logo-for-printing

04. febrúar 2011

Yfirlýsing vegna umræðu um þagnarskyldu, upplýsingaskyldu og söluferli Sjóvár

4. febrúar 2011

Hinn 28. janúar síðastliðinn mætti seðlabankastjóri á fund viðskiptanefndar Alþingis ásamt aðallögfræðingi Seðlabankans og framkvæmdastjóra Sölvhóls, sem er eignaumsýslufélag Seðlabankans. Tilefnið var söluferli Sjóvár. Í framhaldi af þessum fundi hefur sprottið upp umræða á Alþingi og víðar sem er með þeim hætti að ekki verður undan því vikist að bregðast við. Lengst hefur umræðan gengið þegar þess er krafist að seðlabankastjóri fremji lögbrot en víki ella! Sú staðreynd að Seðlabankinn má ekki samkvæmt lögum upplýsa um alla þætti þessa máls hefur væntanlega að einhverju leyti alið á tortryggni en það hefur heldur ekki hjálpað að frásagnir af fundi viðskiptanefndar hafa verið brotakenndar og því villandi. Hér verður reynt að bæta að einhverju leyti úr því og gera grein fyrir meginsjónarmiðum í þessu máli.

Bakgrunnur þessa máls er sá að Seðlabanki Íslands sat uppi með rúmlega 73% hlutafjáreign í Sjóvá í framhaldi af bankahruninu. Undir lok árs 2009 stofnaði Seðlabankinn tvö einkahlutafélög til að halda utan um þær kröfur sem hann stóð uppi með eftir bankahrunið og var þessi þar á meðal. Hér er annars vegar um að ræða eignarhaldsfélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) og eignaumsýslufélagið Sölvhóll ehf. Markmiðið var fyrst og fremst að fá skýrari bókhaldslegan og kostnaðarlegan aðskilnað frá meginstarfsemi Seðlabankans. Breytingin var samþykkt af bankaráði Seðlabanka Íslands, enda ber því samkvæmt Seðlabankalögum að staðfesta tillögur seðlabankastjóra um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans. Jafnframt var bankaráðinu heitið því að breytingin myndi engin áhrif hafa á það hlutverk þess að fylgjast með eignum bankans, eða með öðrum orðum að þessi starfsemi heyrði að fullu undir lög um Seðlabanka Íslands og engin breyting yrði með henni á lögbundnu hlutverki þess né seðlabankastjóra. Það er því mikill misskilningur sem komið hefur fram í umræðu um þetta mál að stofnun þessara félaga víki til hliðar ákvæðum Seðlabankalaga. Það var þannig ekki tilgangurinn með stofnun félaganna að sniðganga á neinn hátt lög og reglur um starfsemi Seðlabankans. Til að undirstrika þetta enn frekar sitja aðeins seðlabankastjóri og yfirmenn úr bankanum í stjórnum þeirra og er stjórnarsetan ólaunuð. Það er því líka misskilningur að þegar seðlabankastjóri mætti fyrir viðskiptanefnd hafi hann verið þar sem stjórnarformaður ESÍ en ekki seðlabankastjóri, enda var það skýrt tekið fram í boði nefndarinnar að beðið var um seðlabankastjóra.

Seðlabankinn mun á næstunni birta eins ítarlega greinargerð um söluferli Sjóvár eins og honum er heimilt samkvæmt lögum. Meginatriðið hvað það mál varðar hér er að Sjóvá hefur verið í opnu söluferli síðan snemma á síðasta ári. Teknar voru upp viðræður við þann fjárfestahóp sem hæst bauð og um haustið lá fyrir óundirritaður kaupsamningur. Þá komu upp mál sem 35. grein Seðlabankalaga, sem og önnur ákvæði laga um þagnarskyldu, gera Seðlabankanum óheimilt að skýra frá opinberlega hver voru. Eftir skoðun fjölda lögfræðinga lá fyrir að það myndi teljast alvarlegt brot í starfi af hálfu seðlabankastjóra, og annarra sem fjölluðu um málið innan Seðlabankans, ef gengið hefði verið frá umræddri sölu án þess að fá fyrst niðurstöðu varðandi það mál sem upp var komið. Fulltrúum fjárfestahópsins var skýrt frá þessu en jafnframt að Seðlabankinn væri fyrir sitt leyti tilbúinn til að bíða þar til málin skýrðust frekar. Þessu vildi hópurinn ekki una og sagði sig frá ferlinu. Það var því ekki Seðlabankinn sem sleit samningum við hópinn. Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að FME var um þessar mundir í gangi með athugun á hæfi væntanlegra eigenda og gaf af því tilefni út yfirlýsingu í kjölfar þess að fjárfestahópurinn dró tilboð sitt til baka.

Þetta varð þó ekki til þess að söluferli Sjóvár stöðvaðist því áður en til þess kom bauðst hluti fjárfestahópsins, þ.e. SF1, til að kaupa Sjóvá á sömu kjörum og lágu á borðinu síðastliðið haust. Auk þess lýsti SF1 yfir áhuga á að kaupa strax meirihluta í félaginu eins og fyrri hópnum stóð einnig til boða. ESÍ stóð því til boða að velja á milli þess að ganga að efnislega samhljóða tilboði og hinn óundirritaði kaupsamningur kvað á um eða selja meirihluta strax, samanber þann kaupsamning sem nú hefur verið undirritaður. Það var mat sérfræðinga Sölvhóls og stjórnar ESÍ að hagstæðara hafi verið að selja meirihlutann strax. SF1 hafði enn fremur snemma í söluferlinu verið metinn sérstaklega og talinn uppfylla öll skilyrði. Það er því mikill misskilningur að það að ganga til samninga við SF1 hafi stangast á við skilmála söluferlisins eða verið brot á einhverjum verklagsreglum. Þessu til viðbótar er rétt að nefna að í samningnum er ákvæði þess efnis að þegar eigendahópur SF1 liggur endanlega fyrir, verði hver og einn þeirra að hljóta samþykki ESÍ, auk venjubundins samþykkis eftirlitsaðila.

Þegar seðlabankastjóri fékk seint í nóvember boð um að mæta á fund viðskiptanefndar til að ræða söluferli Sjóvár hafði hann strax samband við formann nefndarinnar og skýrði honum frá því að þagnarskylduákvæði í lögum virtust hamla því að hann gæti skýrt nefndinni frá atvikum þeim sem urðu til þess að fjárfestahópurinn sagði sig frá ferlinu og því myndi slíkur fundur að óbreyttu verða hálfgerð tímasóun. Hann stakk upp á því að því yrði frestað að hann mætti og að aðallögfræðingur Seðlabankans myndi setjast yfir það með aðallögfræðingi Alþingis að skoða hvort það væru einhver ákvæði í öðrum lögum, svo sem þingskaparlögum, eða eitthvað fyrirkomulag á upplýsingagjöfinni, svo sem trúnaðaryfirlýsing nefndarmanna sem myndu gera honum kleift að upplýsa málið að fullu án þess að eiga á hættu málsókn eða ásökun um brot í starfi. Ekki tókst að finna á þessu neina lausn enda virðist ekkert vera í lögum sem hnikar til þagnarskyldu í tilefni af fyrirspurnum þingnefnda.

Aðallögfræðingur Seðlabankans fór ítarlega yfir hina lagalegu hlið á fundi viðskiptanefndar en engar gagnröksemdir komu fram á fundinum. Hér er því ekki við Seðlabankann að sakast. Til að þessu sé breytt verður annað hvort að koma fram gild lögfræðileg rök þess efnis að skilningur þeirra lögfræðinga sem hafa komist að ofangreindri niðurstöðu sé rangur eða að Alþingi breyti lagarammanum, en þá yrði það jafnframt skýrt að refsiábyrgð vegna birtingar trúnaðarupplýsinga myndi ná til þingmanna en ekki þeirra embættismanna sem létu þær af hendi í þingnefndum. Hvort sem það verður í framhaldi af því að ofangreindur lagaskilningur er hrakinn, að lögum er breytt eða aðrar löglegar leiðir finnast mun ekki standa á Seðlabankanum að upplýsa viðskiptanefnd að fullu um málið.

En þýðir þetta þá að þingið geti ekki gegnt eftirlitshlutverki sínu í þessu máli, eins og sumir hafa haldið fram? Alls ekki. Fyrst er að nefna að Alþingi kýs bankaráð til að hafa eftirlit með starfsemi bankans. Það er háð sömu þagnarskyldu og aðrir starfsmenn bankans, samkvæmt 35. grein Seðlabankalaga, og getur því fengið allar upplýsingar um þá þætti í starfsemi Seðlabankans sem þagnarskylda myndi ella ná til. Bankaráðið hefur verið að fullu upplýst um söluferli Sjóvár, þ.m.t. þau atvik sem komu upp síðastliðið haust. Það hefur engar athugasemdir gert við ákvarðanir bankans hvað þetta varðar. Þá má nefna að ríkisendurskoðandi er innri endurskoðandi Seðlabankans. Hann fékk í árslok allar upplýsingar um málið, þ.m.t. þær sem þagnarskylda nær til. Hann hefur tjáð Seðlabankanum að hann geri engar athugasemdir við málsmeðferðina. Hann lýsti því einnig yfir á fundi viðskiptanefndar en einhverra hluta vegna hefur það vantað í frásagnir af fundinum hingað til. Að lokum má nefna að Umboðsmaður Alþingis hefur stjórnsýsluþátt málsins til skoðunar og mun fá frá Seðlabankanum allar þær upplýsingar sem hann biður um í samræmi við ákvæði í lögum um hans embætti.

Kjarni þessa máls er sá að í söluferli Sjóvár og tengdum atvikum hafa engar meiriháttar ákvarðanir verið teknar sem telja má á einhvern hátt óeðlilegar, enda vel grundaðar og leitað álita utanaðkomandi lögfræðinga og sérfræðinga eftir því sem þótt hefur þurfa. Það er því ekki að ástæðulausu að allir þeir sem hafa allar upplýsingar um málið og eiga að hafa eftirlit með starfsemi Seðlabankans samkvæmt lögum hafa ekki gert athugasemdir við málsmeðferðina. Það er líka ljóst að það var á engan hátt ámælisvert af seðlabankastjóra að upplýsa viðskiptanefnd ekki um þau mál sem samkvæmt lögum ríkir þagnarskylda um. Þvert á móti, það hefði verið stórlega ámælisvert og líklega alvarlegt brot í starfi hefði hann gert það. Að lokum er ljóst að það myndi henta Seðlabankanum ágætlega ef hann hefði getað upplýst nefndina að fullu um málið þar sem það hefði eytt tortryggni og forðað bankanum frá óþægilegri umræðu. En þá má ekki gleyma því að þagnarskylduákvæði Seðlabankalaga eru ekki sett til að forða Seðlabankanum frá eftirliti heldur til að vernda viðskiptamenn bankans og þá sem hann kann hafa til skoðunar vegna margvíslegra verkefna sinna.

Ítarefni:

Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins vegna frétta um sölu Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36 22. maí 2001

Sjá sérstaklega 35. grein laga um Seðlabanka Íslands:
„Bankaráðsmenn, [seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd]1) og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Bankaráðsmönnum, [seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra, nefndarmönnum í peningastefnunefnd]1) og öðrum starfsmönnum Seðlabankans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið skulu gera með sér samstarfssamning þar sem m.a. er kveðið nánar á um samskipti stofnananna. “

Til baka