logo-for-printing

06. febrúar 2013

Yfirlýsing peningastefnunefndar 6. febrúar 2013

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Nýlegar hagtölur benda til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en áður var talið og horfur eru á hægari hagvexti í ár en spáð var í nóvember. Fjöldi unninna stunda í þjóðarbúskapnum hefur aukist minna en spáð var. Þótt hægari vöxtur dragi nokkuð úr verðbólguþrýstingi þegar líða tekur á spátímabilið vegur þyngra framan af að spáin byggist á lægra gengi krónunnar en í nóvember. Verðbólguhorfur eru því í stórum dráttum svipaðar og þá.

Lakari viðskiptakjör hafa að undanförnu dregið úr afgangi vöru- og þjónustujafnaðar á sama tíma og þungi gjaldeyrissöfnunar vegna afborgana af erlendum lánum hefur verið mikill. Gengi krónunnar hefur því veikst. Töluverð óvissa er um hversu langvarandi þessi áhrif verða og þar með um þróun gengis á næstunni. Einnig er hætta á að sjálfuppfylltar væntingar um lækkun gengis veiki það enn frekar. Í ljósi þessara aðstæðna hefur Seðlabankinn ákveðið að hætta um hríð kaupum gjaldeyris og styðja við gengi krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hefur stutt við efnahagsbatann. Hækkun vaxta undanfarið 1½ ár og hjöðnun verðbólgu hafa dregið umtalsvert úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun gengis krónunnar og launaákvörðunum á komandi misserum. 

 

Nr. 3/2013
6. febrúar 2013 

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:

Daglánavextir: 7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%

Til baka