvarp ráð fyrir að afgangur á jöfnuði fyrir fjármagnstekjur og -gjöld (þ.e. frumjöfnuður) aukist frá þessu ári og að skuldir lækki sem hlutfall af landsframleiðslu. Mikilvægt er að heildarafgangur náist á ríkissjóði sem fyrst þannig að samspil stefnunnar í peninga- og ríkisfjármálum stuðli með sem minnstum tilkostnaði að ytra jafnvægi þjóðarbúsins, efnahagslegum stöðugleika og verðbólgu í samræmi við markmið.

Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum misserum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.

Nr. 33/2013
2. október 2013

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:
Daglánavextir: 7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%

Vextir við Seðlabanka Íslands 2. október 2013 (pdf)

Til baka