logo-for-printing

03. nóvember 2010

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands - Vextir Seðlabankans lækkaðir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 4,0% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 5,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 5,5% og daglánavextir í 7,0%.

Verðbólga minnkaði áfram í september og október, eftir töluverða hjöðnun frá því í mars. Tólf mánaða verðbólga var 3,3% í október, eða 2,6% ef áhrif hærri neysluskatta eru frátalin, sem er við verðbólgumarkmiðið. Slaki í þjóðarbúskapnum, lækkandi verðbólguvæntingar og gengishækkun krónunnar það sem af er ári styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður þróttur innlends efnahagslífs í ár og á næsta ári heldur minni en Seðlabankinn spáði í ágúst. Enn er þó gert ráð fyrir að efnahagsbati hefjist á seinni hluta ársins. Verðbólga hefur hjaðnað hraðar en spáð var í ágúst og gert er ráð fyrir að verðbólga verði við markmið bankans í lok árs, að hún verði komin niður fyrir 2% á næsta ári, en aukist síðan í átt að markmiði.

Frá fundi peningastefnunefndar í september hefur viðskiptavegið meðalgengi krónu hækkað um tæplega 1%, en krónan hefur veikst lítið eitt gagnvart evru. Eins og vænst var hafa reglubundin kaup Seðlabankans á gjaldeyri, sem hófust 31. ágúst síðastliðinn, ekki haft veruleg áhrif á gengi krónunnar. Gjaldeyrishöftin, þróun viðskiptakjara og annarra þátta sem áhrif hafa á viðskiptajöfnuð, ásamt aðhaldsstigi peningastefnunnar í samanburði við helstu viðskiptalönd halda áfram að styðja við gengi krónunnar.

Peningastefnunefndin telur að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni verðbólga eins og spáð er. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa hins vegar óvissu um hversu mikið svigrúmið er til skemmri tíma. Nefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.

Nr. 31/2010
3. nóvember 2010

Til baka