logo-for-printing

20. mars 2013

Yfirlýsing peningastefnunefndar 20. mars 2013

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Fyrstu mælingar á hagvexti síðasta árs sýna minni vöxt en spáð var í febrúar síðastliðnum. Hagvöxtur á árinu 2011 hefur aftur á móti verið endurmetinn til hækkunar. Áfram eru horfur á hægum efnahagsbata og eru leiðandi vísbendingar af vinnumarkaði í samræmi við það. Verðbólga reyndist hins vegar töluvert meiri í febrúar en reiknað hafði verið með. Á móti vegur hækkun á gengi krónunnar frá því í febrúar.

Ákvörðun Seðlabankans um að hætta um hríð reglubundnum kaupum gjaldeyris og styðja við gengi krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði hefur, ásamt öðrum aðgerðum, reynst árangursrík. Aðgerðir bankans hafa dregið úr hættu á að sjálfuppfylltar væntingar um lækkun gengis veiki krónuna enn frekar og hafa þær þannig stutt við peningastefnuna.

Þótt heldur hafi hægt á efnahagsbatanum um sinn heldur slakinn í þjóðarbúskapnum áfram að minnka. Laust taumhald peningastefnunnar styður við efnahagsbatann. Minnki verðbólga hægar en áður var spáð þarf að draga úr slaka peningastefnunnar fyrr en ella. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun gengis krónunnar og launaákvörðunum á komandi misserum.

Frétt nr. 10/2013
20. mars 2013

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:
Daglánavextir:     7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%

Vextir Seðlabanka Íslands: Vextir 20. mars 2013

Til baka