logo-for-printing

13. ágúst 2009

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Sterkari króna forsenda áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 12% og vöxtum á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum óbreyttum í 9,5%.

Gengi krónu hefur verið stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun, en mun lægra en peningastefnunefndin hefur talið viðunandi. Fyrir vikið hefur hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Eigi að síður er þess vænst að verðbólga minnki hratt á ný síðar á árinu.

Þegar höft á fjármagnshreyfingar eru til staðar ætti aukinn afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum að styrkja gengi gjaldmiðilsins. Tímabundnir áhrifaþættir, t.d. rýrnun viðskiptakjara, árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila og árstíðarbundin aukning innflutnings, hafa á ýmsum tímum haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar. Áhyggjuefni er hins vegar að gengi krónunnar hefur ekki hækkað að þessum tímabundnu áhrifum gengnum. Því er mikilvægt að ábati af krónueignum sé nægur. Það hefur bæði áhrif á tilhneigingu til þess að fara í kringum gjaldeyrishöftin og á hvata útflutningsfyrirtækja til að breyta gjaldeyristekjum sínum í krónueignir.

Staða erlendra aðila í krónum hefur lækkað nokkuð undanfarna mánuði, sem bendir til þess að farið sé í kringum höftin í einhverjum mæli. Fyrirtæki virðast einnig hafa byggt upp innstæður á gjaldeyrisreikningum í innlendum bönkum. Þær hafa þó lítið breyst undanfarnar vikur. Engin skýr merki eru um að lækkun stýrivaxta fyrr á þessu ári eigi umtalsverðan þátt í því að farið sé í kringum höftin, að innstæður á gjaldeyrisreikningum hafi aukist, eða að hún skýri almennt lágt gengi krónunnar. Þó er ekki heldur hægt að útiloka slík tengsl. Á meðan krónan er jafn veik og hún hefur verið undanfarna mánuði eru því sterk rök gegn frekari lækkun vaxta.

Fyrsti áfangi afnáms gjaldeyrishafta, sem mun felast í því að leyfa innflæði nýs fjármagns, mun sennilega hefjast eigi síðar en 1. nóvember, í samræmi við áætlun Seðlabankans. Peningastefnunefndin mun forðast að gera nokkuð sem gæti skapað efasemdir um staðfastan ásetning hennar að stuðla að stöðugleika krónunnar og lítilli verðbólgu. Peningastefnan getur þannig aukið tiltrú á efnahagslífið, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Til vaxtahækkana getur komið af þessum sökum ef aðstæður kalla á slíkt.

Eins og fram hefur komið í fyrri yfirlýsingum peningastefnunefndar, hefur náðst árangur á nokkrum sviðum sem skipta máli þegar kemur að því að auka tiltrú á efnahagslífinu. Ríkisstjórnin hefur lagt fram langtímaáætlun í ríkisfjármálum, endurskipulagning bankakerfisins er langt komin og lánasamningar hafa verið gerðir við önnur lönd. Lánin munu auka tiltrú á getu Seðlabankans til þess að styðja við krónuna þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt. 
 
Ekki hefur þó allt gengið sem skyldi. Töf hefur orðið á því að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda. Ástæða þess er að samningar við Bretland og Holland bíða samþykkis Alþingis, en án þess gæti lánasamningum við Norðurlöndin og gjaldmiðlaskiptasamningum við norrænu seðlabankana verið stefnt í tvísýnu. Ísland hefur fullnægt öllum öðrum skilyrðum efnahagsáætlunarinnar.
Áframhaldandi hjöðnun verðbólgu er mikilvægur þáttur þess að endurvekja traust á efnahagslífinu og krónunni.

Verðbólga minnkaði hratt á tímabilinu frá janúar fram í apríl, en síðan hefur hægt á hjöðnuninni og hún jafnvel snúist við, ef miðað er við þriggja mánaða árstíðarleiðrétta verðbólgu á árskvarða. Meginástæða þessarar þróunar er gengislækkun krónunnar frá því í mars.

Þrátt fyrir lægra gengi krónunnar og hækkun neysluskatta, sem munu tímabundið auka mælda verðbólgu, er því spáð að verðbólga að undanskildum skattaáhrifum, sem er viðeigandi viðmið við framkvæmd peningastefnunnar, muni halda áfram að minnka næstu tvö árin. Samkvæmt uppfærðri spá mun núverandi og væntur slaki á vöru- og vinnumarkaði koma í veg fyrir umtalsverð annarrar umferðar áhrif.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt fimmtudaginn 24. september 2009.

Nr. 26/2009
13. ágúst 2009

Til baka