logo-for-printing

18. apríl 2011

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dagana 15. til 17. apríl 2011

Fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn 16. apríl. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri var fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessu sinni og sótti fundinn. Að auki átti aðstoðarseðlabankastjóri fundi með matsfyrirtækjum og stjórnendum og starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sótti jafnframt ráðstefnu um fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarnir. Fundina sóttu einnig Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra.

Fram kom á fundi fjárhagsnefndarinnar að hagkerfi heimsins virðist vera á batavegi. Hins vegar standa ýmis hagkerfi enn berskjölduð. Í því ljósi var það mat nefndarmanna að nauðsynlegt væri að hefjast handa við trúverðugar aðgerðir til að renna enn frekari stoðum undir ríkisfjármálin og efnahagsreikninga fjármálastofnana. Eins er talið mikilvægt að ríki leitist við að draga úr ytra ójafnvægi þar sem það á við. Rík áhersla var lögð á að auka atvinnustig og efla sjálfbæran hagvöxt. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Strauss-Kahn, ítrekaði m.a. í ávarpi sínu til fjárhagsnefndarinnar að löndin sem mynda hagkerfi heimsins séu tengdari en nokkru sinni fyrr og að af þeim sökum þurfi aðildarríki að sýna meiri ábyrgð í hagstjórn. Jafnframt þarf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í auknum mæli að taka tillit til þess í sínum störfum hversu tengd hagkerfi heimsins eru. Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd AGS var fjármálaráðherra Noregs, Sigbjørn Johnsen. Yfirlýsing kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS er birt í heild sinni á vefsíðum Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og má nálgast hér, ásamt sameiginlegri yfirlýsingu fjárhagsnefndarinnar og yfirlýsingu framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja vor 2011 

Sameiginleg yfirlýsing fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vor 2011

Yfirlýsing framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vor 2011

Tvisvar á ári gefur skrifstofa Norðurlanda og Eystrasaltslanda út skýrslu um þau málefni sem hafa verið efst á baugi hjá framkvæmdastjórn sjóðsins síðustu sex mánuði. Skýrslan fjallar um fimm meginmálefni: Eftirlitshlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, alþjóðleg peninga- og fjármálakerfi, stuðning við þróunarríki og innri málefni. Sjá nánar:

Vorskýrsla skrifstofu Norðurlanda og Eystrasaltslanda um málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, apríl 2011 (pdf)

Til baka