logo-for-printing

10. september 2012

Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum

Sérrit Seðlabanka Íslands nr. 7, Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, verður gefið út mánudaginn 17. þessa mánaðar.

Í ritinu er fjallað með ítarlegum hætti um mismunandi valkosti í gjaldmiðils- og gengismálum og þá þætti sem hafa þarf í huga þegar lagt er mat á heppilegasta fyrirkomulag þessara mála á Íslandi. Þótt megináherslan sé á að skoða kosti og galla þess að leggja af krónuna og taka upp evru með aðild að evrusvæðinu, spannar umfjöllunin einnig kosti og galla aðildar að öðrum myntsvæðum, upptöku annars gjaldmiðils auk annars konar gengistenginga.

Í ritinu er einnig fjallað um reynslu Íslendinga af núverandi fyrirkomulagi peninga- og gengismála og hún borin saman við reynslu evruríkja eftir aðild, í aðdraganda fjármálakreppunnar og í kjölfar hennar. Að síðustu fjallar ritið um stofnanauppbyggingu evrusvæðisins og þá stofnanaþætti sem þyrfti að breyta hér á landi gerðist Ísland aðili að myntbandalaginu.

Ritið er rúmlega 600 blaðsíður að lengd og fjöldi kafla er 25. Ritið verður aðgengilegt á vef Seðlabanka Íslands, www. sedlabanki.is að útgáfu lokinni. Ensk þýðing á völdum hluta ritsins verður fljótlega aðgengileg á heimasíðu bankans.
Í tilefni af útgáfu ritsins verður haldinn sérstakur kynningarfundur fyrir fjölmiðla mánudaginn 17. september kl. 16:00 í Sölvhóli í Seðlabanka Íslands. (ATH: fundurinn er klukkan 16:00 en ekki kl. 15:00 eins og áður var nefnt)

Til baka